Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Flm. (Stefán Valgeirsson):
    Virðulegi forseti. Umræðuna um þessa þáltill. mína tel ég vera einstæða, bæði innan þings sem utan. Lénsherrarnir hér í borginni urðu óttaslegnir og settu strengjabrúðurnar sínar í gang. Brúðurnar sem vita fullvel að framavon þeirra byggist á því að þær láti að stjórn eins og ég mun rökstyðja hér síðar. Eitt kom mér þó á óvart. Það var ræða hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar, fyrrv. forseta sameinaðs Alþingis. Ég átti satt að segja ekki von á því að hann mundi falla í sömu gryfju og hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson og Geir H. Haarde. Til marks um flumbruháttinn og skelfinguna sem virtist hafa gagntekið sumt af þessu fólki segir hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson í Morgunblaðinu 29. okt. sl. þar sem hann talar um tillögu mína, með leyfi forseta: ,,Tillagan felur í sér þvílíka skerðingu á lýðræðislegum réttindum Reykvíkinga til athafna í eigin málum að því verður ekki unað. Efni hennar er í stuttu máli það að Stefán Valgeirsson vill með nýrri lagasetningu stöðva framkvæmdir við byggingu ráðhúss Reykjavíkur sem efnt hefur verið til á grundvelli laga og reglna.``
    Hvar í þessari till. er gert ráð fyrir nýrri lagasetningu til lausnar þessu máli? Las þessi hv. þm. ekki till. áður en hann skrifaði þessa endemis grein? Var það einhver annar sem sagði honum að skrifa svona til þess að villa um fyrir landsmönnum hvað snertir það hvað í raun og veru felst í till.?
    Í till. segir, með leyfi forseta: ,,Alþingi ályktar að kanna skuli sem ítarlegast öll lagaleg atriði sem tengjast ráðgerðri byggingu ráðhúss Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn með tilliti til eignarréttar og grenndarréttar húseigna Alþingis við norðurenda Tjarnarinnar. Skal forsetum Alþingis falið að fá þrjá trausta lögfræðinga til að kanna lagaleg atriði málsins og gefa sérálit og einnig að fá könnun og sérálit þriggja manna sérfróðra um skipulags- og byggingarmál á málum sem tengjast ráðhúsbyggingunni.`` Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson segir í umræðunni um till. að till. sé ekki þinglega flutt og raunar ekki umræðuhæf. Þetta leyfir hv. þm. sér að segja án þess að rökstyðja slík ummæli sín á nokkurn hátt. Slíkur málflutningur hæfir ekki hv. þm. sem er fyrrv. forseti sameinaðs Alþingis. Í þessum ummælum felst raunar aðdróttun að hv. forseta sameinaðs Alþingis því ef till. var ekki þingleg átti forseti að benda flm. á það og sjá til þess að hún yrði sett í þinglegt form eða að öðrum kosti að vísa henni frá.
    Auðvitað eru þetta bábiljur einar. Hitt er annað mál að umræða um þetta mál er langt frá því að vera þægileg fyrir meiri hluta borgarstjórnar Reykjavíkur. Ætli það sé ekki skýringin á þessum viðbrögðum?
    Hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson talaði um netlög í háðstón í þessu sambandi. Þó stendur í þessari bók, sem er Álit dómnefndar um byggingu Alþingis, á 4. síðu, með leyfi forseta: ,,Þá þurfti að gæta þess við staðsetningu nýbyggingarinnar að möguleikar yrðu fyrir hendi ef rétt þætti í framtíðinni að reisa nýtt Alþingishús á lóðarspildum þeim sem Alþingi hefur

yfir að ráða á svæði því sem markast af Templarasundi, Kirkjustræti, Tjarnargötu og Tjörninni.``
    Í þessu felst að Alþingi eigi Tjarnarbakkann að langmestu leyti og þá er spurningin: Fylgja þá 115 metrar út í Tjörnina? Eitt er víst að úr því hefur ekki verið skorið og borgarfógetinn í Reykjavík segir í bréfi sem ég hef undir höndum að hjá því embætti sé ekkert að finna um það hver eigi Tjörnina. Er fyrrv. forseti Sþ. eitthvað hræddur við það að kannað sé til hlítar hver eigi umræddan hluta Tjarnarinnar? Var það ekki siðferðileg skylda hans að hafa frumkvæði að því að það yrði kannað til hlítar? Ef nú upp kæmi sú staða að það yrði að flytja Alþingi úr miðbænum vegna ráðhúsbyggingarinnar, eins og ýmsir telja nú, hvað þá um afskiptaleysi forseta Alþingis um það að láta rannsaka hver réttur Alþingis er á Tjarnarbakkanum og á Tjörninni?
