Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Margrét Frímannsdóttir:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við höfum hér í kvöld hlýtt á stefnuræðu forsrh. Þetta er venja, árlegur atburður að hann, og e.t.v. einhvern tíma hún, boði þjóðinni þá stefnu sem ríkisstjórn hans eða hennar ætlar að fylgja. Oftast er það svo að mesta spennan fylgir því þegar forsrh. nýrrar ríkisstjórnar, sem mynduð er eftir kosningar, flytur fyrstu stefnuræðuna fyrir hennar hönd því þá búast menn við að þeirri stefnu sé fylgt í meginatriðum út stjórnartímabilið.
    Fyrir réttu ári hlustuðum við á eina slíka ræðu, þá fyrstu frá þáv. forsrh., Þorsteini Pálssyni. Sú ríkisstjórn sem þá hafði verið mynduð tók við erfiðu búi eftir samstjórn Framsfl. og Sjálfstfl., en boðaði betri tíð með blóm í haga. Grípa þyrfti til aðgerða en þær aðgerðir mundu leiða til þess að við gætum rétt úr kútnum og atvinnuvegir okkar landsmanna lifað af það erfiða ástand sem myndast hafði í efnahagsmálum landsins. Við byggjum hér við sterka og samstæða ríkisstjórn sem ætlaði sér vissulega að leysa málin.
    Nú réttu ári síðar heyrum við aftur stefnuræðu, en í dag er það annað maður sem talar til þjóðarinnar sem forsrh. Það segir okkur í raun allt sem segja þarf um það hvernig sú stefna, sem boðuð var fyrir ári, reyndist. Það segir okkur líka allt sem segja þarf um það hversu sterk og samstiga sú stjórn var sem stóð að þeirri stefnu. Því miður reyndist hún ekki geta axlað þá ábyrgð sem hún tók á sig og skilaði öllu í miklu verra ástandi en það var þegar hún tók við. Þar var ekki einum stjórnarflokki frekar en öðrum um að kenna. Og stundum var ekki hægt að greina hvort ágreiningurinn stóð um málefni eða hvort rekja mætti ósamkomulag stjórnarflokkanna til valdatogstreitu manna á milli. En ekki orð um það meir. Stjórnin fór frá og eftir sat þjóðin með enn meiri skuldasúpu og óreiðu en áður hafði verið, atvinnulífið í landinu að stöðvast, gjaldþrot fyrirtækja og heimila nær daglegur viðburður vegna þeirrar stefnu sem hér hefur verið rekin í vaxtamálum og grái peningamarkaðurinn fitnaði og tútnaði út eins og púkinn á fjósbitanum. Svona var ástandið og svona er ástandið. Út úr þessu verðum við að komast. Vegna þess þarf að grípa til ráðstafana, ekki eftir tvo, fjóra eða sex mánuði, heldur strax í dag.
    Hver sá sem ferðast um landið og heimsækir atvinnufyrirtæki, og þá ekki bara í fiskvinnslu og landbúnaði, líka í iðnaði og þjónustu, sér hvert ástandið er og skilur að við þessu verður að bregðast. Þetta er ástæðan fyrir því að hér tókst á ótrúlega skömmum tíma að mynda ríkisstjórn þeirra flokka sem nú boða stefnu sína.
    Við sem stóðum að þessari ríkisstjórnarmyndun höfum til þess að ríkisstjórnin mætti verða til öll og ekki án sársauka orðið að sættast á málamiðlun í ýmsum þeim málum sem við höfum barist fyrir. Við gerðum það vegna þessa ástands sem hér ríkir og höfum fullan vilja til þess að leysa vandann. Vissulega er hér um að ræða stjórn þar sem tveir þeirra flokka, sem sátu í síðustu ríkisstjórn, eiga aðild að. Hefur

m.a.s. annar þeirra, Framsfl., verið í landstjórninni meira og minna í tæpa tvo áratugi og því eðlilegt að menn spyrji: Hvað er það þá sem segir að þeir standi sig betur nú en áður? Því verður ekki svarað hér. Ef til vill liggja svörin fyrir í vor.
    En viljinn og nauðsyn þess að leysa þau vandamál, sem við blasa, þjappar mönnum saman og kannski má segja að það séu horfur á friðsamlegri sambúð innan þessarar ríkisstjórnar, þar sem hver maður hefur það á tilfinningunni að hann sé á réttum stað, í réttum stól, og geri sér fulla grein fyrir því að í þetta sinn er að duga eða drepast. Æviskeið ríkisstjórnarinnar mun ráðast af verkum hennar og vilja þeirra sem ekki eiga aðild að stjórninni til þess að styðja hana til góðra verka.
