Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég hélt að hv. 2. þm. Norðurl. e. ætlaði aldrei að stoppa. Ég greindi ekki mikið í hans máli um það mál sem hér á að vera til umræðu, um endurskoðun varnarsamningsins, sem ég taldi þó vera ástæðuna fyrir því að hann steig hér upp í pontu. Ég fékk ekki það fram í hans máli hver afstaða þingflokks Sjálfstfl. er til þessarar tillögu og harma ég það mjög.
    Ég er meðflm. að þessari till. til þál. um endurskoðun á varnarsamningnum. Ég er ekki sammála 1. flm. þessarar tillögu að því leyti til hvernig hann rökstuddi sitt mál. Ég er hins vegar á þeirri skoðun að brýna nauðsyn beri til að athuga þennan samning, sem er orðinn 37 ára gamall og hefur aðeins verið endurskoðaður lítillega og frekar til málamynda, og þá framkvæmd sem hefur verið á þeim samningi hingað til.
    Því hefur margoft verið haldið fram að regluleg endurskoðun sé nauðsynleg vegna örrar þróunar í alþjóða- og viðskiptavenjum þjóða á milli, þessi samningur hafi verið einn hinna fyrstu stærri milliríkjasamninga á lýðveldistímanum og þá hafi okkur skort reynslu og þekkingu auk þess sem íslenskt atvinnulíf hafi á margan hátt verið vanþróað á þeim tíma. Það má minna á það að þá voru engin verktakafyrirtæki til staðar hér á landi.
    En að hverju ætti þessi endurskoðun að beinast? Í mínum huga ætti hún að beinast að tiltölulega frjálsri verktakastarfsemi, hugvit og hönnun mannvirkja yrði í höndum Íslendinga, sölu á rekstrar- og framleiðsluvörum og íslensku vinnuafli. Það má minna á að aðgerðir hv. þm. Alberts Guðmundssonar á sínum tíma í svokölluðu kjötmáli voru undanfari þess að varnarliðið samdi um kaup á kjöti af okkur Íslendingum. Ég held að þessi eina aðgerð sem hann stóð fyrir sýni það að við getum komið ýmsum endurbótum á í þessum samningi.
    Á það má minna að í viðbæti nr. 8 í varnarsamningnum stendur að ekki skuli leggja á tolla og skatta, en samt sem áður segir í 6. tölul. þessarar sömu greinar að menn úr varnarliði Bandaríkjanna skuli greiða tolla og önnur gjöld samkvæmt íslenskum lögum af öðrum innflutningi en talinn er upp í 3.--5. tölul. í sömu grein, þar með taldar vörur í gegnum pósthús Bandaríkjamanna. Þessu hefur aldrei verið framfylgt, bæði vegna undirlægjuháttar íslenskra stjórnvalda og þess að ekkert eftirlit er með starfrækslu pósthúss þeirra og spurning er hvort starfræksla þess sé í trássi við varnarsamninginn.
    Enn fremur segir hvergi í varnarsamningnum að íslenskir skattborgarar eigi að niðurgreiða íslenskar framleiðsluvörur, svo sem mjólk, kjöt, fisk og brauð, ofan í varnarliðsmenn og skyldulið þeirra. Þetta hefur þó verið gert um margra ára skeið. Er það ekki eðlilegt að greiddir séu tollar og skattar af innflutningi varnarliðsins? Ég mundi vilja að þetta yrði athugað sérstaklega í þeirri endurskoðun sem fram mundi fara ef þessi þáltill. yrði samþykkt.
    Síðan vil ég spyrja: Er ekki í hæsta máta óeðlilegt

og ekki í samræmi við samninginn að Íslendingar sem starfa hjá varnarliðinu gangist undir sérstakt ökupróf þar? Þetta hefur þó viðgengist átölulaust lengi og með blessun íslenskra lögregluyfirvalda á Keflavíkurflugvelli. Við getum einnig tekið að okkur fleiri störf á vegum varnarliðsins. Það má benda á að þar eru engir íslenskir veðurfræðingar. Síðan mætti koma því inn að ýmis tæknileg störf yrðu unnin á vegum Íslendinga.
    Það er líka eitt í þessum málum sem ég tel nokkra ástæðu til að hafa áhyggjur af. Er ekki í hæsta máta óeðlilegt að íslensk yfirvöld viti harla lítið og ekki neitt um þá starfsemi sem fram fer innan varnarliðssvæðisins? Og að sömu menn hafa setið í varnarmálanefnd um áratugaskeið af okkar hálfu? Spurningin er: Höfum við ekki sofið á verðinum frá upphafi og er ekki full ástæða til þess að taka þetta mál föstum tökum strax og byrja að brjóta niður vegginn og koma á nútímafyrirkomulagi varðandi þennan samning?
    Af nógu er að taka þegar þessi málaflokkur er hugleiddur. Alþingi á að hafa frumkvæði að því að taka á þessum málaflokki með nýjum hætti, ekki síst í ljósi þeirrar staðreyndar að svæðið á Keflavíkurflugvelli er orðið að dvergríki.