Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Ég geri ráð fyrir því að fleiri en ég hafi orðið hlessa á stefnuræðu hæstv. forsrh. Ætla hefði mátt að þegar stjórnmálamaður hefur lagt jafnmikið á sig og raun ber vitni til að fá tækifæri til að flytja þessa ræðu væri það vegna þess að hann hefði einhvern raunverulegan boðskap að flytja, einhverjar hugsjónir eða markmið um það hvert stefna beri í íslenskum þjóðmálum á næstu mánuðum og árum. En í stað þess háttar umfjöllunar um framtíðina snerist ræða forsrh. aðeins um tvennt þegar grannt er skoðað, annars vegar að allt sem miður hefði farið í landsmálunum væri samstarfsmönnum síðustu árum að kenna, annars vegar sem sagt vaskafatið eða handlaugina, sem hv. 1. þm. Suðurl. gat um og mér heyrðist raunar hæstv. utanrrh. hafa fengið að láni til að þvo hendur sínar af ömurlegum viðskilnaði sínum í ríkisfjármálunum. En hins vegar snerist ræða forsrh. hæstv. um það að afsaka það fyrir þjóðinni að nú skuli eiga að halda með framsókn í ferð til fortíðarinnar og færa stjórn efnahagsmála yfir á gamla millifærslustigið ein 30--40 ár aftur í tímann. Með því skrefi er veruleg hætta á að eðlileg framþróun í landinu stöðvist og brotið verði á bak aftur það sem þó hefur unnist við að færa stjórnarhætti og atvinnustarfsemi hérlendis til nútímalegra horfs.
    Höfuðeinkenni þeirrar haftahyggju sem nú á að leiða til öndvegis er skömmtunar- og bónbjargarstefnan: Komið til Stefáns Valgeirssonar, hann mun velja úr hina verðugu og gauka að þeim einhverri gustuk. Pólitískur hugmyndaheimur manna með þetta asklok fyrir himinn snýst um það og það eitt hvað úthlutunarpotturinn eigi að vera stór og hverjir megi komast að til að ausa úr honum.
    Forsrh. stærir sig af því hér í kvöld að það sé búið að gefa út reglugerð fyrir hinn nýja sjóð og hann hafi þegar tekið til starfa --- allt án þess að nokkuð liggi fyrir um hvort lög um þetta fyrirbæri muni ná fram að ganga óbreytt hér á Alþingi --- og gefið hefur verið í skyn að veð eða aðrar hefðbundnar tryggingar verði ekki látnar þvælast fyrir lánveitingum úr þessum nýja bjargráðasjóði stjórnarherranna. Byggðastefna ríkisstjórnarinnar byggist á því að fólkið á landsbyggðinni og útflutningsframleiðslan eigi að vera ofurseld ölmusum af þessu tagi úr sjóðunum fyrir sunnan í stað þess að búa atvinnulífinu alls staðar á landinu lífvænleg almenn starfsskilyrði þar sem menn keppa á jafnréttisgrundvelli. Auðséð er að slíkt gerist ekki við núverandi aðstæður án nokkurrar leiðréttingar á gengi íslensku krónunnar með viðeigandi hliðarráðstöfunum. En með þeirri stefnu, sem nú hefur verið tekin upp, fá ráðamenn útrás fyrir hina frumstæðu forsjárþörf sína og komast sjálfir í að úthluta og skammta.
    En mótsagnirnar í málflutningi ráðherranna eru margvíslegar. Þannig verður t.d. alþýðuflokksráðherrunum tíðrætt um nauðsyn þess að undirbúa íslenskt þjóðarbú undir hinn sameiginlega Evrópumarkað 1992 með því að færa íslenskt

efnahags- og atvinnulíf nær nútímanum og nær því sem gerist með öðrum þjóðum. Engu að síður hlaða þeir undir og eiga nú raunar allt sitt undir þeirri forneskju sem hv. þm. Stefán Valgeirsson er fulltrúi fyrir.
