Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. ( Gripið fram í: Nei, ekki herra, hæstv.) --- Herra forseti. Það má vel vera að hv. 5. þm. Vestf. telji að hann sé hér enn forseti og eigi að leiðrétta menn í ræðustól, en það er liðin tíð. En þetta er sama gildran og flestir ráðherrar hafa fallið í. Það er eins og þeir komist ekki úr sínum embættum fyrr en á miðju kjörtímabili eða þá seinna og sumir virðast lifa af því það sem þeir eiga eftir þingferil sinn hafi þeir verið ráðherrar í einhverri grein, að þá telji þeir að þeim beri afskiptasemin.
    Ein af ástæðum fyrir því að ég kem hér upp er sú að mér blöskraði svo gjörsamlega þegar Ríkissjónvarpið birti þær fréttir að þessi tillaga sé naumast þinghæf og það er haft eftir fyrrv. forseta. Sú makalausa ósvífni að láta sér detta það í hug að hann, og ekki fer það nú á milli mála, eigi að vera dómari til að dreifa þeim upplýsingum til ríkisfjölmiðla hvað sé þinghæft og hvað ekki, gengur alveg fram af mér. Fulltrúi, sem kosinn hefur verið með fullum stuðningi Sjálfstfl. svo best er vitað til að gegna fyrsta varaforsetaembætti í þinginu, hefði að sjálfsögðu verið sá eðlilegi aðili til að svara slíku, hvort ágreiningur væri uppi á meðal forseta um það hvort taka bæri tillögu fyrir eða ekki. Ég tel að þetta kalli á það að hv. 5. þm. Vestf. verði að leiðrétta það svo að það skiljist hjá alþjóð og koma því á framfæri við sjónvarpið að hafi hann verið þeirrar skoðunar að till. sé ekki þinghæf, þá beri að leiðrétta það. Því allir skildu þetta á þann veg þegar fréttin kom að ef hann hefði setið í sæti forseta, þá hefði öðruvísi verið á þessu tekið. Þetta tel ég að þurfi að koma hér fram vegna þess að það er gjörsamlega ólíðandi að búa við þann fréttaflutning að forsetar verði fyrir árásum á þennan hátt í fjölmiðlum, að það sé nánast verið að láta að því liggja að þeir séu ekki hæfir til að gegna sínu starfi.
    Ég ætla ekki að segja fleiri orð um þetta, en snúa mér að því sem ég vil að liggi fyrir á hreinu. Að sjálfsögðu eiga Reykvíkingar rétt á að byggja sitt ráðhús og að sjálfsögðu á löglega kjörinn meiri hluti að ráða því hvenær það er gert og hvar það stendur. Þetta fer ekkert á milli mála og þetta veit ég að hver einasti þm. á Alþingi Íslendinga telur að sé sjálfsagt mál.
    Hitt er svo annað atriði að allir þurfa þegnar landsins að fara að lögum. Og það sem vekur spurningar í þessu sambandi er það hvort forsetar Alþingis hafi verið sér meðvitandi um það þegar þeir fengu bréf frá hv. 6. þm. Norðurl. e. að þeir hefðu ekki gætt lagalegs réttar Alþingis --- og virðast ekki hafa hugsað sér að gera það. Þeir leita til húsameistara ríkisins, Garðars Halldórssonar, og hans umsögn er í alla staði góðra gjalda verð, en það breytir ekki því að það hefur fallið dómur í Hæstarétti um botn Mývatns og niðurstaðan er sú að Hæstiréttur dæmdi engum eignarréttinn yfir botninum. Það liggur ekkert fyrir hver á Tjarnarbotninn. Það liggur ekkert fyrir. Og hvað sem líður netalögnum og áhuga manna á silungsveiðum, þá er það hótfyndni þegar forsetar

telja sig yfir það hafna að þurfa að svara bréfum á þeirri forsendu að það sé vandasamt að svara þeim. Hvers lags yfirlýsingar út í hött eru þetta? Eiga þeir að svara þeim bréfum einum sem eru svo einföld að gerð að það er enginn vandi að svara þeim? Á bara að safna hinu upp í hauga eða svara því óbeint? Eru engin takmörk fyrir því hvað menn láta frá sér fara? Auðvitað kallar það á það, þegar forsetar treysta sér ekki til að svara bréfum vafningalaust, að þeir leiti þá álits sér fróðari manna og í þessu tilfelli lögfræðinga.
    Ég tel að öll umræða um þetta mál hafi núna snúist á þann veg að menn hafa viljað stimpla Stefán Valgeirsson sem einhvern sérstakan fjandmann Reykjavíkur. Ég les það ekki út úr þessu sem hér stendur. Ég les það ekki út úr því. Og ég hreinlega fullyrði að svo sé ekki.
    Ég vil aftur á móti segja það að jafnstaðráðinn og ég er í því að hafa ekki af því afskipti hvar Reykjavík byggir sitt ráðhús, þá hlýt ég að hugleiða það með fullri virðingu fyrir því svæði sem við erum á, sem er að mörgu leyti hjarta höfuðborgarinnar, að það eru takmörk fyrir hve mikið er hægt að byggja hér, það er viðurkennt af öllum. Því að fari þéttleiki þessa svæðis mjög hátt upp, upp fyrir þær hugmyndir sem settar hafa verið fram í skipulagslögum, á þeirri forsendu að allir verði að nýta sínar lóðir miklu meira en í topp, að því er virðist, þá hlýtur það að vera mikið umhugsunarefni hvort ekki sé þá eðlilegt að Alþingi velji þann kostinn að færa sína starfsemi úr miðbænum, ekki sem hótun, ekki sem ógnun og enginn er að tala um að það sé gert af fjandskap við Reykvíkinga, heldur að við hugleiðum hvort raunhæft sé að fara í þær miklu byggingarframkvæmdir sem hér standa til með byggingu þinghússins. Ég segi fyrir mig að mér sýnist að það sé eðlilegt að menn endurskoði sína afstöðu í þeim efnum í rólegheitum, ekki í neinum æsingi. Því það blasir m.a. við að verulegt umferðaröngþveiti gæti orðið á þessu svæði í framtíðinni vegna sívaxandi bílaumferðar að miðborg Reykjavíkur, bílaumferðar sem þegar í dag gerir þar oft erfitt um vik að menn komist leiðar sinnar.
    Ég vænti þess að lagður verði til hliðar sá vopnaburður að vegna þess að
menn taka hér fyrir á Alþingi Íslendinga umræðu um byggingarframkvæmdir í Reykjavík þá líti menn svo á að verið sé að ráðast að einhverjum helgum rétti manna til þess að hafa þar einir alla umsögn um. Er ekki Reykjavík eina sveitarfélagið sem getur eða segja má með sanni að hafi með höndum stórframkvæmdir í öðrum sveitarfélögum? Eru þeir þá með slíku að ráðast á einhvern rétt þeirra sveitarfélaga? Auðvitað þurfa þeir að gera það innan laga og að sjálfsögðu verða menn að gera sér grein fyrir því að það þrengist þá mjög það umræðuefni sem þm. Reykv. mega hafa megi þeir ekki tala um neitt annað en það sem er innan borgarmarkanna.