Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Óli Þ. Guðbjartsson:
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Tvennt þarf öðru fremur að liggja fyrir til þess að hagstjórn í jafnopnu hagkerfi og ríkir hér á landi verði árangursrík og nái tilgangi sínum. Annað er ríkisstjórn sem styðst við öruggan þingmeirihluta en hitt er samstarfshæfileiki og heilindi þeirra einstaklinga sem ríkisstjórnina mynda.
    Fyrir réttu ári stóðu menn hér á hinu háa Alþingi og ræddu stefnuræðu hæstv. þáv. forsætisráðherra. Einar umsvifamestu skattkerfisbreytingar fóru í hönd með skattahækkun sem nam í heild um 25 milljörðum kr. með alræmdum matarskatti. Engu að síður skildi þáv. ríkisstjórn eftir sig miklu meiri óleystan vanda en hún tók við í atvinnulífi þjóðarinnar, á landsbyggðinni, sem m.a. lýsir sér í gjaldþrotum fjölda fyrirtækja með tilheyrandi atvinnubresti og brostnum vonum.
    Eyktamörkin frá þessum skammvinna stjórnarferli eru gengisfellingin í febrúar--mars og önnur stærri í maí ásamt efnahagsráðstöfunum á grundvelli bráðabirgðalaga sem sett voru nánast í þann mund er Alþingi hafði verið slitið svo smekklegt sem það nú var.
    Ekki tókst betur til við stjórn ríkisfjármálanna. Hið mæra markmið, útþurrkun fjárlagahallans í einu vetfangi, varð að harmleik á haustnóttum og rauð kratarósin, sem brosti í barmi stjórnarinnar við afgreiðslu fjárlaga um þrettándaleytið í vetur, drúpti nú höfði feigðarföl um höfuðdag.
    Hinn óhagstæði viðskiptajöfnuður er ógnvekjandi, talinn verða 12 milljarðar kr. og erlendar skuldir vaxa því enn. Aukning þeirra á árinu er talin nema 5% af landsframleiðslu. Við árslok gætu þær því numið um 130 milljörðum kr. eða nálægt helmingi af landsframleiðslunni.
    Kjarninn í vanda Íslendinga við efnahagsstjórn sína er margræddur og ætti því flestum að vera ljós. Fámenni þjóðarinnar, stærð og lega landsins og fremur einhæfar náttúruauðlindir skipa Íslandi verulega sérstöðu meðal annarra landa.
    Með fáum þjóðum er utanríkisverslunin jafnviðkvæm og mikilvæg sem hér á landi vegna þess hve háð við erum einum vöruflokki, þ.e. sjávarafurðunum og breytingum á þeim vettvangi hvort sem tekur til afla eða verðlagsþróunar. Stjórnvöld á hverjum tíma verða því sífellt að leitast við að ná þrenns konar meginmarkmiðum í þessum efnum.
    1. Að reyna að skapa skilyrði til að auka fjölbreytni útflutningsins og dreifa þannig áhættunni.
    2. Að beita hagstjórninni á þann veg að óhjákvæmilegar sveiflur í utanríkisversluninni hafi sem minnsta keðjuverkun innan lands.
    3. Seinast en ekki síst að leita markaða eins víða og unnt og hagkvæmt er og treysta á þann veg stoðir efnahagslífsins.
    Borgfl. telur að ógæfa þjóðarinnar undanfarin missiri liggi m.a. í því að fráleitt hafi verið unnið af nægum heilindum og af nægum krafti að þessum eða álíka markmiðum sem öll velferð efnahagslífsins veltur raunar á.
    Borgfl. er yngstur þingflokkanna. Hann barðist

einarðlega á seinasta þingi gegn matarskatti en fyrir afnámi lánskjaravísitölunnar, gegn ofstjórn og gegn ofsköttun en fyrir raunhæfu og skynsamlegu húsnæðislánakerfi sem yrði ekki stofninn í þensluhalla ríkissjóðs eins og núverandi öngþveiti hefur reynst.
    Borgfl. sagði fyrir um eðli þess stjórnmálavanda og þess feigðarboða sem fylgdi hæstv. fyrrv. ríkisstjórn frá fyrsta degi til lokadægurs. Nú hefur hins vegar ný hæstv. ríkisstjórn sest að völdum og hér eru til umræðu stefna hennar og markmið. Enda þótt mörg atriði í fyrstu aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar til viðreisnar útflutningsatvinnuvegunum hafi verið meira en tímabær verður ekki undan því vikist að minna á að sömu háttvísi gætir gagnvart Alþingi eða hitt þó heldur sem verið hafði hjá hinni fyrri stjórn.
    Bráðabirgðalög voru gefin út örfáum dögum fyrir setningu Alþingis. Þegar öllum er vitanlegt að stjórnin nýtur ekki meirihlutafylgis nema í annarri deild Alþingis eru vinnubrögð af þessu tagi tæpast sæmandi. Og það því fremur ef haft er í huga að þeir menn, sem mestu réðu um myndun þessarar hæstv. ríkisstjórnar, virtust leggja á það þyngsta áherslu að ekki yrði mynduð stjórn er nyti ótvíræðs þingmeirihluta. Engu er líkara en þeir hinir sömu hafi sérstakar ástæður til þess að svala betur eigin persónulegum metnaði og hégómagirni. Þegar svo er komið og málefni þjóðarinnar í jafnmikilli óvissu og raunar óefni sem raun ber vitni er háski á ferðum.
    Í stefnuræðu hæstv. forsrh. er þess hvergi getið einu einasta orði að hæstv. ríkisstjórn njóti ekki ótvíræðs meiri hluta til starfa hér á Alþingi. Sjálfsagt finnst honum sem um sé að ræða slíkt smáatriði að ekki hafi tekið því að minnast á það. Verst finnst mér þó að fyrirheitið um afnám lánskjaravísitölunnar er nú orðin fremur loðin og afslepp viljayfirlýsing án nokkurrar tímasetningar eða annarra haldbærra viðmiðana.
    Hæstv. ríkisstjórn skreytir sig gjarnan með hugtökum eins og jafnrétti og félagshyggju og víða er ekki vanþörf á að taka til hendi til þess að minnka misréttið. Ekkja, sem jafnframt er 65% öryrki en nýtur ekki neinna
lífeyrisréttinda, fær einungis ekkjulífeyri sér til lífsviðurværis. Hann er nú 9577 kr. á mánuði. Launakjör sérfræðingsins sem hún leitar læknishjálpar hjá eru hins vegar, þegar allt er talið, 60--70-föld eða 600--700 þús. kr. á mánuði. Og sá aðili sem báðum greiðir laun og tryggingu er hinn sami, þ.e. ríkissjóður og kerfi hans, og metur hlutfallið.
    En það er atvinnulífið í þessu landi sem er undirstaða allrar velferðar til sjávar og sveita, í bæjum og strjálli byggð og það á allt sitt undir því að framkvæmdarvaldið í þessu landi styðjist við öruggan þingmeirihluta því annars stefnir í sjálfheldu sem hætt er við að verði þjóðinni dýr.
    Ég hef lokið máli mínu, hæstv. forseti, og þakka þeim sem á hlýddu.