Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Eftir að hafa hlustað á hæstv. forsrh. flytja stefnuræðu sína uppfulla af gamalkunnum frösum og útjöskuðum klisjum fór eiginlega hrollur um mig. Þetta hljómaði ámóta og eldgömul grammófónsplata sem fyrir það að vera gömul er líka föst í rásinni og því sendir hún ætíð frá sér sömu fölsku tónana. Kannast ekki allir við fögru heitin sem ráðherrann var að gefa þjóðinni? Og kannast ekki allir líka við efndirnar? Jú, ætli það ekki.
    Þó er því ekki að neita að aðeins bryddar á nýju orðalagi hér og þar, en markverðast og langathyglisverðast í ræðu hæstv. ráðherra var að mínu dómi sú skýlausa viðurkenning hans á því að stefna ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar muni verða að beita fyrir sig mannréttindabrotum. Ég hygg að fyrir því séu engin fordæmi að forsrh. í upphafi stjórnarferils lýsi því kinnroðalaust yfir í stefnuræðu sinni að ríkisstjórn hans muni standa fyrir því að fótumtroða mannréttindi. Fyrir þá sem ekki muna hvað hæstv. ráðherra sagði voru orð hans þessi, með leyfi forseta:
    ,,Í því skyni hefur reynst óhjákvæmilegt að víkja til hliðar um skamma stund mikilvægum mannréttindum.``
    Og hvað segja nú allaballar sem stóðu fyrir viðskiptabanni á Suður-Afríku á síðasta þingi? Það er eins og mig rámi í að það hafi verið gert vegna mannréttindabrota. Þeir eru skrýtnir svo ekki sé meira sagt, allaballarnir. Þeir urruðu eins og vitstola hundar: Samningana í gildi, skilið samningsréttinum o.s.frv. Allt þar til að glitta fór í stólana góðu. Þegar í þá var komið gleymdist hæfileikinn til að urra og nú mala þeir í hægindum sínum í ráðherrastólunum og tala eins og flestir sem í þá hafa sest: að nú séu breyttar forsendur, að afkoman hafi verið stórlega verri en nokkurn lifandi mann gat grunað o.s.frv. Við skulum heldur ekki gleyma því að hæstv. fjmrh. sagði hér á síðasta þingi að þáv. fjmrh., núv. utanrrh., væri brennimerktur maður vegna álagningar matarskattsins og yrði það þar til hann aflétti honum. Nú er hv. varaþm. fjmrh. og við skulum öll taka vel eftir því hvað hann gerir varðandi matarskattinn.
    Hæstv. forseti. Það var ekki hægt að greina það á ræðu hæstv. forsrh. að flokkur hans, og hann sjálfur að miklu leyti, beri flokka helst ábyrgð á því ástandi sem hér ríkir. Það bara hentar ekki Framsfl. akkúrat núna að berja sér á brjóst og tala um Framsóknaráratuginn. Í ræðu sinni sagði hæstv. ráðherra m.a., með leyfi forseta: ,,Þjóðin mun öll súpa seyðið af hinni margrómuðu frjálshyggju í peninga- og fjárfestingarmálum.`` Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Hvar hefur þú eiginlega verið öll þessi ár og hvar hefur Framsfl. verið? Kannist þið ekkert við krógann? Eftir útliti hans að dæma dylst engum faðernið. Svona leiki leikur Framsfl. sí og æ og hefur hingað til komist upp með það. En nú held ég að allur almenningur í landinu sé búinn að sjá í gegnum þennan leik.
    Talað er um að fella niður lánskjaravísitölu strax og jafnvægi í efnahagsmálum sé náð. Gott og vel. En hér verður ráðherra að skýra nákvæmlega hvað sé

jafnvægi í efnahagsmálum að hans mati. Hvað þarf t.d. verðbólgan að vera komin niður í og hversu lengi þarf hún að haldast í ákveðnu lágmarki til þess að hægt sé að afnema vísitöluna?
    Eins og alþjóð er kunnugt er nú í gildi verðstöðvun í landi sem allir hafa virt, eftir því sem ég best veit, nema hver? Ríkisstjórnin sjálf. Sjálf fyrirmyndin gat ekki virt eigin lög og heimilaði Pósti og síma gjaldskrárhækkun. Hér á ekki við það sem oft er sagt, að eitthvað sé löglegt en siðlaust. Þetta er bæði ólöglegt og siðlaust. Getur ríkisstjórnin gert þær kröfur til þegnanna að þeir virði lög og reglur þegar hún gerir það ekki sjálf?
