Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

    Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Málsháttur er á þessa leið: Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. Í þeim umræðum sem hér hafa átt sér stað um till. hv. 6. þm. Norðurl. e. hafa þm. Sjálfstfl. risið upp hver um annan þveran og mótmælt, ekki aðeins fyrir sína hönd heldur allra Reykvíkinga. Ég telst til þm. Reykvíkinga og tel að efni þessarar till. megi eins og margar aðrar tillögur koma hér til umræðu. Það særir mig ekki að rætt sé um byggingu ráðhúss hér í borginni og tala ég þar fyrir hönd margra annarra Reykvíkinga, eins og konu þeirrar sem heimsótti mig í morgun og átti ekki fyrir mat handa sér og barni sínu, Reykvíkings sem leitaði á náðir Félagsmálastofnunar en fékk ekki fyrirgreiðslu. Hana varðar ekkert um ráðhús eða hringekju á tönkunum í Öskjuhlíð. Hún gerði ekki aðrar kröfur en að eiga fyrir mat og húsaskjóli.
    Að vísa til þess að flm. sé af landsbyggðinni og gera tillöguna ómerka fyrir bragðið er rökleysa. Við Reykvíkingar erum ekkert yfir aðra landsmenn hafnir. Þvert á móti höfum við verið að ögra landsbyggðinni á undanförnum árum með gegndarlausri eyðslu og fjárfestingu og sogað til okkar fjármagn frá landsbyggðinni. Hins vegar get ég tekið undir það með hv. þm. Sjálfstfl. að till., eins og hún kemur fram, gengur of langt. Í henni er beint verið að vega að stjórn Reykjavíkurborgar og þeim ákvörðunum sem meiri hluti borgarinnar hefur tekið. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er ákvörðunin um byggingu ráðhúss tekin af þar til bærum aðila. Annað mál er hvort með ákvörðuninni hafi verið brotið á rétti einhvers aðila, þar á meðal Alþingis eða annarra eigenda eigna í nágrenni ráðhússins, og hvort við undirbúning og framkvæmd hafi verið farið eftir skipulags-, byggingar- og brunavarnalögum.
    Félmrn. hefur úrskurðað að bygging ráðhúss skuli heimiluð og við það verður að sitja. Hvort úrskurður ráðuneytisins er réttur fæst ekki skorið úr um nema málinu sé skotið til dómstóla og þá í formi stefnu er byggi á því að ráðuneytið hafi á einhvern hátt ekki gætt réttra sjónarmiða.
    Í mínum huga er þetta ráðhúsmál á margan hátt athyglisvert og sýnir hve mikil nauðsyn er á að koma á fót stjórnsýsludómstóli sem geti úrskurðað í pólitískum málum en það skuli ekki vera í höndum pólitísks ráðherra að úrskurða um lögmæti ákvarðana annars pólitísks aðila. Hvort það hafi haft áhrif í þessu máli er ekki gott að fullyrða. Hins vegar býður manni í grun að teknu tilliti til laga og þeirra gagna sem liggja fyrir að það hafi ekki spillt fyrir framgangi málsins að sami flokkur leiddi síðustu ríkisstjórn og tók ákvörðun um það að byggja þetta umdeilda ráðhús.