Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Við höfum í kvöld heyrt marga stjórnarandstæðinga finna ríkisstjórninni og flokkunum sem að henni standa flest til foráttu. Alþfl. hefur ekki farið varhluta af þessari gagnrýni. Hann hefur verið sakaður um að hafa gefist upp á því að framfylgja þeirri stefnu sem hann hefur boðað undanfarin ár. Það eru einkum fulltrúar Sjálfstfl. sem hafa haldið þessu fram. Ég segi það hér og nú: Þetta er rangt, þetta er alrangt. Allt tal um haftabúskap og ölmusur til atvinnuvega er fjarstæða. Alþfl. hefur á undanförnum árum beitt sér fyrir umbótum í efnahagsmálum sem byggja á auknu frjálsræði með minni afskiptum ríkisins af atvinnurekstri og aukinni áherslu á markaðsbúskap. En þetta er engin trúarsetning. Aukinn markaðsbúskapur er ekki markmið í sjálfu sér. Þessi stefna er einfaldlega sú sem reynslan hefur sýnt að er vænlegust til þess að treysta efnahagslífið sem undirstöðu velferðarríkis og réttláts þjóðfélags á Íslandi.
    Því fer fjarri að þær aðgerðir í efnahagsmálum, sem ríkisstjórnin hefur gripið til og felast einkum í tímabundinni launa- og verðstöðvun, verðjöfnun til fiskiðnaðarins, skuldbreytingum og hagræðingarlánum til fyrirtækja í útflutningsgreinum, séu til marks um það að Alþfl. hafi gefist upp við að fylgja sinni stefnu. Það er ekki uppgjöf að þora að takast á við aðsteðjandi vanda. Ég minni á að viðreisnarstjórnin greip á sínum tíma til slíkra aðgerða við líkar aðstæður.
    Ég bið menn að hugleiða hvað hefði gerst ef ekki hefði verið gripið til aðgerða af þessu tagi. Annað af tvennu: Verðbólgan hefði hér ætt upp úr öllu valdi í kjölfar vonlausrar tilraunar til að bæta afkomu útflutningsfyrirtækjanna með stórfelldri gengisfellingu. Eða: Atvinnuleysi hefði skollið á þegar fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði hefðu lokað unnvörpum. Alþfl. vildi ekki bera ábyrgð á slíkri þróun, hann vildi taka tafarlaust á vandanum.
    Hér á landi hefur á síðustu árum geisað útgjaldaþensla á öllum sviðum. Hjá hinu opinbera, hjá fyrirtækjum og hjá einstaklingum og fjölskyldum. Þrátt fyrir uppgang í sjávarútvegi og tilraunir stjórnvalda til að hamla á móti aukningu útgjalda hefur meiru verið eytt en aflað hefur verið. Þetta hefur haft í för með sér að verðlag og framleiðslukostnaður innan lands hefur hækkað meira en erlendis. Þetta hefur þrengt að afkomu útflutningsgreina. Ofan á þetta bætist að þjóðarbúið hefur orðið fyrir verulegum áföllum á þessu ári, afli hefur dregist saman og verð á sjávarafurðum á erlendum mörkuðum hefur lækkað. Horfurnar fyrir næstu missiri eru því miður ekki bjartar. Á sl. sumri blasti einfaldlega við ófremdarástand með óðaverðbólgu eða atvinnuleysi væri ekki tekið fast í taumana og tafarlaust. Það var ekki um marga kosti að velja. Niðurfærslan, sem svo hefur verið nefnd, reyndist ekki framkvæmanleg og gengisfelling hefði við ríkjandi aðstæður ekki orðið til annars en að magna upp verðbólgu. Það var í rauninni

ekki annarra kosta völ en fara þá leið sem varð fyrir valinu við myndun núv. ríkisstjórnar og hún er þessi: Að freista þess að færa verðbólgu niður með tímabundinni verð- og launastöðvun, bæta um leið afkomu útflutningsfyrirtækja með verðjöfnun til fiskiðnaðarins og lengingu lána.
    Þetta eru auðvitað tímabundnar ráðstafanir. Þær leysa ekki vandann til frambúðar, en þær skapa stöðugleika í verðlagsmálum sem er forsenda vaxtalækkunar og gefur tóm til að móta með fjárlögum og lánsfjárlögum í þessu þingi umgjörð fyrir efnahagslífið þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur í febrúar á næsta ári og kjarasamingar verða lausir á ný. Samdrætti í þjóðartekjum þarf að jafna á landsmenn með sanngjörnum og réttlátum hætti. Við gerð kjarasamninga á næsta ári mun skipta sköpum hvort tekist hefur að ná verðbólgunni niður á svipað stig og í helstu viðskiptalöndum okkar og vöxtunum líka. Það var því lífsnauðsyn að fá þetta hlé frá sífelldum verðlagshækkunum og nota það vel.
    Ég vil minna þm. Sjálfstfl. á, einkum þá þm. sem nú hafa hæst um að Alþfl. hafi brugðist sinni stefnu, að nákvæmlega þessi leið var einmitt annar meginþátturinn í tillögu sem formaður Sjálfstfl., þáv. forsrh., lagði fram á síðustu dögum fyrri ríkisstjórnar. Með þessari tillögu viðurkenndi hann að kringumstæðurnar krefðust beinna afskipta stjórnvalda af verðlags- og launamálum og af afkomu útflutningsfyrirtækja og að gefa þyrfti ákveðna leiðsögn fyrir lækkun vaxta. Og úr því að hv. 1. þm. Suðurl. nefndi lánskjaravísitöluna vil ég í allri hógværð minna hann á að hann gerði sjálfur tillögu um breytingar á þessari vísitölu sem eru því nær hinar sömu og núv. ríkisstjórn hefur ákveðið að beita sér fyrir.
    Hinn þráðurinn í tillögum formanns Sjálfstfl., og sá sem varð til þess að upp úr stjórnarsamstarfinu slitnaði, gekk hins vegar þvert á það markmið að koma hér á efnahagslegum stöðugleika. Lækkun söluskatts á matvælum hefði gert það verk enn erfiðara sem nú er einna brýnast að vel verði unnið en það er að ná jafnvægi í ríkisbúskapnum. Það eru til aðrar og betri leiðir og skilvirkari en lækkun söluskatts á matvælum til að verja kjör þeirra sem lægstar hafa
tekjur. Alþýðubandalagsmenn hafa viðurkennt þetta í verki með þátttöku sinni í þessari ríkisstjórn. Þeir eru menn að meiri. Sjálfstfl. hins vegar gerði ófullnægjandi tillögur um tekjuöflun fyrir ríkissjóð og lækkun ríkisútgjalda. Með óábyrgum tillöguflutningi í fyrri ríkisstjórn dæmdi Sjálfstfl. sig frá landsstjórninni, hann vék sér undan ábyrgðinni á því að takast á við aðsteðjandi vanda þegar mest reið á. Það er grátbroslegt að hlusta nú á þm. Sjálfstfl. gagnrýna aðra fyrir að hafa haft þor til að standa fyrir ráðstöfunum sem þeir höfðu sjálfir viðurkennt að væru nauðsynlegar.
    Hæstv. utanrrh. vitnaði hér áðan til orða Einars Odds Kristjánssonar á Flateyri, en Einar sagði eitthvað á þá leið og ég rifja það upp, með leyfi hæstv.

