Framleiðsla og sala á búvörum
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli hv. flm. var frv. þetta flutt á síðasta þingi og var rætt allítarlega, bæði hér í deildinni svo og í landbn. Þetta frv. gefur e.t.v. tilefni til þess að ræða hið flókna og þunglamalega sölukerfi sem bændur búa við, en ég hirði ekki um það hér og nú. Það er enn þá langt í land með að álíka jafnvægi náist í framleiðslu sauðfjárafurða og náðst hefur í mjólkurframleiðslunni. Staða sauðfjárbænda er slæm og því tel ég efni þessa frv., þ.e. staðgreiðslu afurðanna, vera eitt skref í þá átt að bæta stöðu þeirra.
    Í fyrra átti ég sæti í landbn. þessarar hv. deildar og ritaði undir álit hennar með fyrirvara. Sá fyrirvari minn byggðist á því að tryggt yrði með einhverjum hætti að afurðastöðvum yrði gert kleift að standa við slíkar skuldbindingar. Í raun fékkst viðurkenning síðustu ríkisstjórnar á nauðsyn þessa frv. með því að þáv. hæstv. forsrh. bar fram tillögu um að málið yrði leyst innan ríkisstjórnarinnar. Þar eð sú hæstv. ríkisstjórn sem nú situr er að meginstofni sú sama og í fyrra leyfi ég mér að vona að þetta mál geti náð fram að ganga.