Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef ekki leyfi til þess að gera meira en örstutta athugasemd, og athugasemdin skal vera stutt.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. spurði að því hvernig stæði á því, ef ákveðið hefði verið árið 1967 að ráðhús skyldi koma við norðurenda Tjarnarinnar, að borgarstjóri hefði svo þurft á þessu ári að skrifa til skipulagsyfirvalda til þess að fá leyfi til þess að staðsetja húsið? Þetta liggur í augum uppi. Aðalskipulagið var samþykkt 1967 en borgarstjóri þarf að sjálfsögðu að fara lögformlegar leiðir við framkvæmd málsins.
    Hv. 6. þm. Norðurl. e. hefur talað um áhuga sinn fyrir þessu máli og ég vil ekki gera lítið úr honum. En það er rétt að það komi hér fram að meðan síðasta þing sat hófust framkvæmdir í ráðhúsmálinu. Hv. 6. þm. Norðurl. e. gerði þá ekkert í málinu. Hann færði þetta mál aldrei í tal við þáv. forseta þingsins svo mikilvægt sem honum finnst nú að þetta mál hafi verið.
    Hv. 2. þm. Vestf. talaði hér áðan. Hann nýtur þess að ég hef ekki leyfi til þess að svara honum í þessum umræðum. Svo sannarlega hefði ég viljað hafa tækifæri til þess að tala við hann út af þeim dæmalausu missögnum og misskilningi sem fram komu í hans máli.