    Eins og fram hefur komið hér í kvöld var fjárlagafrv. þessarar ríkisstjórnar lagt fram nú í vikunni. Það frv. og markmið þess er í senn dapurlegt en þó jákvætt, þó einkennilegt sé að orða það svo. Dapurlegt vegna þess að þar er aðeins um að ræða lítið svigrúm til aukinna fjárveitinga til ýmissa þeirra þátta sem við alþýðubandalagsmenn vildum svo gjarnan sjá myndarlega tekið á. Það er jákvætt vegna þess að þar er gerð tilraun til þess að ná tökum á þeim gífurlega halla sem er á ríkisbúskapnum. Vegna þessa halla, sem myndast hefur þrátt fyrir að við höfum búið á undanförnum árum við hagstæðari aðstæður en oft áður, verður enn einu sinni að boða niðurskurð á verklegum framkvæmdum og áframhaldandi skerðingu á nokkrum þáttum félagslegrar þjónustu. Enn einu sinni verður að biðja þjóðina um þolinmæði. Þetta er hart þegar litið er til þeirra ára sem á undan eru gengin og þess góðæris sem við höfum svo oft heyrt nefnt og ríkisstjórnir þessara ára hafa búið við. Það er erfitt að biðja enn einu sinni um þolinmæði fólksins sem hefur sýnt slíkt langlundargeð og góðmennsku síðustu ríkisstjórnum að það er með eindæmum.
    En það er ekki allt neikvætt. Þrátt fyrir erfiðleika í fjárveitingum eru stigin marktæk skref til úrbóta, t.d. í mennta- og menningarmálum. Veruleg hækkun verður á framlögum vegna jöfnunar námskostnaðar. Stigið er skref í rétta átt hvað varðar uppbyggingu dagvistarstofnana og einnig veruleg hækkun á framlögum til ýmissa menningarmála. Síðast en ekki síst nefni ég að ákveðið
hefur verið að opna leið til þess að koma í framkvæmd nýrri skólastefnu á grundvelli grunnskólalaganna. Við mótun þessarar stefnu verður haft fullt samráð við það fólk sem vinnur að skólastarfinu, þá sem vinna við skólana sjálfa svo og foreldra.
    Mikilvægasta verkefni þessarar ríkisstjórnar verður þó að koma atvinnulífinu á réttan kjöl. Fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar voru að setja hér bráðabirgðalög um efnahagsráðstafanir, ráðstafanir sem bera nafn með réttu, taka aðeins á þeim vanda sem brennur mest á, en leysa hann ekki til frambúðar, eru til bráðabirgða og eru líka til þess gerð að vinna tíma til að finna úrlausnir sem duga. Þessar ráðstafanir liggja nú hér á

borðum hv. alþm. í formi frv. til laga um efnahagsaðgerðir og bíða þess að verða afgreiddar. Allt bendir til að málinu verði þvælt hér fram og aftur í umræðu í deildum. Hv. alþm. halda hér langar og misgóðar ræður um það að hér sé ekki verið að ráðast að rótum vandans, hér sé aðeins um yfirborðskenndar bráðabirgðaúrlausnir að ræða. Jafnvel að frekar hefði átt að kjósa strax í haust, reyna ekki myndun ríkisstjórnar, heldur kjósa, breyta valdahlutföllum á Alþingi í takt við skoðanakannanir fjölmiðlanna, mynda síðan ríkisstjórn sem tæki á þeim vanda sem við blasir.
    Allt svona tal er ábyrgðarlaust. Í fyrsta lagi hafa allir gert sér grein fyrir að þær ráðstafanir, sem ríkisstjórnin hefur lagt til að gerðar verði, eru, eins og ég sagði áðan, bráðabirgðaúrlausnir framkvæmdar vegna ríkjandi ástands og óþarfi að halda langar ræður um það atriði. Í annan stað: Ef ekkert hefði verið gert og farið út í að boða kosningar eftir stjórnarslit í haust er alveg ljóst að atvinnulífið í landinu hefði aldrei þolað það. Fyrirtæki höfðu stöðvast og önnur voru að stöðvast. Uppsagnir fólks á vinnustöðum blöstu hvarvetna við.
    Ábyrgð okkar stjórnmálamanna á því ástandi sem nú þegar ríkir er mikil og komið er að því að við tökum okkur tak og vinnum af festu að því að leysa vandamálin, hættum að ýta þeim á undan okkur eða það sem verra er, ýta ábyrgðinni á því hvernig komið er yfir á aðra.
    Virðulegi forseti. Það mætti halda eftir hlustun á slíka tölu sem ég hef flutt að ekkert sé fram undan nema svartnættið. Eðlilega verður manni tíðrætt um vandann sem við blasir og það hvort við munum hér á hv. Alþingi bera gæfu til þess að leysa hann.
    Staðreyndin er hins vegar sú að við búum í góðu landi sem býr yfir náttúrugæðum og fegurð sem á sér varla hliðstæðu. Okkur ber að stjórna landinu þannig að landsins gæði nýtist öllum landsmönnum jafnt. Mér dettur ekki í hug að fullyrða að með tilkomu þessarar nýju ríkisstjórnar hafi verið stigið það skref sem dugar til þessa. Beri hún hins vegar gæfu til þess að koma efnahagsmálum þjóðarinnar í lag hefur verið stigið stórt skref í rétta átt og þá mun opnast leið til þess að vinna að raunverulegu jafnrétti allra landsmanna.
    Ég þakka þeim sem hlustuðu. --- Góða nótt.