Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Hæstv. forseti. Hv. þingheimur. Ég mæli fyrir till. um að hætta við fyrirhugaðar framkvæmdir við nýtt alþingishús fyrir Íslendinga sem hefur verið teiknað og teikningar hafa legið frammi og verið birtar opinberlega í fjölmiðlum.
    Ég rökstyð það á þann hátt aðallega að ég tel húsið mjög illa í sveit sett þar sem því er valinn staður við Austurvöll í Reykjavík. Húsið verði eitt af þeim skipulagsslysum sem við verðum að reyna að komast hjá og er ekki á þann hóp bætandi. Því miðborgin hér morar af slysum í skipulagi. Þarf í rauninni ekki að fjölyrða meira um það, hver og einn þekkir dæmi um slys af þessu tagi, en þó vil ég ekki láta hjá líða að nefna Morgunblaðshúsið, Seðlabankann og viðbyggingar við Landsbankahúsið og Útvegsbankahúsið. Nýja ráðhúsið er slys af þessum sama toga og um það bil að verða of seint að koma í veg fyrir að sá skaði verði allur.
    Í staðinn fyrir það hús sem er á teikniborðinu legg ég til að reist verði hús sem er að ytra útliti nákvæmlega eins og þinghúsið gamla virðulega með danska konungsskjöldinn sem við erum í nú og því húsi verði valinn staður á lóðinni handan við Alþingisgarðinn þar sem núna eru bílastæði þingmanna á gömlu góðtemplaralóðinni. Þetta nýja hús leysir margan vanda. Útlit þess kemur til móts við sjónarmið margra sem óttast nýja húsið við Austurvöll hvað útlit, stærð og umfang varðar og eins geri ég ráð fyrir að það geti hýst alla þá starfsemi Alþingis sem núna er á hrakhólum. Ef svo er ekki þá eru fleiri hús í grenndinni, eins og hús Oddfellowa, en ég hef heyrt því fleygt í þeirra röðum að þeir hafi fullan hug á að byggja annars staðar í borginni.
    Í annan stað er fjármálum þessarar þjóðar svo komið að hið opinbera á ekki að beita sér fyrir húsbyggingum. Það væri nær að hið opinbera hjálpaði því fólki sem er um það bil að missa húsin sín á uppboðum og öðrum nauðungarsölum. A.m.k. verður það ekki til þess að efla virðingu og traust borgaranna á Alþingi, ríkisstjórn og stjórnmálastarfi í landinu þegar hús af þessari stærð og þessu tagi eru reist á sama tíma og fólkið tapar sínum eignum.
    Ég vil stytta mitt mál svo sem hægt er vegna þess hve naumur tími er hér skammtaður til umræðu og vil að lokum benda á annan lið í þessari till. sem gerir ráð fyrir því að ríkisstjórnin í umboði Alþingis geri tilboð í ráðhúsgrunninn og forði Reykvíkingum og höfuðborg allra landsmanna þar með frá því ráðhúsi sem þar á að rísa. Því grunninn sjálfan má nota sem bílastæði án þess að hann þurfi nokkurn tímann að rísa upp fyrir yfirborð Tjarnarinnar.
    Ég hef áður tekið til máls um ráðhúsið hér á þessum stað. Það hafa verið umræður hér í allan dag og ég ítreka eingöngu andstöðu mína og ég hafna því að aðrir þingmenn Reykjavíkur tali fyrir mína hönd þegar þeir segja að Reykvíkingar allir séu á einu máli um að reisa þetta hús og að hvert það tal sem lýtur í aðra átt sé gegn vilja og hagsmunum Reykvíkinga. Ég vil fyrir mína parta ekki sjá þetta hús rísa af því

að ég vil láta það rísa einhvers staðar annars staðar þegar og ef þess gerist þörf. En ég hef hins vegar verið að velta því fyrir mér að kannski gæti þetta verið innlegg í kosningabaráttuna fyrir næstu borgarstjórnarkosningar. Að þetta hús rísi af grunni sem minnismerki um þá borgarstjórn sem nú situr við völd og sem ábending til kjósenda um hverja á ekki að kjósa aftur. En við látum þær umræður bíða annars og betri tíma.
    Til þess að nota megi grunn ráðhússins undir bílastæði hef ég bent á að færa megi alla starfsemi Reykjavíkurborgar í suðurhlíð Öskjuhlíðar. Þar er klettabelti sem frekar erfitt er yfirferðar og þar eru líka gamlir húsgrunnar frá stríðsárunum og því verður þar aldrei útivistarsvæði. Þar mætti vel koma fyrir allri starfsemi Reykjavíkurborgar og ekki aðeins þeim fáu liðum sem eiga að vera í ráðhúsinu nýja. Hápunkturinn á þeirri starfsemi yrði síðan nýja húsið á geymunum sem enginn maður hefur enn þá séð sérstakan tilgang í. Þetta gæti réttlætt þau útlát að einhverju leyti ef það hús tengdist borgarstjórninni og starfi hennar, hugsanlega sem fundarstaður og ráðhús þar sem embættismenn og borgarstjórnarfulltrúar mundu snúast um einn ákveðinn punkt: borgarstjórann.
    Þessi tillaga mín verður ekki rökstudd hér nánar, enda liggja öll þessi rök fyrir í grg. og því öllum aðgengileg sem vilja tjá sig um þetta mál. En ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að mæla fyrir þessari till. hér í hæstv. Alþingi og legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til síðari umr. og hv. allshn.