Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Finnur Ingólfsson:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Stjórnarseta ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar var stutt, en því miður of löng og áreiðanlega þjóðinni of dýrkeypt. Efnahagsstefna þeirrar ríkisstjórnar var að gera út af við atvinnulífið. Varnaðarorð okkar framsóknarmanna og beinar tillögur um breytta efnahagsstefnu voru að engu hafðar. Íslenskir atvinnuvegir sátu því uppi með efnahagsstefnu sem skráði gengi íslensku krónunnar í þágu heildsalanna gegn hagsmunum útflutningsframleiðslunnar, efnahagsstefnu sem ól verðbréfabraskarana á kostnað framleiðsluatvinnuveganna, efnahagsstefnu sem hélt uppi óhóflega háum raunvöxtum í skjóli ímyndaðs frelsis. Þessa útrýmingarstefnu undirstöðuatvinnuveganna brutum við framsóknarmenn á bak aftur.
    Það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir Sjálfstfl., þann flokk sem hefur talið sig vera brjóstvörn atvinnulífsins í landinu, að það skuli hafa þurft að ýta honum til hliðar úr íslenskum stjórnmálum um sinn til þess að menn gætu náð tökum á efnahags- og atvinnulífinu, til þess að menn gætu forðað því úr klóm frjálshyggjunnar. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson ítrekaði hér áðan í ræðu sinni að þessari stefnu vildi hann viðhalda ef Sjálfstfl. fengi að ráða.
    Nú hentar það sjálfstæðismönnum að túlka ástæðurnar fyrir stjórnarslitum með óheilindum og óvönduðum vinnubrögðum einstakra ráðherra. Maður hefði nú haldið að eitthvað annað hefði verið eftirminnilegra úr tíð Birgis Ísl. Gunnarssonar úr menntmrn. en það að menn hefðu sýnt af sér óheilindi og óvönduð vinnubrögð. Hann man kannski ekki eftir þeim glæsilegu embættisfærslum sínum þegar hann skipaði í lektorsstöðu við Háskóla Íslands, skólastjórastöðu við Ölduselsskólann og fjöldaskipanir íhaldsmanna í fræðslunefndir framhaldsskólanna. Það geislar af þessum embættisfærslum drengskapurinn, hlutleysið og hið faglega mat. Er það ekki?
    Auðvitað eru ástæðurnar fyrir stjórnarslitunum allt aðrar. Sjálfstfl. gat ekki axlað þá ábyrgð sem því var samfara að veita ríkistjórn forustu. Hann þorði ekki að takast á við vandamálin. Sjálfstæðismenn hafa gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir þær efnahagsaðgerðir sem hún greip til til þess að bjarga atvinnulífinu. Þær eru auðvitað ekki frekar en önnur mannanna verk yfir gagnrýni hafnar, en þessi gagnrýni kemur úr hörðustu átt. Ég vil í þessu sambandi minna á að í drögum að yfirlýsingu, sem fyrrv. forsrh., Þorsteinn Pálsson, lagði fyrir ríkisstjórnina 8. sept. um tafarlausar aðgerðir í efnahagsmálum, kemur fram að einn þáttur aðgerðanna sé að stjórn Verðjöfnunarsjóðs, frystideildar Verðjöfnunarsjóðs, hafi heimild til að taka lán, erlent eða innlent, að upphæð 550 millj. kr. til að ráðstafa til sjávarútvegsins. Hvað er hér annað á ferðinni en beinar millifærslur?
    Formaður Sjálfstfl. undirstrikaði það hér áðan að hann vildi halda við gengisfellingarleiðina. Jú, það var hún sem hann lagði til á síðustu lífdögum ríkisstjórnarinnar, að gengið yrði fellt samfara

millifærslunni. Þessu höfnuðu bæði Framsfl. og Alþfl., enda hefði það leitt af sér meira en 40% verðbólgu. Þetta gerði fyrrv. forsrh. fáum dögum eftir að hann sagði í sjónvarpsviðtali að það væri þó gengisfellingarleiðin sem ekki kæmi til greina við lausnir efnahagsvandans.
