Nýtt hús fyrir Alþingi Íslendinga
Mánudaginn 07. nóvember 1988

     Flm. (Ásgeir Hannes Eiríksson):
    Hæstv. forseti. Ég vil að endingu kasta kveðju á þingheim þegar þessu máli verður síðan vísað áfram inn í kerfið. Ég hef því miður ekki frekari tök á að fylgjast með því, en ég veit að það verður í góðum höndum.
    Það er ljóst að það er ekki samstaða lengur um þær aðgerðir sem voru ákveðnar hér á Alþingi árið 1981 í minningu 100 ára afmælis Alþingishússins. Bæði hafa viðhorf breyst og annað fólk tekið sæti á þingi. Jafnframt hefur nýja ráðhúsið eða hugmyndin og framkvæmdirnar við nýtt ráðhús gjörbreytt svo allri mynd hér á þessu svæði að mörgum Reykvíkingnum mun þykja nóg komið þegar og ef það hús nær að rísa. Þannig að hæstv. Alþingi er að setja sig á móti og er að fá andstöðu frá stórum hluta Reykvíkinga ef haldið er áfram með þetta hús, og það að óþörfu. Ég lagði ekki til að nýja húsið yrði byggt strax, heldur kæmi húsið, sem ég sting upp á á góðtemplaralóðinni, í staðinn fyrir húsið á teikniborðinu þegar það á að rísa samkvæmt dagskrá. Ég vil ekki rjúka upp til handa og fóta og byggja þetta hús í dag. Málum er því miður þannig háttað í miðborg Reykjavíkur að það er nóg af leiguhúsnæði laust. Því miður. Því það er eitt af tímanna táknum að húsnæði stendur autt, stórar húseignir í miðborginni standa auðar, það fást ekki leigjendur vegna þess að þungamiðja viðskiptanna er að flytjast í annan bæjarhluta. Og er það í rauninni hörmuleg saga að gamli miðbærinn sé að grotna niður, hann sé að veslast upp sem sá miðbær sem hann þarf og verður að vera.
    Þetta mál snertir líka Alþingi vegna þess að ríkið er örugglega stærsti húseigandinn í Reykjavík og Alþingi fer fyrir hönd ríkisins með æðsta umboð yfir þeim húseignum sem ríkið á, þannig að í Húsfélagi Reykjavíkur er Alþingi stærsti eigandinn og því eru byggingar á næsta leiti við eignir ríkisins alls ekki óviðkomandi Alþingi. Á sama hátt er það mikið hagsmunamál fyrir Alþingi að heilu bæjarhverfin hrynji ekki niður í verði þar sem eru hlutfallslega langflestar, dýrastar og stærstar eignir ríkisins. Eignir á borð við sjálft Alþingishúsið, Dómkirkjuna, bankahúsin öll, Hæstarétt, Þjóðleikhúsið, söfnin og fleiri góð hús.
    Þess vegna vil ég svona í framhjáhlaupi minna á þá skyldu Alþingis að taka saman höndum við aðra húseigendur á svæðinu. Hvort sem það er borgin sjálf eða einstaklingar sem eiga hér ýmsan rekstur eða búa á svæðinu. Til þess að sporna við þeirri þróun að gamli miðbærinn hverfi, að gamli miðbærinn verði undir, því það er hættuleg þróun. Ég veit að þingheimur er ekki þess fýsandi að gamli miðbærinn glati sínu stóra hlutverki sem hjarta borgarinnar. Borgin er jú höfuðborg allra landsmanna þannig að það má segja að gamli miðbærinn sé hjarta alls landsins, enda er hann reistur á sjálfri landnámsjörð Ingólfs Arnarsonar sem eykur gildi hans fyrir þjóðina.
    Það eru miklu fleiri fornminjar og þjóðminjar hér í gamla miðbænum en á nokkrum öðrum stað á landinu. Núna síðast var verið að grafa upp mjög

merkilegar minjar í Viðey. Bærinn hér allur í kringum okkur er þakinn slíkum gömlum minjum, miklu fleiri en á Þingvöllum. Þess vegna er það verkefni Alþingis og mig langar að koma því á framfæri við þá fáu hv. alþingismenn sem þó heiðra mig og málflutning minn með nærveru sinni að þetta er brýnt verkefni og bíður þingsins.
    Þó að ég hafi hér haft hratt á hæli og eigi ekki von á því að koma nokkurn tímann hér inn aftur, sé varaskeifa og hafi aðeins verið hér í nokkra daga, þá má endalaust deila um það hversu stutt menn eiga að sitja og hversu lengi menn mega sitja á þingi. Það eru báðir endarnir. Best er þó meðalhófið og glöggt er gests augað. En ég ítreka þakklæti mitt fyrir að hafa fengið tækifæri til að fylgja þessu máli úr hlaði.