    Þá held ég að mörg illa stödd heimili í landinu krefjist upplýsinga um starfsreglur skuldbreytingasjóðs heimilanna. Þarna er um sjóð að ræða með afskaplega fallegu og göfugu nafni en enginn veit hvernig hann á að starfa. Eftir framsóknaráratugina er vissulega þörf á slíkum sjóði. En það þarf að passa upp á að þarna verði ekki enn einn gæluverkefnasjóðurinn, eins og hætt er við að Atvinnutryggingarsjóður Stefáns Valgeirssonar geti orðið.
    Ríkisstjórnin ætlar að reyna að lækka raforkuverð til fiskiðnaðar. Það er í sjálfu sér gott og blessað. En veit hæstv. ríkisstjórn virkilega ekki að hér í landi býr fólk við gífurlegt misræmi þegar að orkukostnaði kemur? Því er það skýlaus krafa þeim á hendur að þeir sjái til þess að nú þegar verði komið á jöfnunarverði á orku til heimilisnota.
    Í stefnuræðunni er boðað frjálsræði í milliríkjaviðskiptum. Hér tel ég nauðsynlegt að fram komi að með þessu er ríkisstjórnin að slá ryki í augu fólks því hér er alls ekki átt við frjálsa utanríkisverslun. Fari ég með rangt mál skora ég á þá stjórnarliða sem enn eiga eftir að tala að leiðrétta mig. Og svo sannarlega vona ég að ég hafi rangt fyrir mér, því að auðvitað á að ríkja hér fullt frelsi í útflutningsverslun sem og í innflutningsverslun.
    Á þskj. 75, sem er frv. til fjárlaga, er boðað að áfram skuli halda á skattpíningarbraut þeirri sem kratar öðrum fremur mörkuðu á síðasta ári. Í frv. eru einnig þau nýmæli, sem allaballar geta hreykt sér af í framtíðinni,
að nú skuli öryrkjar, lamaðir og fatlaðir, aldraðir, æskulýðs- og ungmennafélög, íþróttamenn og menntafólk skattlagt í formi söluskatts af happdrætti. Á síðasta þingi varði þáv. fjmrh. niðurskurð á fjárframlögum til íþróttahreyfingarinnar með því að hún hefði nægilegt fjármagn frá lottói. Nú hefur það runnið upp fyrir stjórnarherrunum að íþróttahreyfingin hefur of mikið frá lottóinu og því ber að skattleggja það.
    Virðulegi forseti. Borgfl. hefur verulegar áhyggjur af ástandinu í þjóðfélaginu og vill gera allt sem í hans valdi stendur til að færa hlutina til betri vegar. Okkur hryllir við fréttum af ástandi atvinnuveganna, af stórhættu á atvinnuleysi af stærðargráðu sem við höfum ekki kynnst síðan á kreppuárunum, af stórfelldum samdrætti í sjávarútvegi, af verðfalli á erlendum mörkuðum, af gífurlegum viðskiptahalla, af

skuldastöðu þjóðarinnar gagnvart erlendum lánardrottnum. Hér eru aðeins upptalin fáein atriði af mörgum sem eru að gera okkur Íslendingum lífið leitt þessa dagana. En það hörmulegasta við þetta er að nú situr við stjórnvölinn ríkisstjórn sem ekki nokkur maður hefur í hjarta sínu trú á að sé vandanum vaxin.
    Góðir áheyrendur. Rifjið upp í huga ykkar hverjir hafa setið við stjórnvölinn og hverjir hafa verið helstu áhrifamenn í íslensku þjóðfélagi síðustu 15 árin. Þið munuð komast að því að það eru að mestu leyti sömu aðilar sem enn ráða ferðinni í íslenskum stjórnmálum. Rifjið þá líka upp hvað hefur verið að gerast hér á þessum árum, hvaða árangri þessir menn hafa náð. Lítið í kringum ykkur og svarið því svo hvort ekki sé kominn tími til að senda þessa menn í frí, í langt frí. Á því er enginn vafi í mínum huga.
    Ísland hefur ekki efni á þessum mönnum lengur. Tími nýrra afla er kominn. Ísland þarf á nýjum mönnum, nýju blóði að halda í íslensk stjórnmál. Borgfl. er reiðubúinn að axla ábyrgð og taka á sig byrðar. Borgfl. er, eins og hann sýndi í stjórnarmyndunarviðræðunum, tilbúinn að takast á við vandann af drengskap og einurð. En slíkum vinnubrögðum hafnaði Alþb. alfarið og þarf það engum að koma á óvart. Það kaus frekar að eiga allt sitt undir náð og miskunn Stefáns Valgeirssonar, kaus frekar að fara í ríkisstjórn sem mynduð var á fölskum forsendum vegna þess að aldrei var til neinn huldumaður.
    Við stjórnarliða segi ég: Þið áttuð völina og nú megið þið líka eiga kvölina. En því miður þarf heilt þjóðfélag að þjást með ykkur.