Stefnuræða forsætisráðherra
Fimmtudaginn 03. nóvember 1988

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Það er ekki nema von að almenningur sé orðinn þreyttur á íslenskum stjórnmálamönnum. Stjórnleysi og ráðleysi gömlu flokkanna hefur bakað almenningi og atvinnulífinu í landinu mikil óþægindi og nánast kippt fótunum undan heilu starfsgreinunum. Það virðist vera nákvæmlega sama hverjir þeirra fara með völdin. Allt situr við hið sama, mikil óreiða í ríkisfjármálunum eins og hjá þeim einstaklingum og fjölskyldum sem lifa um efni fram. Sífellt er verið að slá nýja víxla, þ.e. taka ný erlend lán til þess að standa undir sukkinu þar sem skattpíning þegnanna dugar ekki til. Nú er svo komið að erlendar skuldir þjóðarbúsins nema orðið um 130 milljörðum kr. eða um tvöfaldri upphæð fjárlaga hins íslenska ríkis. Þetta er álíka og hjá fjölskyldu sem skuldar tvöfaldar árstekjur sínar. Skyldi henni líða vel?
    Nærri hver einasta króna sem er í umferð á Íslandi er fengin að láni erlendis. Það stefnir því í efnahagslega ringulreið og sjálfstæði þjóðarinnar er komið í hættu. Borgfl. vill að opinberir aðilar hætti að taka erlend eyðslulán. Þannig er ástandið á því herrans ári 1988 í upphafi stjórnartíðar nýrrar ríkisstjórnar.
    Almenningur veit þó að það er ekki við neinu að búast. Hér er nefnilega um hefðbundna ríkisstjórn gömlu flokkanna að ræða. Gamli fjórflokkurinn, þ.e. Sjálfstfl., Framsfl., Alþfl. og Alþb. hefur undanfarna áratugi farið með völdin til skiptis. T.d. er eina breytingin sem nú hefur orðið sú að nokkrum ráðherrum Sjálfstfl. hefur verið skipt út fyrir ráðherra Alþb. Gömlu flokkarnir eru orðnir ófærir um að stjórna landinu. Þeir eru svo önnum kafnir við að standa vörð um hagsmuni ákveðinna hópa innan vébanda sinna, halda völdum sínum, t.d. í bankakerfinu og í ýmsum mikilvægum samtökum, að annað kemst ekki að hjá þeim.
    Í tíð gömlu flokkanna hefur þjóðfélagið orðið sífellt flóknara og ómanneskjulegra. Þeir hafa sett alls kyns lög og reglur sem alls ekki henta þessu fámenna þjóðfélagi hér á norðurhjara veraldar. Sú árátta gömlu flokkanna og embættismanna þeirra að innleiða hér sama þjóðfélagskerfi og ganga ávallt út frá sömu efnahagslegu forsendum og gilda fyrir milljónaþjóðfélögin í nágrenni við okkur er okkur dýrkeypt. Ég hef kallað það kommuskekkjuna þegar verið er að setja lög og reglur, búa til mennta- og heilbrigðiskerfi eins og 2 1 / 2 milljón manna búi á Íslandi en ekki 250 þúsund. Það er engu líkara en ráðamenn séu haldnir einhverri minnimáttarkennd út af því hvað þjóðin er fámenn. Það er ólíkt virðulegra að geta sagt í hanastélsboði í Brussel: Við erum líka með virðisaukaskatt.
    Útflutningsframleiðsla okkar á nú undir högg að sækja. Á meðan allur rekstrar- og launakostnaður innan lands hefur hækkað um 20% á ári umfram það sem gerist í helstu samkeppnislöndum okkar hefur gengi krónunnar og þar með útflutningstekjurnar nánast staðið í stað. Ástandið er því orðið þannig að nær öll fyrirtæki sem byggja á útflutningstekjum og

