Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Það er sagt að hveitibrauðsdögum sé lokið þegar hann hringir heim og segist verða of seinn matinn, en hún hefur þegar skilið eftir nótu á eldhúsborðinu þar sem stendur: Matarleifarnar eru í ísskápnum.
    Mér heyrðist hálfpartinn á máli þeirra fyrrv. samstarfsmanna minna, þeirra sjálfstæðismanna, að þeim sé líkt innanbrjósts og manninum sem kom of seint heim í matinn. En það sem verra er, mér heyrðist líka að það sé orðið fátt um fína drætti í ísskápnum hjá þeim Valhallarbúum nema ef vera skyldi dálítið viðbrenndar lærissneiðar. Viðreisnarhveitibrauðsdögunum er lokið að sinni. Sjálfstfl. má sjálfum sér um kenna. Ástæðan fyrir því að upp úr slitnaði seinasta stjórnarsamstarfi er að lokum sú að Sjálfstfl. brást sjálfum sér.
    Leyfist mér, virðulegi forseti, að leiða fram vitni. Maður heitir Einar Oddur Kristjánsson, frystihússtjóri á Flateyri, formaður fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Vestfjarðakjördæmi. Hann varð þjóðfrægur á einni nóttu þegar fyrrv. forsrh. gerði hann að bjargvætti sínum í forstjóranefndinni frægu. Bjargvætturinn skilaði sínum tillögum en Sjálfstfl. klofnaði í tvennt í afstöðu til þeirra og náði ekki saman aftur um neinar tillögur sem mark var á takandi. Um þessa lífsreynslu vitnar Einar Oddur í tímaritsviðtali. Hann segir:
    ,,Það er ferlegt að Sjálfstfl. skyldi hætta forustu þegar framleiðsluatvinnuvegirnir liggja á hliðinni.`` Og hann bætir við: ,,Ég vona að almenningur sé enn þá það óbrenglaður að gera sér grein fyrir því að foringjar fara fyrir liði en ekki á eftir.`` Og að lokum segir bjargvætturinn: ,,Þeir sem ekki geta stjórnað sjálfum sér, þeir geta ekki stjórnað öðrum.`` Vitnaleiðslum lokið, virðulegi forseti, að sinni.
    Hvað segja þeir sjálfstæðismenn um úrræði núv. ríkisstjórnar? Þeir segja tvennt: Í fyrsta lagi: Við erum á móti millifærslum. Við erum á móti Atvinnuleysistryggingasjóðnum. Við erum á móti spilverki sjóðanna. Þetta segja jafnvel þeir hinir sömu menn sem sitja með þeim sem mest er gagnrýndur, Stefáni Valgeirssyni, í sjóðsstjórnunum, í bankaráði Búnaðarbankans, í Stofnlánadeild landbúnaðarins, í stjórn Byggðastofnunar. Ég segi nú bara eins og kynbomban fræga ameríska, May West, sagði: Það er að vísu rétt. Menn kaupa sér ekki hamingju með peningum, en þeir bæta stundum samningsaðstöðuna, sagði hún.
    Þeir segja annars staðar, sjálfstæðismenn, að þessar aðgerðir skili ekki varanlegum árangri. Það er laukrétt hjá þeim, viðurkennt, kom fram í máli hæstv. forsrh. Þetta eru neyðarráðstafanir, björgunarleiðangur. Við ætlum okkur að draga úr undirrót verðbólgunnar, þenslunni, keyra niður verðbólgu og vexti, eyða óvissu, skapa meiri stöðugleika í efnahagsumhverfinu. Jafnframt ætlum við að nota tímann til þess að búa okkur undir grundvallarbreytingar á auðlinda- og atvinnustefnu, peninga- og fjármagnskerfi, ríkisfjármálum, sbr. fjárlagafrv.
