Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Fyrir rúmri viku var Svavar Gestsson að skýra það í Ed. hvers vegna Alþb. hefði tekið sæti Sjálfstfl. í ríkisstjórn og með því bjargað matarskattinum fyrir Jón Baldvin. Líkingin var þessi: Íhaldið þóttist hafa lykilinn að paradís í sínum höndum en var auðvitað ekki með hann, hann var í mínum höndum. Þessi var þankagangur Svavars Gestssonar.
    Nú hafa menn hlýtt á hæstv. forsrh. þegar hann var að lýsa þessari paradís Alþb., þessari paradís félagshyggjunnar sem hann er nú að leiða þjóðina inn í. Myndin er að vísu óglögg, en samt sést að gróðurmoldin er rangt skráð gengi. Þar sem maður gat búist við skrautlegum blómum standa fyrirtæki höllum fæti og atvinnuleysi blasir við. Í staðinn fyrir aldintré, sem svigna undan safaríkum ávöxtum, sjáum við bogin bök undan þungum skattaálögum. Nýjum pinklum er bætt á byrðarnar jafnt og þétt eins og regn fellur til jarðar.
    Þetta er paradís ráðherrasósíalistans Svavars Gestssonar og nýkratans Jóns Baldvins Hannibalssonar. Sá fyrrnefndi er samur við sig. Við sjáum það á bráðabirgðalögunum að hann hefur engu gleymt síðan hann var síðast í ríkisstjórn. Hvort kjarasamningar eru skertir 13 eða 14 sinnum, 7 sinnum eða 70 sinnum 7 sinnum, það skiptir engu máli fyrir Alþb. Hvort samningsrétturinn er heilagur eða ekki er þægilegt rabb yfir kaffibolla milli þeirra Ólafs Ragnars Grímssonar og stuðningsmanns hans og flokksbróður Ögmundar Jónassonar, nýkjörins formanns Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sem nú hefur tekið upp aðra fiðlu og leikur á lægri nótum en áður.
    Fjölmargir vildi trúa því fyrir síðustu kosningar að kratarnir meintu það í raun og veru að þeir stefndu að því að gera þjóðfélagið opnara og frjálsara en áður. Við sjálfstæðismenn töldum okkur eiga þar traustan bandamann sem skildi nauðsyn þess að samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja yrði bætt þannig að þau gætu staðist keppinautana í Evrópubandalaginu. Og það er rétt að kratarnir reyndust vel á fyrsta sprettinum en skorti úthald.
    Á síðasta þingi stóðum við saman um það, sjálfstæðismenn og kratar, að koma fram fjölþættri löggjöf á sviði skattamála sem bætti samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja og greiddi fyrir eðlilegum viðskiptum. Á síðasta stigi kom Jón Baldvin að þessu verki og það var gaman að vera með honum í þinginu og reka endahnútinn á þetta. Nú kveður við annan tón hjá krötum. Nú vilja þeir ekki lengur ríkisstjórn sem losar um hnútana og höftin, heldur vilja þeir banna fólkinu að búa við sama frjálsræðið í viðskiptum og atvinnuháttum og sjálfsagt þykir í Vestur-Evrópu. Nú er frjálslyndi og frjálshyggja skammaryrði á þeirra vörum, en í staðinn tala þeir um félagshyggju sem er það sama og forsjárhyggja eins og hún er skilgreind í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar. Og ef menn vilja sjá fyrir sér í hverju forsjárhyggjan er fólgin þá er hún persónugerð í Stefáni Valgeirssyni, stofnauka ríkisstjórnarinnar.

    Við höfum séð þann boðskap sem hæstv. sjútvrh. flutti fiskiþingi. Sjútvrh. er vissulega í erfiðri stöðu. Hann veit að hann getur ekki treyst stuðningi stjórnarþm. við fiskveiðistefnuna og sumir eru í opinberri andstöðu við hana eins og Karvel Pálmason og Skúli Alexandersson sem báðir eiga sæti í sjútvn. Ed. Sjútvrh. veit enn fremur að í ríkisstjórninni er enginn skilningur á stöðu sjávarútvegsins. Kratarnir eru haldnir sömu bábiljunni og áður um óbreytt gengi þótt krónan sé fallin. Alþb. finnst þægilegt að láta þessi mál brenna á öðrum.