    Forsrh. verður tíðrætt um vaxtamál og þá sem hafa ráðið stjórn peningamála undanfarið. Hann hefur að sjálfsögðu hvergi komið þar nærri, enda aðeins verið ráðherra í tíu ár samfleytt. En árásir hans hitta engan meir fyrir en viðskrh. í stjórn Steingríms Hermannssonar, hæstv. ráðherra Jón Sigurðsson, sem hefur í orði og á borði verið helsti stuðningsmaður svokallaðrar frjálshyggjustefnu í vaxtamálum og farið með framkvæmd þessara mála undanfarna 15 mánuði. Þessi ráðherra hefur iðulega legið undir ómaklegu ámæli vegna stefnu sinnar í þessum málum en kastar nú tólfunum þegar sjálfur forsrh. vegur að honum með þessum hætti.
    En hvað sem líður kvörtunum forsrh. vegna vaxtastefnu viðskrh. síns liggur hitt fyrir, eins og bent hefur verið á í umræðunum, að stefna fyrri ríkisstjórnar var byrjuð að skila árangri með lækkandi vöxtum. Nafnvextir lækkuðu mun meira á síðustu fjórum vikum fyrri stjórnar en á fyrstu fjórum vikum núv. stjórnar. Og raunvextir á ýmsum óverðtryggðum skuldbindingum hafa hækkað en ekki lækkað í tíð þessarar stjórnar. Vextir af spariskírteinum ríkissjóðs voru lækkaðir með samningum í ágústmánuði sl. Núv. stjórn naut góðs af þeim samningum þegar hún lækkaði þessa vexti um 0,7% fyrir skömmu síðan. Hins vegar bólar hvergi á því að meðalraunvextir á spariskírteinum og öðrum skuldabréfum ríkissjóðs lækki um 3%, eins og ríkisstjórnin gaf fyrirheit um í september.
    Forsrh. tilkynnir í ræðu sinni, eins og fram var komið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að búið sé að ákveða að auka vægi launa í lánskjaravísitölunni og stefnt sé að því að afnema hana hið fyrsta. Með þessum hætti á væntanlega að koma til móts við þá sem skulda. En Framsfl., góðir áheyrendur, er samur við sig. Þrátt fyrir að þessi ákvörðun liggi fyrir flytja tveir þm. hans tillögu á Alþingi um að endurskoða skuli þessa vísitölu og þar með ekki að afnema hana. Með þessari tillögu er eflaust meiningin að fara á
fjörurnar við sparifjáreigendur. Þetta eru dæmigerð vinnubrögð hjá stjórnmálaflokki sem virðist ekki bara hafa einsett sér að afnema efnahagslögmálin heldur líka afsanna gamla máltækið um það að ekki verði bæði haldið og sleppt. Og í þessu framsóknarfjósi, svo notað sé orðbragð hans sjálfs, unir hæstv. utanrrh. Jón Baldvin Hannibalsson glaður við sitt. Já, svo liggur hver sem hann hefur um sig búið.
    Og margt er skrýtið í kýrhausnum í framsóknarfjósinu. Þaðan vegur nú utanrrh. illa og ómaklega að fyrri samstarfsmönnum sínum innan þings sem utan eins og menn heyrðu hér áðan. M.a. efnahagsráðgjafa fyrri ríkisstjórnar fyrir að leggja fram aðrar tillögur þegar ljóst var að niðurfærsluleiðin var ófær vegna andstöðu alþýðusamtakanna í landinu. Þetta mál mun flestum kunnugt og óþarft að hafa um

það fleiri orð hér.