    Það mátti ekki tæpara standa. Við höfum vissulega

orðið fyrir áföllum. Það þýddi ekki að halda rifrildinu áfram í fyrrv. stjórn. Tími athafna var kominn. Við verðum að sigla þjóðarskútunni í gegnum þann öldudal sem við höfum lent í og bæta rá og reiða þegar við erum komin á lygnari sjó.
    Virðulegi forseti. Hverjar voru tillögur og úrræði sjálfstæðismanna? Þær voru: Gengisfelling, millifærsla og vanhugsaðar tillögur í skattamálum. Nánast endurtekning maíaðgerðanna sem runnu út í sandinn. Þetta var niðurstaðan eftir endalaust hringl fram og aftur, þar sem þeir m.a. unnu það afrek að hafna tillögum sinna eigin manna svona nokkurn veginn jafnóðum sem þær bárust.
    Það varð fleygt þegar títt tilvitnaður Einar Oddur frá Flateyri, bjargvættur, sá þessar tillögur fyrst hjá efnahagsráðgjafa fyrrv. forsrh., ummæli hans voru fleyg. Hann sagði, og ég vitna í dagblað: ,,Ætlar þú, frjálshyggjumaður í fílabeinsturni að galdra upp úr þínum bögglaða pípuhatti dauðar kanínur og veifa framan í oss, gjaldþrota menn?`` Það tók nefnilega forstjóranefndina tvo daga að sópa gengisfellingartillögunum út af borðinu. Hvers vegna? Vegna þess að þær tillögur hefðu stóraukið verðbólgu. Höfuðstóll skulda hefði hækkað. Vextir hefðu snarhækkað, erlendar skuldir hefðu hækkað, innlendar skuldir hefðu hækkað, erlendar rekstrarvörur hefðu hækkað, innlendar sömuleiðis. Við óbreyttar aðstæður hefði þessi gengisfelling runnið út í sandinn á nokkrum vikum, gert illt verra, eyðilegt möguleika á verðstöðvun, komið í veg fyrir möguleika á lækkun vaxta, endað með lokun fyrirtækja og atvinnuleysi. Þessar tillögur gengu ekki upp.
    Það var þess vegna sem við jafnaðarmenn og framsóknarmenn höfnuðum þessum tillögum. Við skoruðum á hæstv. fyrrv. forsrh. að draga þær til baka en hann hafnaði því og þar með brast boginn úr höndum honum og þar með ríkisstjórnarforræði Sjálfstfl.
    Við þetta bættist síðan að á seinustu stundu fleygðu þeir sjálfstæðismenn fram --- ég segi vanhugsuðum tillögum í skattamálum. Þeir boðuðu allt í einu á seinasta sólarhring fyrra samstarfs nýjar undanþágur frá söluskattskerfinu sem við höfðum sameiginlega barist fyrir að koma á. Þar með höfðu þeir snúið baki við forsendunum fyrir því að taka hér upp virðisaukaskatt og teflt því máli í
tvísýnu.
    Á sama tíma og þeir lýstu þungum áhyggjum af stöðu ríkisfjármála, og gera enn, þá þýddu þessar tillögur þeirra tekjutap fyrir ríkissjóð upp á 1,2 milljarða. Á sama tíma lá tvennt annað fyrir. Ráðherrar Sjálfstfl. höfðu tekið þunglega öllum tillögum um niðurskurð í ríkisútgjöldum. Reyndar komu fagráðherrar þeirra með nýjar útgjaldatillögur upp á mörg hundruð millj. í stað þess að halda sig innan ramma um lækkun ríkisútgjalda. Síðan koma þeir og veitast að fyrrv. samstarfsmanni sínum og fjmrh. og saka hann um að bera ábyrgð á því að það tókst ekki að ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Loks hafði þingflokkur Sjálfstfl. samþykkt að hafna öllum

tillögum um nýja tekjuöflun.
