Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það gleður mig hve berlega kom í ljós í ræðum Sjálfstfl. í kvöld hvað þeir óttast stöðu mína og málflutning. Ég vona að ég reynist maður til þess að halda þeim ótta við.
    Ástæður þess að Samtök jafnréttis og félagshyggju léðu máls á því að styðja myndun ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar í septembermánuði síðastliðnum var að yfirvofandi neyðarástand blasti við í landinu. Firnamikill fjármagnskostnaður var og er fólki og fyrirtækjum svo þungur í skauti að ekki verður með nokkru móti við unað. Há gengisskráning veldur lágum tekjum útflutningsfyrirtækja og stórfelldu rekstrartapi í heilum atvinnugreinum. Stöðvun margra fyrirtækja vofir yfir sem gæti með keðjuverkunum valdið fjölda gjaldþrota og hruni í atvinnulífinu ef ekki verður við brugðið.
    Með þessar staðreyndir í huga var brýnt að ná stjórn þjóðmála til bráðabirgða og gefa Alþingi tækifæri til að koma lagi á málin. Ljóst er hins vegar af ferli nokkurra síðustu ríkisstjórna að alvarleg stjórnmálakreppa er í landinu. Hún kemur fram í mörgum myndum. Ein er sú að stjórnmálamönnum hefur ekki tekist að ná þeim meginmarkmiðum sem þeir hafa sett sér. Nægir að nefna verðbólgu, viðvarandi halla á viðskiptum við útlönd og á ríkissjóði, hækkun erlendra skulda og aukið misrétti, sérstaklega gagnvart fólki í láglaunastörfum og á landsbyggðinni.
    Við lögðum höfuðáherslu á að koma í veg fyrir að fjármagnið hefði áfram möguleika á að deila og drottna eins og verið hefur. Og hvernig var viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar? Hefur almenningur gert sér fulla grein fyrir hvernig komið var? Á valdatíma þeirrar ríkisstjórnar fór fram meiri eignatilfærsla í þjóðfélaginu en nokkur dæmi eru til um í þessu landi. Og þar veldur að langmestu leyti hinn aukni fjármagnskostnaður sem ríkisstjórnin olli með síendurteknum yfirboðum á vaxtagreiðslum, t.d. á ríkisvíxlum. Þó að í stjórnarsáttmálanum stæði eftirfarandi: ,,Ríkisstjórnin mun stuðla að jafnvægi á lánamarkaði og lækkun vaxta`` var framkvæmdin önnur.
    Þegar ríkisstjórnin var mynduð 8. júlí 1987 höfðu ríkisvíxlar verið í gangi frá því í febrúar það ár, þ.e. viðskiptabankarnir voru látnir kaupa þessa víxla af ríkissjóði. Ársávöxtun á 90 daga víxlum voru þá 20% og þeir vextir voru óbreyttir í júlímánuði þegar stjórnarskiptin urðu. Í ágústmánuði fóru vextir á ríkisvíxlum upp í 28,2% miðað við ársávöxtun. Í september fóru þeir svo upp í 38% og þá var almenningi gefinn kostur á að kaupa þessa víxla. 1. desember voru vextirnir komnir í 41,3% og í febrúar voru þeir orðnir 43%.
    Ríkissjóður hefur á þennan hátt, með því að yfirbjóða í sífellu með hærri og hærri vöxtum, sett banka og sparisjóði í nokkurs konar spennitreyju. Þeir urðu að hækka vextina til samræmis við ríkisvíxlana, m.a. vegna þess að Seðlabankinn var einnig búinn að setja á þá aukabindiskyldu sem er um 10% af

heildarinnlánum.
    Til að skýra betur í hverju stjórnun ríkisstjórnar og Seðlabanka er fólgin í peninga- og vaxtamálum, þrátt fyrir allar yfirlýsingar og markmið, voru vextir gefnir frjálsir að nafninu til í nóvember 1986. Í febrúar 1987 var bindiskyldan, sem þá var 18% af heildarinnlánum, lækkuð í 13%. Af þessum 13% borgar Seðlabankinn enga vexti, aðeins verðtryggingu. Vaxtamunur banka og sparisjóða er rúmlega 2% hærri vegna viðskiptanna við Seðlabankann. Ef þessi munur minnkaði væri hægt að lækka vextina. Á sama tíma og bindiskyldan var lækkuð úr 18% í 13% var sett á ný lausafjárbindiskylda. Ef þessi lausafjárbindiskylda væri 1 milljarður hjá einhverjum banka og sá banki ætti ekki nema 700 millj. kr. á þessum reikningi, þá varð hann að borga í dráttarvexti af 300 millj. kr.
