Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki vera langorður um þessa till., ég talaði hér fyrr í umræðunni. En vegna orða hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar þá hlýt ég að undirstrika það að Reykjavíkurborg hefur farið að lögum í sambandi við byggingu ráðhússins og ég vísa m.a. til orða hæstv. félmrh. hér fyrr í þessari umræðu. Það er kannski umhugsunarefni fyrir okkur hv. þm. hvort hv. þm. Stefán Valgeirsson og Ólafur Þ. Þórðarson séu að bera brigður á gjörðir hæstv. félmrh. Ef svo er þá hljótum við að líta þannig á að í því felist ákveðið vantraust á þann ráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar.
    En varðandi ræðu hv. þm. Stefáns Valgeirssonar verð ég að segja að mig furðar að hann skuli eiginlega ráðast að þm. fyrir það að leyfa sér að hafa skoðanir á þáltill. Ég flutti hér fyrr í umræðunni mjög málefnalega ræðu um þessa þáltill., sleppti öllum stóryrðum um persónur manna en hv. þm. Stefán Valgeirsson gat ekki stillt sig um það að vera með óviðurkvæmileg orð og útúrsnúning varðandi einstaka þm. Ég mótmæli slíku orðalagi, ég mótmæli slíkri framkomu gagnvart þm. sem leyfa sér að hafa skoðanir á málum þótt hv. stjórnarþingmenn beri þau fram hér í sölum Alþingis.
    Enn hafa þessir hv. þm. sem styðja ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar ekki náð því stigi að þeir geti bannað stjórnarandstæðingum að flytja hér mál sitt og mótmæla þáltill. ef þeim sýnist svo. Það er tími til kominn að þessir hv. þingmenn átti sig á því.
    En varðandi það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson segir í ræðu sinni: ,,ég gerði ekki till. um að byggingu ráðhússins yrði stöðvuð``, þá leyfi ég mér að vísa enn einu sinni í orðalag till. sjálfrar og í grg. Með leyfi forseta vil ég lesa hér eftirfarandi úr till. Stefáns Valgeirssonar til þál., þar sem segir: ,,Dugi tilmæli Alþingis ekki til að stöðva framkvæmdir borgarstjórnar Reykjavíkurborgar í Reykjavíkurtjörn til bráðabirgða skal forsetum Alþingis falið að láta vinna að því fyrir dómstólum að stöðva framkvæmdirnar þar til ótvírætt liggur fyrir að framkvæmdirnar séu lögmætar.``
    Nú hefur hæstv. félmrh. úrskurðað að þessar framkvæmdir séu löglegar. En ég vísa til þess sem segir í grg. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þingsályktunartillagan miðar að því að könnuð verði ítarlega m.a. öll lagaleg og skipulagsleg atriði sem tengjast ráðgerðri byggingu ráðhússins. Þau gögn verði lögð fyrir Alþingi og Alþingi sjálft fái tækifæri til að móta afstöðu sína til málsins og gera ráðstafanir ef það gefur tilefni til. Einnig að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan kannanir fara fram.`` Er þetta ekki ótvírætt? Það skal stöðva byggingarframkvæmdir skv. orðalaginu. Þessu mótmælum við Reykvíkingar. Og ég mótmæli því einnig hér fyrir hönd okkar Reykvíkinga að það sé ráðist á borgarstjóra Reykjavíkur, Davíð Oddsson, hér úr ræðustóli á Alþingi trekk í trekk af þeim mönnum sem eru að reyna að koma í veg fyrir að við Reykvíkingar getum byggt ráðhús sem löglega er til stofnað.

    Borgarstjóri Reykjavíkur, Davíð Oddsson, á ekki sæti á Alþingi. Það er ódrengilegt að ráðast að borgarstjóra með þeim hætti sem hér hefur verið gert. Við mótmælum þessu. Þetta er framferði sem á ekki við á hv. Alþingi.
    Eitt var það sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, sem kom auðvitað málinu ekki við, en menn hljóta þó að staldra við. Hann talaði um auð og völd. Ég segi fyrir mitt leyti. Hverjir hafa verið valdamestir á Íslandi síðustu tvo áratugi? Ég veit ekki betur en að flokkur Stefáns Valgeirssonar, Framsfl., hafi verið valdamesti flokkur á Íslandi síðan 1971. Og ég veit ekki betur en að eftir að hv. þm. þóttist hafa yfirgefið þann flokk, sem er náttúrlega ekkert annað en sýndarmennska, hafi hann tryggt þessum flokki áframhaldandi völd á Íslandi. Um hvaða valdamenn er hv. þm. að tala? Ég veit ekki betur en Framsfl. hafi komið sér þannig fyrir að völd hans eru afgerandi í stjórnsýslukerfi þjóðarinnar. Hans völd eru afgerandi í bönkum, í sjóðum og í opinberum stofnunum. Um hvaða valdamenn er hv. þm. að tala?
    Núverandi ríkisstjórn var mynduð til að styrkja þetta valdakerfi. Hún var mynduð til að styrkja, ja, þann auð sem er til ráðstöfunar í þessu valdakerfi hvernig sem það er útfært á hverjum tíma. Ég held að óbreyttir borgarar á Íslandi verði ekki sakaðir um að hafa of mikil völd eða að auður sé það mikill hjá hinum almenna manni að hv. þm. þurfi að gæla við það, þótt talað sé við þá um þáltill., að fara að tala um óskyld atriði eins og auð og völd. En þar sem þm. bauð upp á það fannst mér rétt að undirstrika það að völdin eru fyrst og fremst hjá Framsfl. og hv. þm. Stefáni Valgeirssyni.
    Ég skal, virðulegi forseti, ekki lengja þessa umræðu meira en orðið er en vil aðeins segja að lokum að hv. þm. Stefán Valgeirsson er kóróna þessa sköpunarverks. Valdakerfis Framsfl. á Íslandi.
    Að lokum, háttvirti forseti, held ég að ýmsir hv. þm. ættu að tala varlega um auð og völd því það getur hitt þá sjálfa, eins og ég hef undirstrikað hér. Við Reykvíkingar stöndum auðvitað að baki borgarstjórn Reykjavíkur í byggingu ráðhúss. Það ráðhús mun verða borginni og íslensku þjóðinni til sóma.