fyrirtæki í samkeppnisiðnaði eru komin í þrot. Forustumenn ferðamála eru einnig mjög uggandi um ástandið. Hætt er við að ferðamannaþjónusta, sem hefur veri mikill og vaxandi atvinnuvegur og skilar nú um 10 milljörðum kr. árlega í þjóðarbúið eftir mikið og gott uppbyggingarstarf, hrynji saman. Útlendingum sem hingað koma blöskrar verðlagið, einkum þó hið geypiháa verð á matvöru og hvað þeir fá lítið fyrir gjaldeyrinn sinn. Á sama tíma er erlendur gjaldeyrir nánast á útsölu og alls kyns erlendur varningur flæðir inn í landið, bílar og hvers kyns græjur.
    Engu er líkara en hagkerfi okkar sé eingöngu miðað við innflutningsverslunina. Allur innflutningur er meira eða minna frjáls en útflutningsverslunin háð höftum og leyfum. Þeir aðilar sem eru að baksa við að framleiða eitthvað til útflutnings eru oft litnir hornauga, einkum og sér í lagi ef um iðnaðarvörur eru að ræða. Þetta eru einhverjir menn úti í bæ sem eru sífellt að kvarta yfir slæmum rekstrarskilyrðum, of háu gengi og of háum fjármagnskostnaði. Væri ekki betra að losna alveg við þá? Því geta þessir menn ekki gerst venjulegir launþegar, lagt kaupið sitt inn á banka og fengið háa vexti í staðinn, hugsar hæstv. iðnrh. og dæsir.
    Fisk eiga helst engir aðrir að selja en gömlu sölusamtökin, svo ekki sé talað um landbúnaðarafurðir. Þar mega engir koma nálægt nema SÍS frændi. Það skyldi því engan undra þótt hinir fjölmörgu dugnaðarmenn í verslunarstétt hafi haslað sér völl á innflutningi. Á meðan allar þjóðir leggja höfuðáherslu á það að stuðla að auknum útflutningi á sem flestum sviðum virðist höfuðáherslan hér vera lögð á innflutning, enda viðskiptahallinn kominn upp í 12 milljarða kr. og talið að hann minnki ekkert á næstunni.
    Nýfrjálshyggjupostularnir innan ríkisstjórnarinnar sem utan virðast halda að þjóðin geti lifað á því að höndla með pappíra og flytja inn vörur frá útlöndum. Þjóðartekjurnar virðast aðallega eiga að byggja á því að við seljum hvert öðru verðbréf á fjármagnsmörkuðum, þ.e. klippum hvert annað. Allir eru að vísu sammála um að selja fisk meðan við nennum að veiða hann sjálfir. E.t.v. væri betra að selja Efnahagsbandalaginu allan fiskveiðikvótann dýru verði. Við getum þá hætt allri atvinnustarfsemi og lifað á atvinnuleysisbótum.
    Hér þarf að verða hugarfarsbreyting. Við verðum að gera stórátak í útflutningsmálum og hugsa um það eitt hvernig við getum skapað útflutningsgreinunum sem best ytri skilyrði. Hugsanlega verður að taka upp annars konar gengisskráningu sem tekur mið af raungildi útflutningsverðmæta okkar. Þá verður að gefa útflutningsverslunina frjálsa og heimila útflutningsfyrirtækjum að hafa erlend bankaviðskipti að vild til að treysta samkeppnisstöðu þeirra. Íslenska bankakerfið virðist ekki fært um að sinna alhliða erlendum viðskiptum. Borgfl. vill efla íslenskan iðnað og stuðla að útflutningi á íslensku hugviti og tækniþekkingu, ekki hvað síst í þeim iðngreinum sem tengjast sjávarútvegi. Borgfl. vill koma upp öflugum

útflutningsábyrgðasjóði þannig að útflutningsfyrirtæki, bæði iðnfyrirtæki, afurðasölufyrirtæki og ráðgjafarfyrirtæki sem selja þekkingu, geti fengið útflutningsábyrgðir við gerð útflutningssamninga. Slíkar útflutningsábyrgðir eru veittar nánast sjálfkrafa í nágrannalöndum okkar á meðan íslenskir aðilar hafa átt í erfiðleikum með að útvega slíkar ábyrgðir.
    Ástand fiskistofna við landið, einkum hvað varðar þorsk og rækju, er uggvænlegt. Stefnir í verulega minnkun sjávarafla ofan í alla aðra efnahagslega óáran. Stjórnleysi hvað varðar verndun fiskistofna er nú farin að segja til sín. Fimm ára fiskveiðistefna Framsfl. undir forustu hæstv. sjútvrh. hefur gjörsamlega brugðist. Borgfl. vill nýja fiskveiðistefnu, þar sem markviss friðun uppeldis- og hrygningarstöðva nytjafiska er höfð að leiðarljósi. Til greina gæti komið að friða stór strandsvæði fyrir öllum togveiðum og dragnótaveiðum, taka upp togveiðilandhelgi. Borgfl. vill vinna að því í samvinnu við hagsmunaaðila sjávarútvegsins að koma okkur út úr kvótakerfinu.
    Borgfl. vill beita sér fyrir einfaldara og réttlátara samfélagi þar sem hagsmunir almennings eru hafðir að leiðarljósi og einstaklingurinn fær að njóta ávaxta elju sinnar og hugvits, ekki síst með því að sinna þeim vaxtarbroddi atvinnulífsins sem felst í hvers kyns nýjungum á sviði viðskipta, iðnaðar og tækni. Borgfl. vill hagnýta til fulls alla kosti upplýsinga- og tölvualdar. En fyrst og fremst þarf að leita leiða sem henta okkur Íslendingum, leiða til að rétta hlut landsbyggðarinnar og þess launafólks sem hefur borið skarðan hlut frá borði þrátt fyrir mikinn þjóðarauð.
    Borgfl. er þess fullviss að dugnaður, ráðdeild og þrautseigja íslensku þjóðarinnar muni senn sem fyrr reynast henni besta leiðarljósið út úr þeim ógöngum sem gömlu flokkarnir hafa leitt hana í. Sú leið er þó vandfarin meðan gömlu flokkarnir halda dauðahaldi í völdin og standa sameiginlega vörð um hagsmuni sína. Það er því löngu orðið tímabært að hrista upp í stjórnmálalífinu á Íslandi. Þörf er fyrir nýja flokka og nýtt fólk sem tekur öðruvísi á málunum en gömlu flokkarnir. Í næstu kosningum er nauðsynlegt að kjósendur átti sig á þessu og hristi rækilega upp í kerfinu.
    Fyrir hönd Borgfl. býð ég góða nótt.