    Þegar ríkissjóður bauð hærri og hærri ársávöxtun á ríkisvíxlum varð útstreymi úr peningastofnunum mjög mikið því margir vildu njóta hinna háu vaxta. Til að draga úr þessu útstreymi urðu bankar og sparisjóðir að hækka innlánsvextina til þess að forðast að lenda með stórar fjárhæðir í dráttarvöxtum hjá Seðlabankanum, og auðvitað fylgdu útlánsvextirnir eftir.
    Þetta er það sem ríkisstjórnin kallar vaxtafrelsi og á þennan hátt hafa þeir staðið við það fyrirheit að gera ráðstafanir til þess að lækka vextina. Á fimm mánaða tímabili voru vextirnir t.d. komnir upp í 41,3%. Í desember hækkuðu vextir úr 20% í 41,3% og urðu síðan hæstir 43,13%. Dráttarvextir voru miðaðir við ársávöxtun og voru komnir upp í 56,4%. Fyrirframgreiddir vextir á víxlum voru orðnir 39% en á mestu verðbólguárunum komust þeir þó aldrei nema í 38%. Á þennan hátt efndi fyrrv. ríkisstjórn, ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar, fyrirheit sín um lækkaða vexti. Þarf nú nokkurn að undra þótt slík ríkisstjórn hafi ekki verið í hávegum höfð og illa færi fyrir henni?
    Þetta er fyrst og fremst skýringin á því hvernig ástandið er nú í þjóðfélaginu.
    Til að skýra það nánar hvað hefur verið að gerast í þessum málum vil ég segja tvær sögur, sem mér voru sagðar nýlega:
    Fyrirtæki sem rekur þrjá togara og stórt fiskvinnslufyrirtæki skilaði í tekjuafgang um 80 millj. kr. árin 1986 og 1987. Þó fór fyrirtækið í
hallarekstur síðustu mánuði ársins 1987. Fyrstu níu mánuði þessa árs hefur þetta fyrirtæki tapað 90 millj. kr. eða um 10 millj. kr. á mánuði að meðaltali. Tapið liggur eingöngu í auknum fjármagnskostnaði.
    Fyrir u.þ.b. einum mánuði fengu ung hjón lánsloforð hjá húsnæðismálastjórn sem hljóðaði upp á 1300 þús. kr. og átti að koma til útborgunar eftir níu mánuði. Bankinn sem þau skiptu við gat ekki lánað þeim út á lánsloforðið vegna lausafjárbindiskyldunnar og því fóru þau út á gráa markaðinn og spurðu hvað þau fengju í peningum ef þau seldu þeim lánsloforðið. Svarið var 800 þús. kr. Sem sagt 500 þús. kr. í afföll og kostnað á níu mánaða tímabili af 1300 þús. kr.
    Ég sagði þessa sögu hópi sunnlenskra bænda sem komu til mín í gær og ég lét þá geta upp á hvað

kostnaður og afföll hefðu verið af umræddri upphæð. Eftir stundarþögn sagði einn bóndinn: Ég þekki þessi viðskipti af eigin raun. Þau hafa fengið um 800 þús. kr. Hann staðfesti því að hann vissi um þetta okur, enda virðist ástandið nú vera þannig í okkar þjóðfélagi að tveir af hverjum þremur, sem eru í framleiðslu til útflutnings, eru búnir að missa allt eigið fé í fyrirtækjunum og stór hluti af þeim kominn langt niður fyrir núllið, og eru því í sjálfu sér gjaldþrota. Það má því segja að viðskilnaðurinn sé sá að framleiðslufyrirtækin séu rjúkandi rúst, að flest þessi fyrirtæki séu nú rekin með tapi og það sama er í raun og veru ástandið hjá fjölda mörgum einstaklingum. Það er von að fyrrv. forsrh. stæri sig af viðskilnaðinum. Því er ekki nóg að skuldbreyta heldur verður að skapa framleiðslunni rekstrargrundvöll.