    Við þessi erfiðu skilyrði, með engan bakstuðning frá formanni sínum né frá samstarfsflokkum sínum í ríkisstjórn, stendur sjútvrh. nú frammi fyrir því að fiskifræðingar telja nauðsynlegt að draga verulega úr sókn í helstu fiskstofna okkar. Sjútvrh. veit vel að eins og nú er þrengt að sjávarútveginum þolir hann engan samdrátt í afla. Það er því skiljanlegt að hann skuli segja að efnahagsástandið í landinu þoli ekki að farið sé að tillögum fiskifræðinga. Það verður auðvitað alltaf pólitískt mat hversu langt eigi að ganga í þeim efnum. En því miður grunar mig að ástandið í ríkisstjórninni sé þannig að sjútvrh. treysti sér ekki til að ganga eins langt til verndar fiskstofnunum og hann telur rétt að gera og hann hefði kosið að gera í annarri og betri ríkisstjórn. Það er alvarlegt mál þegar skynsamleg nýting á auðlindum sjávarins strandar á skilningsleysi stjórnvalda.
    Margt orkaði tvímælis í ræðu forsrh. og sumt er beinlínis rangt. Ekkert var þó jafnmikið öfugmæli og það að ríkisstjórnin vilji jafnvægi í byggðaþróun eins og fyrstu aðgerðir hennar hafa verið og eins og ríkisstjórnin birtist okkur í fjárlagafrv. Forsrh. sagði: Byggðasjóður verður efldur. Í frv. stendur svart á hvítu að framlagið verði óbreytt í krónutölu. Það þýðir minnkun sem nemur verðbólgunni. Jafnframt eru lánsheimildir Byggðasjóðs skornar niður við trog. Þetta er þó ekki aðalatriðið heldur hitt að landsbyggðin hlýtur að standa og falla með því hvernig búið er að sjávarútveginum, en ríkisstjórnin hefur einsett sér að tryggja ekki rekstrargrundvöll útflutningsgreina eins og hvað eftir annað hefur komið fram hjá forsrh. Einungis með því að hægt sé að græða á útgerð og að frystihúsin skili hagnaði geta sjávarplássin hringinn í
kringum landið haldið sínum hlut og fólkið verið kyrrt í sinni heimabyggð þar sem það vill vera. Það getur enginn lánasjóður, hversu stór sem hann er, komið í staðinn fyrir heilbrigðan rekstur né mattadorar í Reykjavík í staðinn fyrir fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag.
    Góðir Íslendingar. Við sjálfstæðismenn viljum að Íslendingar standi jafnfætis þeim þjóðum sem fremstar eru í atvinnulegri uppbyggingu, í lífskjörum, í menningarlegu tilliti. En það getum við ekki gert nema við búum við sama frjálsræði og þar er og höfum kjark til að bregðast við breytilegum aðstæðum á hverju tíma. Andstæðingar okkar brigsla okkur um frjálshyggju. Ég segi: Við höfnum haftahyggjunni sem við höfum nú fundið smjörþefinn af.

    Í stað þess að vel rekin fyrirtæki í sjávarútvegi geti skilað arði er stofnaður Atvinnutryggingarsjóður. Í stað þess að gefa einstaklingunum olnbogarými eru boðaðar þyngri skattaálögur en nokkru sinni og nýjar kvaðir á atvinnureksturinn. Í stað þess að bregðast við erfiðleikunum með bjartsýni og myndarskap bera ráðstafanir ríkisstjórnarinnar það með sér að þar fara menn sem ekki trúa á það sem þeir eru að gera og kunna engin ráð.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.