    Og hvað segja fulltrúar flokkanna sem eru í minni hluta í borgarstjórn Reykjavíkur? Í Pressunni 27. okt. sl. segir Alfreð Þorsteinsson, með leyfi forseta: ,,Margir æðstu embættismenn borgarinnar lúta í einu og öllu vilja borgarstjórans.`` Bjarni P. Magnússon segir: ,,Þarna eru menn sem eiga erfitt með að draga mörkin milli hlutlausrar embættisfærslu og Sjálfstfl.`` Guðrún Ágústsdóttir segir: ,,Ég þarf að leita út í bæ til þess að fá lögfræðilegt álit í borgarmálefnum. Mér finnst ég ekki eiga aðgang að lögfræðingum borgarinnar.`` Og Össur Skarphéðinsson segir: ,,Embættismennirnir í kringum Davíð eru eins og mýs undir fjalaketti.``
    Síðan segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í októberblaði Veru, með leyfi forseta: ,,Ráðhúsið sýnir í hnotskurn hvað ég á við. Í því máli hefur maður mátt horfa upp á embættismennina líta á andstæðinga ráðhúsbyggingarinnar sem sína andstæðinga, sem auðvitað er fráleitt. En hvernig vinna þeir svo sem pólitískir embættismenn og margir hverjir taka m.a.s. að sér að vinna ýmis verk sem meiri hlutinn ætti með réttu að sjá sjálfur um? Þeir eru tilbúnir til þess að tefla þá refskák sem flokkurinn þarf á að halda. Ég er þá að tala um pöntuð bréf, alls konar pantaðar yfirlýsingar og sjónarmið sem meiri hlutann vantar. Þannig öðlast þessi sjónarmið faglegan stimpil.``
    Og enn segir Ingibjörg Sólrún: ,,Skipulagsmálin sýna þetta best, en ég held að í þeim málaflokki sé meiri hlutinn kominn lengra í því að útrýma lýðræðislegum vinnubrögðum og það með dyggilegri aðstoð ýmissa embættismanna. Það er hrikalegt að horfa upp á hvað réttur hins almenna borgarbúa er fótum troðinn í þessum málum.``
    Fleira væri hægt að vitna í sem Ingibjörg Sólrún segir í þessu viðtali.
    Á fundi skipulagsnefndar borgarinnar sem haldinn var 29. febr. 1988 gerir Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi miklar bókanir. Ég vil vitna í hluta af þeim, með leyfi forseta:
    ,,Hins vegar er ljóst að staðsetning ráðhúss við norðvesturenda Tjarnarinnar er umdeilanleg og ýmsum annmörkum háð. Með tilliti til þess hversu lítil lóð er,

er húsið í stærra lagi miðað við lóð. Slíkt ætti þó ekki að koma að sök ef ekki kæmi fleira til. Er þar átt við væntanlegar nýbyggingar Alþingis sem ráðgert er að rísi við Kirkjustræti, Tjarnargötu og Vonarstræti. Ef Alþingi stendur fast við þau byggingaráform er ljóst að hagsmunaárekstrar verða milli Alþingis og borgaryfirvalda, þar sem þetta svæði rúmar ekki bæði ráðhús og nýbyggingar Alþingis með allri þeirri starfsemi sem þessum stofnunum fylgja. Hefur fækkun bílastæða í kjallara ráðhússins aukið enn á þann vanda. Þetta þýðir m.ö.o. að haldi borgaryfirvöld sínu striki um ráðhúsbyggingu við norðvesturenda Tjarnarinnar verður það á kostnað Alþingis sem ekki fær nægilegt svigrúm fyrir framtíðarbyggingar sínar samkvæmt þeim hugmyndum sem nú eru uppi.``
    Þetta segir Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi. En síðast en ekki síst vil ég vitna hér í virðulegan forseta Sþ., Guðrúnu Helgadóttur. Hún segir í Dagblaðinu 15. okt. sl.:
    ,,Ráðhúsið breytir auðvitað öllu í sambandi við byggingu Alþingishúss. Það er t.d. engin leið að gera sér grein fyrir hvernig umferðin verður í kringum húsið eða næsta nágrenni. Því veit enginn hvort pláss verður fyrir stækkun Alþingishúss. Þegar hún var áformuð var ekki farið að ræða um ráðhús á þessum stað,,, segir Guðrún Helgadóttir.
    Og svo eru sumir þm. Sjálfstfl. undrandi yfir því að sú tillaga sem hér er til umræðu sé flutt þó að margir borgarfulltrúar séu í vafa um það hvort Alþingi geti haldið hér áfram starfsemi sinni.
    Það hefur ýmislegt komið fram í blöðum og í ræðum manna. Menn tala t.d. um forneskju og forsjárhyggju mína og tala í fyrirlitningartón um fyrirgreiðslu sem ég og ýmsir aðrir reynum gagnvart þeim sem hafa orðið undir í kerfinu, þar sem kúgun, okur, valdbeiting og klíkuskapur veður uppi. Hvað segir þessi málflutningur um þá sjálfa sem þannig hugsa og tala? Þeir nota upphrópanir, sleggjudóma, dylgjur og jafnvel rógburð án þess að færa nokkur málefnaleg rök fyrir máli sínu. Þeir nota vald sitt og samtryggingu til þess að vaða yfir skoðanir og rétt annarra í nafni lýðræðis, frelsis eða nútímalegra vinnubragða. Á hvað minnir þetta? Minnir þetta ekki óhugnanlega á lénsskipulag miðalda þar sem hinir eðalbornu gátu leyft sér næstum hvað sem var í skjóli auðs og valds og boðuðu öðrum hina réttu skoðun, hina réttu trú? Hver er munurinn? Þetta er mikil og hættuleg siðblinda og elur af sér kerfi þar sem misrétti og ofbeldi þrífst í ýmiss konar myndum og kemur hvað harðast niður þar sem síst skyldi, t.d. á börnum þessa lands.
    Við skulum minnast þess að við sem sitjum hér í umboði þjóðarinnar á Alþingi Íslendinga berum mikla ábyrgð. Og ef við glötum dómgreind okkar og siðgæðisvitund og förum ekki eftir settum reglum í hvívetna, hvernig fer þá fyrir okkar þjóð?