    En þó að margt veki furðu í ræðu hæstv. forsrh. er ekki síður athyglisvert hverju sleppt er. Það er t.d. ekki vikið einu orði að utanríkissmálum eða framtíðaruppbyggingu á sviði stóriðju. Kannski er það vegna þess að um þessi mál er logandi ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar og því forðast forsrh. það eins og heitan eldinn að drepa á þau. Og hvergi hefur komið fram í þessum umræðum hvað alþýðubandalagsráðherrarnir hafa þurft að borga fyrir sæti sín í ríkisstjórninni í þessum málaflokkum, hverju þeir hafa fórnað í þessum málum fyrir að komast í ríkisstjórn. En í ræðu hæstv. forsrh. er heldur ekki að neinu marki vikið að skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar sem koma fram í því fjárlagafrv. sem lagt var fram í vikunni. Í því segir, og ég hef orðrétt eftir, með leyfi forseta, ,,að aukin skattheimta miðist við að þeir sem hafi mestar tekjur og eignir og hafa ráðstafað mestu til lúxuseyðslu og fjárfestinga á undanförnum árum beri stærstan hluta aukinnar skattbyrði.``
    Samt er meginþungi hinnar nýju skattheimtu í óbeinum sköttum sem menn greiða óháð tekjum og eignum eins og t.d. vörugjaldi, gjaldi á bensín og innflutningsgjaldi á bílum. Einnig á að hækka hinn almenna eignarskatt einstaklinga og til athugunar er að eyðileggja nýja staðgreiðslukerfið með því að bæta inn í það viðbótarskattþrepi. Eyðileggja nýja staðgreiðslukerfið. Einnig áformar ríkisstjórnin að skattleggja orkufyrirtækin í landinu sem stjórnarþm. eru þegar byrjaðir að afneita, eins og fram kom hér áðan í máli hv. formanns fjvn., hv. þm. Sighvats Björgvinssonar. En síðast en ekki síst ætlar ríkisstjórnin að ráðast til atlögu gegn öllum þeim aðilum á sviði líknar-, menningar- og íþróttamála sem hafa tekjur af happdrættum og hliðstæðri starfsemi. Af þessari starfsemi er ætlunin að klófesta upp undir hálfan milljarð króna á næsta ári með nýjum söluskatti. Og virðulegi forseti, þetta er sama upphæðin og ríkisstjórnin ætlar að greiða úr ríkissjóði í millifærslupottinn hjá Stefáni Valgeirssyni.
    Alþb. varð í fyrra tíðrætt um svokallaðan matarskatt en hefur nú forustu um sérstakan skatt á starfsemi öryrkja, Krabbameinsfélagsins, Hjartaverndar, SÍBS, DAS, Háskólans og íþróttahreyfingarinnar og allra annarra aðila sem tekjur hafa af frjálsri sölu happdrættismiða, rekstri lottós og getrauna og hliðstæðri starfsemi. Ég held það væri tilvalið verkefni fyrir menningarvitana í Alþb. að finna viðeigandi nafngift á þessa skattheimtu, en á lýðskrumsmáli hæstv. fjmrh. heitir þetta að skattleggja þá sem mestar tekjur hafa og eignir og hafa ráðstafað mestu til lúxuseyðslu og fjárfestinga á undanförnum árum. Þetta endurtók hæstv. ráðherrann hér áðan og ég segi nú eins og sagt var í ævintýri H.C. Andersens: Mikið má maður heyra áður en eyrun detta af, hæstv. ráðherra.
    Allir vita að nauðsynlegt getur verið að hækka skatta og auðvitað verður að standa undir sameiginlegum útgjöldum með sköttum. En það er hrein blekking að þeir milljarðar sem nú á að leggja

á þjóðina í nýjum sköttum beinist eitthvað sérstaklega að hátekju- og eignafólki. Allt er þetta einn ómerkilegur blekkingarvefur og kemur engum á óvart þegar formaður Alþb. á í hlut. Það skortir ekki háleit markmið í fjárlagafrv. hæstv. ráðherra, þar segir m.a. að dregið verði úr starfsmannafjölda hjá ríkinu um 2,5% á ári í nokkur ár. Ég skal ekki gera ágreining um það markmið en skyldi það vera vísbending um það hver hugur fylgir máli að alþýðubandalagsráðherrarnir þrír hafa þegar ráðið sér fimm persónulega aðstoðarmenn.
    Virðulegi forseti. Tími minn er á þrotum. Til þessarar ríkisstjórnar var ekki stofnað á grundvelli sem gera má ráð fyrir að verði varanlegur. Ég vænti þess að hún fari frá hið fyrsta. Þá geta ábyrg þjóðmálaöfl tekið höndum saman um það starf sem fram undan er við uppbyggingu atvinnu- og menningarlífs á Íslandi og til að fullnýta þau tækifæri sem fyrir hendi eru í okkar góða og gjöfula landi. Og ég fullyrði að slík uppbygging getur ekki átt sér stað án þátttöku Sjálfstfl. --- Góðar stundir.