forseta: ,,Það er ferlegt að Sjálfstfl. skyldi hætta forustu þegar framleiðsluatvinnuvegirnir liggja á hliðinni.`` Þetta er þungur dómur yfir forustu Sjálfstfl. þegar þessi forustumaður hans telur að eigin flokksforusta hafði sleppt árunum í brimróðrinum og hlaupið fyrir borð.
    Hæstv. forseti, góðir áheyrendur. Myndun núv. ríkisstjórnar bar brátt að og hún varð að grípa til umfangsmikilla efnahagsráðstafana án tafar. Það hefur sett mikinn svip á starf hennar þessar fyrstu vikur en það er ákaflega brýnt að menn missi ekki sjónar á langtímamarkmiðum í stanslausri glímu við stundarvanda. Ég ætla að tæpa á nokkrum atriðum sem varða framtíðina.
    Horfur um afturkipp í sjávarútvegi á þessu og næsta ári setja á ný í brennidepil nauðsyn þess að auka fjölbreytni í íslensku atvinnulífi. Öll þjóðin er sammála um það að nýta eigi orkulindirnar til atvinnuuppbyggingar. Þetta hefur þó gengið helsti hægt hin síðari ár. Nú gæti hins vegar verið lag til þess að auka hér álframleiðslu til mikilla muna með hagkvæmum samningum við erlend fyrirtæki. Á vegum iðnrn. er nú unnið að undirbúningi aukinnar álframleiðslu og virkjana sem henni tengjast. Þetta starf miðar m.a. að því að tryggja að ströngustu kröfur um umhverfisvernd og hollustuhætti á vinnustað verði uppfylltar og að framkvæmdir falli sem best að íslensku atvinnulífi. Kannað verður hvort hagkvæmt sé að koma á fót fyrirtæki sem vinnur úr bráðnu áli og jafnframt hugað að framtíðaruppbyggingu áliðnaðar með tilliti til æskilegrar þróunar búsetu í landinu.
    Þá eru ekki síður fram undan miklar breytingar á atvinnu- og viðskiptalífi í helstu viðskiptalöndum okkar þegar komið verður á hinum svonefnda innri markaði Evrópubandalagsríkja árið 1992. Til þess að Íslendingar geti staðið sig í alþjóðasamkeppni á næstu árum verða þeir að taka mið af þessum breytingum og gera nauðsynlegar umbætur á skipan íslenskra efnahagsmála, búa íslensku atvinnulífi sömu frjálsræðiskjör og tíðkast annars staðar í Evrópu. Þar er ekki síst um að ræða umbætur á fjármagnsmarkaði og endurskipulagningu í bankastarfsemi sem í reynd eru forsendur varanlegrar lækkunar vaxta. Það þarf að setja löggjöf um verðbréfaviðskipti og eignarleigustarfsemi og um það hef ég flutt frv. hér í þinginu. Það þarf að efla innviði bankakerfisins með samruna lánastofnana og það þarf að auka aðhald að fjármagnskostnaði innan lands með því að heimila erlenda samkeppni á fjármagnsmarkaði hér í auknum mæli.
    Hæstv. forseti. Breytingarnar sem í vændum eru snerta fjölmarga aðra þætti í viðskiptum Íslendinga við þjóðir Evrópu. Það er viðamikið verk að undirbúa þær breytingar sem hér þarf að gera. Ríkisstjórnin mun vinna ötullega að því verki. Hún var mynduð til þess að taka á vanda en ekki til þess að víkja sér undan honum. Hún var mynduð til þess að tryggja að Íslendingar búi sig af raunsæi undir framtíðina, framtíð sem verður björt ef við kunnum fótum okkar

forráð í nútíðinni. Þannig mun Ísland halda sínu í samkeppni þjóðanna.