    Eitt mikilsverðasta atriðið sem stendur í stjórnarsáttmálanum er að gerðar verði ráðstafanir til að lækka vexti, og það verulega. Rætt var um að nafnvextir færu niður í 15% og raunvextir í 6%. Mín samtök vildu ganga verulega lengra með raunvextina, eða að þeir færu niður í 3--4%. En hvað hefur gerst? Skráðir raunvextir eru nú 8,75%, hafa mjög lítið lækkað frá því að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar tók við, og víða í kerfinu eru þeir miklu hærri.
    Mál standa þannig nú að hjá því verður ekki komist að stjórnvöld sjái til þess að rekstrargrundvöllur atvinnuveganna verði nú þegar jákvæður, annars skellur yfir almenning stórfellt atvinnuleysi og mikið af framleiðslunni stöðvast. Því er ekki nema um tvennt að gera: Að ná niður kostnaði í fyrirtækjunum og ef það nægir ekki, þá verður að fella gengið. Það skiptir því sköpum að lækka fjármagnskostnaðinn eins og mögulegt er, og auðvitað annan kostnað, og það án tafar. Því sannleikurinn er sá að staðan í þessum málum er það slæm að þessa hluti verður að gera strax. Mínir stuðningsmenn gera kröfu til þess að vextirnir verði keyrðir niður án frekari tafa. Því meiri sem fjármagnskostnaðurinn er, því meira þarf að gera af öðrum ráðstöfunum. Og við vitum hvað það þýðir, hvaða áhrif það hefur á verðbólguna. Stjórnarsamstarfið stendur og fellur með því hver árangur næst í þessum málum. Og ég geri einnig kröfu til þess að losað verði um lausafjárbindiskyldu í bankakerfinu til að reyna að draga úr því að einstaklingar og fyrirtæki neyðist til þess að skipta við hinn gráa markað.
    Ríkisstjórn, sem tilkynnir þjóðinni að hún gangi undir okkar merki, undir merki jafnréttis og félagshyggju, er ekki sjálfri sér samkvæm ef hún rekur fólk, sem er í neyð með fjármál sín, í hendur okrara, í hendur þeirra sem nota neyð almennings á svipaðan hátt og ég greindi frá hér að framan.
    Ráðherrar í ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar viðurkenndu í lokin að ástandið í landinu væri orðið svo alvarlegt að ekki mættu líða nema örfáir dagar frá afsögn hennar þar til efnahagsaðgerðir yrðu gerðar ef forða ætti framleiðslunni frá algerri stöðvun. Sem sagt:

Frjálshyggjan varð gjaldþrota og það undir forsæti ríkisstjórnar formanns Sjálfstæðisflokksins, Þorsteins Pálssonar.
    Ekki dettur mér þó í hug að halda því fram að öll sökin á þessari strandsiglingu sé eingöngu að kenna Þorsteini Pálssyni og flokksmönnum hans. Því fer fjarri. Allir stjórnmálaflokkarnir er stóðu að fyrrv. ríkisstjórn bera fulla ábyrgð á hvernig fór og geta ekki undan því vikist. Á sama hátt bera þeir þm., sem styðja ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, ábyrgð á hennar gjörðum og verður því að hafa fullt samráð við alla þá sem styðja þessa ríkisstjórn í aðgerðum og reyna að ná áttum í því öngþveiti sem viðskilnaður ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar skildi eftir sig.
    Fjölmiðlar halda því fram að fjárlagafrv. sé skattpíningarfrv. Það er alröng skilgreining. Fjárlagafrv. er fyrst og fremst tekjujöfnunarfrv. Að því er stefnt að þeir beri meiri byrðar sem eru eignameiri og tekjuhærri í þjóðfélaginu og einnig er stefnt að því með þessu frv. að ná stöðugleika í verðlags- og atvinnumálum. Og sannarlega vænti ég þess að það takist, en það er hörð barátta sem fram undan er. En landsbyggðin og lágtekjufólkið á allt undir því að það takist.
    Góðir Íslendingar. Gerum það sem í okkar valdi stendur til þess að þessi ríkisstjórn standi fullkomlega undir því nafni að hún sé ríkisstjórn
jafnréttis og félagshyggju. Undir því merki verður boðið fram í öllum kjördæmum í næstu kosningum ef almenningur í þessu landi skilur sinn vitjunartíma.
    Ég hef lokið ræðu minni, virðulegi forseti. Góða nótt.