Bygging ráðhúss í Reykjavíkurtjörn
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Ég verð að byrja á því að biðja hv. 5. þm. Vestf. afsökunar því að, eins og hér hefur komið fram, átti hann ekki skammirnar skilið heldur hv. 4. þm. Vestf., sem þegar hefur tekið þær til sín. Og auðvitað er það ekki gott þegar mönnum verður á hvað þetta snertir.
    Ég vil undirstrika að í minni ræðu fullyrti ég ekkert um það hvort borgarstjórn Reykjavíkur hefði farið að lögum. Ég lít svo á að það sé um þrískiptingu valdsins að ræða. Mér vitanlega hefur sá hluti valdsins, sem á að dæma um hvenær er farið að lögum og hvenær ekki, ekki kveðið upp neinn dóm. Framkvæmdarvaldið hefur úrskurðað og það er allt annað mál heldur en að dómstólar hafi kveðið upp dóm yfir einu eða öðru. Hins vegar gat ég þess í mínu máli, og vona að það skiljist án þess að menn túlki það sem einhvern dómsúrskurð, að þegar ég fór að skoða þessa þáltill. staldraði ég við það að gömul lög gilda jafnt sem ung og óneitanlega var það sérstæður dómur hjá Hæstarétti þegar hann úrskurðar engum eignarréttinn að botni Mývatns. Og það er nú grunur minn að því hafi forsetar hikað við að svara bréfinu að þeir hafi áttað sig á því að ekkert lá ljóst fyrir hver væri eigandi að Tjarnarbotninum. Hæstaréttardómurinn er um allt annan stað í allt öðru sveitarfélagi en engu að síður um vatnsbotn þar sem menn sóttu sinn rétt, m.a. út á netalagnir og að þeir væru eigendur lands í kringum vatnið, og trúðu því að þar með ættu þeir botninn en svo reyndist ekki samkvæmt dómi Hæstaréttar. Ég tel þess vegna að það sem ég sagði um að forsetarnir hefðu raunverulega látið hjá líða að gæta réttar Alþingis í þessu máli sé hlutur sem stendur eftir.
    Mér þykir rétt, hæstv. forseti ( Gripið fram í: Virðulegur forseti, ekki herra.) --- nú versnar mjög í því, því að hv. 14. þm. Reykv. hefur enn ruglast í ríminu. Hann telur að sér beri að leiðbeina mönnum í ræðustól eins og hann sé sjálfur orðinn forseti. En meðan það stendur sem mér var kennt í æsku, að menn skiptust í konur og karla og meðan það liggur ljóst fyrir að konur teljast til manna og engin breyting hefur verið útgefin um slíkt þá mun ég halda mér við það að segja hér ,,herra forseti``.
    Ég ætlaði hér aftur á móti að víkja að ummælum hv. 14. þm. Reykv. þegar hann gaf út hina sögulegu yfirlýsingu hér rétt áðan um völd Framsfl. í tvo áratugi. Ég neita því ekki að Framsfl. hefur haft veruleg völd seinustu tvo áratugi og þó við förum lengra aftur í tímann, en mig undraði það að á einu bretti skyldi ríkisstjórn formanns Sjálfstfl., fyrrv. borgarstjóra Reykjavíkur og þingmanns Reykvíkinga, hv. núv. seðlabankastjóra Geirs Hallgrímssonar, fá þann dóm að það hefði ekki verið forsrh. sem stjórnaði á því tímabili heldur framsóknarmenn. Og mig undraði það að varaformaður Sjálfstfl., fyrrv. borgarstjóri Reykjavíkurborgar, hefði einnig fengið þann dóm sem forsrh. að þá hefðu framsóknarmenn öllu ráðið. Sami maður lætur sér sæma að húðskamma þingheim fyrir að tala illa um núv. borgarstjóra

Reykjavíkurborgar en tekur sjálfur tvo fyrir í einu skoti og afvopnar þá. Svona lagað gengur náttúrlega ekki og menn þurfa að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að gera. Mig skal ekki undra ef sjálfstæðismenn ætla að slátra svona til heimabrúks sínum fyrrv. forustumönnum að fækki í liðinu, en tekið skal fram að það er rétt að framsóknarmenn má finna í öllum flokkum.