    Þetta voru tillögur Sjálfstfl. sem þeir kölluðu í fyrstu hinar einu ábyrgu. Þær gengu ekki upp. Samstarfsmennirnir höfnuðu þeim. Þar með var ekki lengur samstarfsgrundvöllur. Miðað við það ástand sem blasti við í atvinnumálum, í ríkisfjármálum, í vaxta- og peningamálum hafði Sjálfstfl. með þessum tillögum dæmt sig úr leik. Og eins og Einar Oddur segir: Þeir sem ekki geta stjórnað sjálfum sér, þeir geta ekki stjórnað öðrum.
    Þessa stundina beinist gremja þeirra sjálfstæðismanna sérstaklega að okkur alþýðuflokksmönnum þótt þess hafi nú gætt í minna mæli í kvöld en oft áður. Sagði ekki Guðrún Ósvífursdóttir af öðru tilefni: ,,Þeim var ég verst er ég unni mest.`` Þeir saka okkur um óheilindi í stjórnarsamstarfinu. Þeir sem það mæla vita betur. Þeir tala þvert um hug sér. Það er Sjálfstfl. sem brást sjálfum sér. Því miður. Þeir sögðu að við værum hræddir við skoðanakannanir og hefðum þess vegna viljað hlaupast brott. Ekki hræddari en svo að þegar okkur var ekki lengur líft í þessari ríkisstjórn málefnanna vegna, þá yfirgáfum við hana og tókum fullkomna áhættu á kosningum. Við sögðum við þjóðina: Ástandið er núna þannig að það er ekki skynsamlegt að efna til kosninga. En áhættuna tókum við.
    Síðan hefur nokkuð borið á því að þeir segðu: Jón Baldvin vildi flýja úr fjmrn. af því að viðskilnaðurinn var svo óskaplegur. Ég vil leyfa mér, virðulegi forseti, að taka af tvímæli um það hver var viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar og fjmrh. hans.
    Frá því að úttekt var gerð á ríkissjóði í lok júní hafði orðið umtalsverð breyting til hins verra í íslenskum þjóðarbúskap sem endurspeglaðist í ríkisfjármálum. Það er hverju orði sannara. Það kemur fram í nýlegri úttekt sem birt er með fjárlagafrv. Ef allt árið er tekið þá lækka tekjur á meðalverðlagi ársins um 1,6 milljarða frá áætlun fjárlaga, en gjöld hækkuðu um 1,3 milljarða. Hvað varðar gjaldahliðina þá eru laun undir áætlun, tilfærslur og vextir hins vegar hátt yfir. Mestu munar um vexti. Þeir hækkuðu um 1300 millj. kr. Hvers vegna? Vegna tvítekinna gengisfellinga, verðbólgu og hækkunar vaxta --- ríkissjóður varð að búa við vaxtaokrið ekki síður en aðrir --- og í annan stað vegna þess að íslenska bankakerfið, þar með talið ríkisbankarnir höfðu brugðist skyldum sínum um innlenda lánsfjáröflun, kaup á ríkisskuldabréfum sem leiddi til mun meiri yfirdráttarskuldar í Seðlabanka en áætlað var.
    Á móti þessu hefur verið dregið úr útgjöldum vegna fjárfestinga sem nemur 726 millj. kr. frá áætlun og þannig unnið gegn þeim útgjaldaáformum sem hægt var. Útgjaldahækkunum, sem flestar eru teknar með ríkisstjórnarákvörðunum hins vegar, var bætt við. Auknar niðurgreiðslur, hækkun tekjutryggingar, lífeyris- og sjúkratryggingar, endurgreiðsla söluskatts og styrkir til atvinnulífs. Þær ákvarðanir voru teknar í sameiningu af samstarfsmönnum mínum í fyrri ríkisstjórn og af nýrri ríkisstjórn.

    Tekjur ríkissjóðs á árinu minnka hins vegar vegna verulegs veltusamdráttar í þjóðfélaginu, enda eru tekjur ríkissjóðs að langmestu leyti háðar efnahagsstarfseminni í landinu. Svona einfalt er nú þetta mál og ekkert óútskýranlegt.