    Ég fer að halda að það sé rétt sem tveir frammámenn úr Sjálfstfl. sögðu þegar þeir lýstu niðurstöðum af naflaskoðunarfundi flokksins nú fyrir skömmu. Jón Magnússon, formaður naflaskoðunarnefndarinnar, sagði að stefna Sjálfstfl. væri röng og varaformaður flokksins, Friðrik Sophusson, sagði: ,,Sú leið, sem prófkjörin eru og Sjálfstfl. hefur notað til að velja menn á framboðslista, er ónothæf.`` Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er auðvitað sú að Sjálfstfl., stærsti flokkur þjóðarinnar, hefur vitlausa stefnu og ranga menn á þingi. Það er ekki hægt að líta fram hjá þessari niðurstöðu stefnuskrárráðstefnunnar og allra síst eftir að hafa hlustað á ræður tveggja þm. flokksins hér í kvöld, þeirra Halldórs Blöndals og Þorsteins Pálssonar. Hvar í ræðum þessara hv. þm. var að finna málefnalegu stjórnarandstöðuna sem boðuð var? Hvar var að finna tillögurnar frá fyrrv. forsrh.? Hvar var að finna stefnu Sjálfstfl. í máli hans hér áðan? Hvar var krafturinn og framfarahugurinn? Hvar var nú bjartsýnin, eldmóðurinn og viljinn til góðra verka? Svar: Hvergi. Það var nöldur og nagg.
    Við Íslendingar erum enn einu sinni að ganga í gegnum mikla efnahagserfiðleika. Spáð er minnkandi sjávarafla, lækkandi kaupmætti og jafnvel atvinnuleysi. Við þessar aðstæður þurfum við öll, hvort sem það eru einstaklingar, heilu sveitarfélögin, hvar í flokki sem við erum og hvar í stétt sem við stöndum, að vera tilbúin til að leggja eitthvað af mörkum. Við þurfum öll að láta eitthvað af okkar ýtrustu kröfum.
    Þær fyrstu aðgerðir sem ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hefur gripið til eru um margt sértækar skammtímaaðgerðir, aðgerðir sem fyrst og fremst eiga að koma í veg fyrir stöðvun útflutningsframleiðslunnar, treysta atvinnuöryggið í landinu og færa niður vexti og verðbólgu.
    Þegar verðstöðvunartímabili og millifærslutímabili þessu lýkur þá taka við almennari aðgerðir í efnahagsmálum, aðgerðir sem tryggja stöðugleika og
treysta atvinnuöryggið, draga úr viðskiptahalla, verja lífskjör hinna tekjulægstu. En við verðum að forða þjóðinni frá atvinnuleysi. Og takist okkur það með einbeittri samstöðu að sigrast á þessari efnahagskreppu, eins og okkur hefur áður tekist, þá er framtíðin björt.
    Ég hygg að flestar þjóðir heims öfundi okkur af hreinni og ómengaðri náttúru þessa lands og þeim mikla auði sem í henni býr. Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn og á grundvelli þess viljum við standa vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði þjóðarinnar. Þessu sjálfstæði er auðvelt að glata og auðveldara en margur hyggur. Það þarf sterka ríkisstjórn á hverjum tíma til að viðhalda þessu sjálfstæði okkar. Málflutningur

stjórnarandstöðunnar hér í kvöld hefur hvorki verið málefnalegur né trúverðugur. Væri það traustvekjandi að landsstjórnin væri nú í höndum Sjálfstfl. og Kvennalista? Annar vill ekki og hinn getur ekki. Þegar þetta tvennt fer saman er ekki mikils árangurs að vænta.
    Virðulegi forseti. Sjálfstæði okkar og sjálfsákvörðunarrétti er nú á margan hátt ógnað. Erlendir þrýstihópar reyna að neyða fyrirtæki og stjórnvöld í löndum sínum til að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna vísindalegra rannsókna okkar á hvalastofnunum. Undan slíkum hótunum og þvingunum megum við aldrei láta. Það er ljótt til þess að vita að þessa þrýstings skuli vera vart hér í sölum Alþingis. Við megum ekki fórna meiri hagsmunum fyrir minni, segja menn. Ég segi: Sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur hverrar þjóðar eru hennar helgustu hagsmunir. --- Góða nótt.