Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég get út af fyrir sig verið sammála hv. síðasta ræðumanni um eitt atriði í öllu falli, þ.e. að almenn utanríkismálaumræða gæti naumast, held ég, farið fram undir þeim lið sem hér er á dagskrá nú, enda ef slíkt ætti að vera þyrftu auðvitað að vera mættir hér einhverjir ráðherrar, a.m.k. hæstv. utanrrh. og forsrh. Ég býst ekki við að menn ætlist til þess að hér verði almenn umræða, hvorki um utanríkismál almennt né þó sérstaklega varnar- og öryggismálin og ég ætla ekki að stofna til þeirrar umræðu.
    Hv. 1. flm. hefur tjáð mér að honum hafi láðst að óska eftir að tillagan yrði send til hv. utanrmn. en mun gera það eða ég fyrir hans hönd nú, enda sjálfsagt að málið fái þinglega meðferð þó að þetta sé talsvert sérstakt mál. En þess er skylt að geta að hv. 1. flm. kom algjörlega hreint til dyranna með sínar sérskoðanir, þó að þær hafi um alllangt skeið verið uppi, um gjaldtöku fyrir það að láta verja okkur. Hann tók það rækilega fram að hann væri ekki að flytja skoðanir síns flokks, Borgfl., heldur sínar prívatskoðanir. Að sjálfsögðu hefur hann fullan rétt til að hafa þær og flytja þær yfir okkur hér í þingsölunum úr því að hann er nú hv. þm. um þessar mundir og ég er ekki að biðja hann endilega að stytta sitt mál ef hann vill segja okkur meira. Ég get hins vegar varla ímyndað mér að þingheimur sé mjög inni á því að þetta tilefni verði notað til almennra umræðna um utanríkismál og varnarmál. Þess vegna ætla ég ekki að hafa mín orð fleiri. Ég á sæti í þeirri nefnd sem væntanlega fær málið til umfjöllunar og auðvitað hlýtur það að fá þinglega meðferð.