Íslenska skjaldarmerkið á Alþingishúsinu
Mánudaginn 31. október 1988

     Eiður Guðnason:
    Virðulegi forseti. Vegna fyrirspurnar hv. 4. þm. Vestf. held ég að það sé rétt að fram komi að ég minnist þess ekki að till. hafi borið á góma í þingflokki Alþfl. Það má vel vera að þar hafi verið sagt frá henni, enda skiptir það engu höfuðmáli því að auðvitað hefur hver þm. fullan rétt til að flytja þau mál sem samviska hans býður.
    Mér þótti hins vegar vænt um að heyra hv. 4. þm. Vestf. og fyrrv. forseta Sþ. segja frá því að forsetar þingsins hefðu á sínum tíma gert ráðstafanir til að láta lagfæra merki Kristjáns níunda hér á þinghúsinu og það þykir mér góð og skynsamleg ákvörðun. Mér finnst hins vegar að till., sem hér um ræðir, hefði gjarnan mátt vera óflutt vegna þess að mér finnst þetta --- og það er bara mín persónulega skoðun --- ekki mjög skynsamleg tillaga vegna þess að ég sé í rauninni ekki hvert þetta mundi leiða okkur. Ég hygg að þetta mundi leiða okkur í hinar mestu ógöngur. Ef við ætlum að fara að afmá söguleg minnismerki af byggingum erum við í rauninni að hrófla við okkar menningararfi og þjóðarsögu. Ég veit að þetta er sums staðar gert, en það þykir mér ekki vera til neinnar sérstakrar fyrirmyndar og ég hugsa að flestir hv. þm. geti tekið undir það.
    Ég veit ekki hvort menn hafa tekið eftir því að á Dómkirkjunni hér við hliðina er vindhani, efst á honum er gullin kóróna og ártalið 1847. Það má auðvitað spyrja sem svo: Er það ekki óviðurkvæmilegt að við þm. skulum ganga til guðsþjónustu undir danskri kórónu, eins og við gerum á hverjum þingsetningardegi. Mér finnst hins vegar ekkert athugavert við það. Það hefur verið minnst hér á styttu Danakonungs fyrir utan Stjórnarráðið sem stendur fyrir utan skrifstofuglugga forseta Íslands. Mér finnst heldur ekkert athugavert við það. Þetta er partur af okkar þjóðarsögu, hlutir sem við eigum ekki og höfum ekki gagnvart komandi kynslóðum minnsta leyfi til að breyta. Mig langar til að ljúka þessum fáu orðum með því að lýsa því yfir að ég er ósamþykkur efni þessarar till. í öllum atriðum og vitna til orða danska rithöfundarins Johannes V. Jensen, það er nú kannski ekki alveg orðrétt tilvitnun, en hann segir einhvers staðar: ,,Det folk som ikke medbringer noget gods fra fortiden har heller ingen fragt til fremtiden.`` Og það er töluvert til í því.