    En þegar saman eru tekin útgjaldaákvarðanir ríkisstjórnanna beggja og tekjusamdráttur, þá er ljóst að samtals hefði verið ástæða til þess að ætla að hallinn hefði orðið enn meiri ef ekki hefði verið staðið býsna fast á bremsum í fjmrn. varðandi þau útgjöld sem heyra til venjulegum rekstri og framkvæmdum. Og ég ætlast til þess að samstarfsmenn mínir fyrrv. unni mér þess sannmælis.
    Ég vona að ég þurfi ekki að spyrja þeirrar spurningar hvort fyrrv. samstarfsmenn í fyrrv. ríkisstjórn eru búnir að gleyma því að sameiginlega bárum við auðvitað ábyrgð á gengisfellingum, á útgjaldaákvörðunum, um vexti, um hækkuð útgjöld vegna landbúnaðarmála, styrkja til atvinnuvega, um tekjufall vegna afnáms launaskatts, um endurgreiðslu uppsafnaðs söluskatts o.s.frv.
    Hver var hlutur Sjálfstfl. undir lokin? Þeir segjast hafa miklar áhyggjur af stöðu ríkisfjármála. Samt var það þeirra seinasta verk að leggja fram tillögu um að auka hallann á ríkissjóði um rúman milljarð. Þeir segjast hafa miklar áhyggjur af stöðu ríkisfjármála og það þurfi að reka ríkissjóð með hagnaði. Samt samþykkti þingflokkur Sjálfstfl. að lýsa því yfir að hann væri andvígur nýrri tekjuöflun. Samt var það svo að ráðherrar Sjálfstfl. skiluðu nýjum útgjaldatillögum en ekki samdráttartillögum og höfnuðu flestum mínum
niðurskurðar- og sparnaðartillögum. Sannleikurinn er sá að við alþýðuflokksmenn stóðum við bakið á okkar forsrh. í fyrrv. stjórn en það er líka staðreynd að uppivöðsluseggir í hans eigin flokki komu í bakið á honum.
    Virðulegi forseti. Ég vona eindregið að illdeilur um liðna tíð verði ekki til þess að vekja með okkur íslenskri þjóð óhug eða kvíða varðandi framtíðina. Við skulum játa að okkur hefur ekki lærst að hafa taumhald á sjálfum okkur í góðæri. Það er margt til vitnis um það: Peningamusterin og hin pólitísku minnismerki, innflutnings- og neysluæði. Ef við hefðum látið okkur nægja að auka innflutning á bílum, fötum, húsgögnum, heimilistækjum og leikföngum um aðeins 10% milli áranna 1987 og 1988, í staðinn fyrir 67%, þá væri hér enginn viðskiptahalli í þessu þjóðfélagi, þá hefði ekki orðið nein ný erlend skuldasöfnun, þá værum við byrjaðir að endurgreiða skuldir. Líti svo hver í sinn eigin barm. Við gerðum þetta ekki. Við bruðluðum botnlaust og vitlaust í lúxus, ferðalögum og flottræfilshætti, í myndböndum og farsímum, í nýjum og nýjum veitingastöðum og veitingahöllum, allt frá hamborgarasjoppum upp í sælkerasali, í sumarbústöðum og happdrættum og bingóum og lukkutríóum og happaþrennum og með bónus.
    En það er í mótlætinu sem reynir á manninn. Við Íslendingar höfum séð það svartara fyrr. Og það er í

mótlætinu sem Íslendingar kunna loksins að taka á honum stóra sínum. Við bætum okkur ekkert á því að sýta orðinn hlut eða rífast um liðna tíð. Við skulum horfa fram á við. Við höfum nóg land- og lífsrými í ómenguðu náttúrlegu umhverfi. Við eigum gnægð náttúruauðlinda. Þjóðin sem landið byggir er vel menntuð og vel mönnuð. Hún er full af hugviti, atorku og eljusemi. Við skulum því ekki kvíða framtíðinni. Við munum komast klakklaust í gegnum öldudalinn á lygnari sjó, enda vanir menn um borð.