Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Sighvatur Björgvinsson:
    Virðulegi forseti. Góðir sjónvarpsáhorfendur. Sterk bein þarf til þess að þola góða daga. Undanfarin ár höfum við Íslendingar átt góða daga. En eins og svo oft áður höfum við ekki kunnað fótum okkar forráð. Góðærið hefur ekki verið notað til að búa í haginn fyrir framtíðina, heldur til þess að auka óráðsíu, eyðslu og sóun. Aukið frelsi í verslun og frjálsræði í lánaviðskiptum hafa menn notað til að auka misréttið í samfélaginu. Illbrúanleg gjá hefur verið að myndast á milli þess fólks annars vegar sem lifir íslenskri hvunndagstilveru í sveit og við sjó og svo hinna sem búa í gerviveröld glysumhverfis þar sem menn virðist halda að gróðinn vaxi á trjánum. Hér er um tvo gerólíka heima að ræða. Annar er heimur veruleikans, hinn er tilbúningur ímyndunarinnar.
    Í heimi íslenskrar hvunndagstilveru er góðærinu lokið. Fólkið okkar við sjó og í sveit gerði sér þetta ljóst. Fólkið í gerviheimi glysmennskunnar gerði það hins vegar ekki. Það gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því að öll tré hinna gullnu epla standa rótum í heimi veruleikans og sækja allt sitt grómagn í eins hversdagslega næringu og fiskvinnslu og sjósókn. Jafnvel þótt sjálf undirstaðan væri að bresta vildi þetta fólk halda áfram að byggja sínar ,,kringlur`` og sína ,,kaupgarða``, höndla með ,,kjarabréf`` sín og ,,hávaxtabréf`` og halda áfram að skreyta sig með glimmeri sínu og gyllingum. Þetta var og er enn vandi íslenska þjóðfélagsins í hnotskurn: Sjálfsblekkingin, veruleikaflóttinn, firringin, dansinn í kringum gullkálfinn.
    Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar hafði alla burði til þess að taka á þessu vandamáli, en hún hikaði, hafðist ekki að. Á því eru sjálfsagt margar skýringar. M.a. sú að hún kom sér ekki saman um að takast á við þau öfl sem svo herfilega höfðu misnotað frelsið. En einnig vegna áhrifa voldugra aðila sem einfaldlega vildu hafa þetta svona af því að þeir horfðu aldrei út fyrir Öskjuhlíðina sína og þá veitingahöll sem þar átti að rísa fyrir almannafé og snúast síðan sinn einkahringdans umhverfis gullkálfinn.
    Á sl. vori greip ríkisstjórnin til bráðabirgðaráðstafana í þeim tilgangi að geta notað sumarið til að undirbúa heildstæða stefnu í efnahagsmálum. Sú stefnumörkun fór aldrei fram. Á elleftu stundu hvarf verkstjórinn af landi brott og fól alla tillögugerð í hendur manna utan sinnar eigin ríkisstjórnar og stuðningsflokka á Alþingi. Heim kominn lét hann svo aðra aðila, einnig utan ríkisstjórnar og Alþingis, hafna í sínu nafni tillögum sinnar eigin nefndar þótt báðir samstarfsflokkar forsrh. lýstu því yfir að þeir væru reiðubúnir til að ganga til samstarfs við hann á grundvelli þessara tillagna. Þetta er einsdæmi í sögu íslenskrar ríkisstjórnar. Slík ríkisstjórn á ekki framtíð fyrir sér, enda fór sú ríkisstjórn. Og nú höfum við fengið nýja. Það var óhjákvæmilegt. Hún er eins og aðrar ríkisstjórnir samsteypustjórn ólíkra flokka. Stærsti kostur hennar er að hún vill horfast í augu við þau vandamál sem fólkið til sjávar og sveita þekkir að við er að fást.

Hún vill takast á við þessi vandamál í stað þess að flýja þau eða fresta þeim.
    Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar er að treysta undirstöðu framleiðsluatvinnuveganna þannig að hjól íslensks atvinnulífs geti farið að snúast á ný með eðlilegum hætti. Auðvitað greinir menn á um þau úrræði. Sjálfsagt má þar eitt og annað betur gera. En hinn kosturinn var sá að halda áfram að hafast ekkert að og fólkið sem er í tengslum við hvunndagsleika íslenskrar tilveru veit að slíkt hefði leitt það og síðan alla hina til glötunar. Þess vegna er hin nýja ríkisstjórn góð tíðindi, ekki síst úti á landsbyggðinni þar sem allt atvinnulífið byggist á undirstöðuatvinnugreinum með þessari þjóð.
    Kapphlaupið eftir efnisgæðunum, kaupæðið, hefur ruglað marga í ríminu. Tími er til þess kominn að fólk slíti sig frá búðargluggunum og skoði annað en það sem þar fæst.
    Við búum við mikla velsæld á Íslandi. Á því verður engin breyting. Áfram munum við njóta kosta velferðarríkisins, þeirra kosta sem bestir gerast í öllum heimi. Fyrir þessa þjónustu greiðum við minna en flestar ef ekki allar aðrar þjóðir. Skattbyrði er hér lægri. Þrátt fyrir tal stjórnarandstöðunnar um skattaáþján er það staðreynd að vísitölufjölskyldan, sem hefur yfir 150 þús. kr. í mánaðartekjur, greiðir aðeins rösklega 20 þús. kr. í tekjuskatt og fær svo til baka frá því opinbera röskar 5000 kr. í barnabætur og svo húsnæðisbætur eða vaxtaafslátt í ofanálag ef um húsbyggjendur er að ræða. Nágrönnum okkar á Norðurlöndum þætti þetta ekki hátt gjald fyrir þá þjónustu sem velferðarríkið veitir.
    Þetta merkir hins vegar ekki að stjórnvöld eigi að láta vaða á súðum í tekjuöflun, enda stendur slíkt ekki til. Í grg. fjárlagafrv. er ýmsum hugmyndum hreyft sem menn hafa verið að skoða en hafa ekki fengið afgreiðslu. Ég tel rétt að láta það koma fram að við alþýðuflokksmenn erum ekki reiðubúnir til að ganga lengra til hækkunar á tekjuskatti einstaklinga en sem nemur því að álagningarprósentan hækki um innan við 2% frá því sem nú er og þá því aðeins að persónuafsláttur verði um leið hækkaður til hagsbóta fyrir
lágtekjufólk. Ég vil einnig taka það fram að við erum ekki sammála því að lagður sé skattur á orkusölufyrirtæki ef sá skattur yrði til að hækka verð á útseldi orku á sama tíma og mikið misrétti ríkir í orkuverðsmálum landsmanna.
    En það eru fleiri verðmæti en hin efnislegu sem við verðum að gefa okkur tíma til að huga að. Það eru einnig mikil verðmæti fólgin í óspilltu umhverfi, menningu þjóðarinnar, listum hennar og tungu. Varðveisla slíkra gæða skiptir okkur meira máli í reynd en það dót sem við getum keypt fyrir peninga. Gerviveröld glysmennskunnar lætur sig slík verðmæti litlu skipta því að þau anga ekki af peningum. En hinn fábrotni og hversdagslegi veruleiki þessarar þjóðar, hvunndagsfólkið, hefur ávallt látið sig þau verðmæti varða. Þau skulum við því halda áfram að meta, jafnvel þó við sjáum þau hvergi í

búðargluggunum, enda verða slík verðmæti hvorki keypt né seld, heldur annaðhvort varðveitt eða varpað á glæ.
    Ég þakka þeim sem hlýddu.