Stofnlánadeild landbúnaðarins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Það er ástæða til að þakka hv. flm. áhuga hans og elju við að sinna málefnum landbúnaðarins. Ég hef ekki haft tök á að kynna mér efni þessa frv. ítarlega. Það mun hafa dagað hér uppi í hv. Ed. á síðasta þingi og ekki komið til okkar þingmanna Nd. ef ég man rétt, þannig að það kom ekki sérstaklega til okkar kasta að taka afstöðu til þess. En ég get nú ekki haft uppi sömu hrósyrði um grg. frv. og hv. flm. og frsm. gerði. Ég hefði gjarnan kosið að í þeirri grg. væru ítarlegri upplýsingar um áhrif þessara breytinga. Þar er að vísu að finna margar ágætar upplýsingar og magntölur úr útlánum og veltu Stofnlánadeildar og tekjur uppreiknaðar til verðlags ársins 1986. En mér sýnast ekki vera á ferðinni raunmiklir útreikningar á breytingum sem myndu leiða af samþykkt frv.
    Ég vil lýsa því sem minni skoðun að ég tel að mikil nauðsyn sé á að fara varlega gagnvart því að gera nokkuð það sem kynni að veikja um of stöðu Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það er lítill vafi á því að lágir vextir og hagstæð greiðslukjör útlána þeirrar stofnunar hafa verið mikil hjálp þeim bændum sem erfiðasta hafa stöðuna, þ.e. gjarnan yngri bændur og skuldugri bændur. Það má því segja að ákveðnir tekjustofnar til handa Stofnlánadeild, sem síðan styrkja stöðu hennar og gera henni kleift að bjóða hagstæðari útlánakjör en ella, komi til vissrar tekjujöfnunar innan bændastéttarinnar.
    Það er einnig rétt að hafa í huga að færðar hafa verið auknar byrðar yfir á herðar Stofnlánadeildar landbúnaðarins undanfarin ár. Ég er hér til að mynda að tala um forfalla- og afleysingaþjónustu landbúnaðarins sem ríkissjóður kostaði áður, og gert var ráð fyrir á sínum tíma að greidd yrði af ríkissjóði, en hefur nú verið færð yfir á Stofnlánadeild sem gert er að fjármagna hana af sínum rekstrartekjum.
    Einnig hefur í vaxandi mæli verið sótt á um skuldbreytingar og lengingu lána og fróðlegar upplýsingar eru í greinargerðinni um vaxandi vanskil á iðgjöldum til deildarinnar í árslok á hverju ári frá 1980. Þau hafa, sem hlutfall af árgjöldum, aukist úr 36,8% í 60% og það segir sína sögu um erfiðleika sem skuldugri bændur hafa átt við að glíma.
    Skuldbreytingar, lenging lána og hagstæð lánakjör, miðað við það sem gerist á hinum almenna lánamarkaði, hafa án nokkurs vafa forðað fjölda bænda frá því að þurfa að hætta búskap.
    Ég held að líka sé rétt að hafa í huga þegar talað er um varasjóð Stofnlánadeildar eða góða reikningslega stöðu sjóðsins að veð Stofnlánadeildarinnar eru með næsta sérkennilegum hætti. Þau eru í raun ekki sambærileg við veð margra annarra fjárfestingarlánasjóða sem eru afsetjanlegri í miklu meira mæli heldur en þær sérhæfðu eignir og þau sérhæfðu rekstrartæki sem Stofnlánadeild landbúnaðarins tekur veð í og eru í mörgum tilfellum ekki í raun afsetjanleg sem verðmæti nema þá til aðila sem haldi sambærilegum rekstri áfram á sama stað, en

fyrir því eru ekki alltaf forsendur eins og kunnugt er. Þess vegna geta veð í mörgum tilvikum verið ótraust eða a.m.k. er rétt að hafa í huga eðli þeirra í þessu sambandi.
    Í þessu tilviki eins og öðrum treysti ég auðvitað hinni ágætu hv. landbn. Ed. til að fara ofan í þetta mál. Ég held að það væri mjög fróðlegt og gagnlegt að fengnar yrðu ítarlegar upplýsingar frá Stofnlánadeild landbúnaðarins um stöðu hennar, svo og mat á því hversu þung greiðslubyrði bænda er og hvernig veð hennar standa. Ég minni á að í fyrirgreiðslu sinni til nýbúgreina eins og loðdýraræktar hefur Stofnlánadeildin rýmkað heimildir til útlána, hækkað veðmörk gagngert til þess að reyna að koma þeirri atvinnugrein til aðstoðar í hennar erfiðleikum. Og ég held að það liggi í hlutarins eðli að þar er tekin viss áhætta sem rétt er að muna eftir í þessu sambandi. Ég hvet eindregið til þess að farið verði varlega og málin skoðuð en ekki bara hlaupið til þess að gefa eftir þá tekjustofna sem Stofnlánadeildin hefur búið við vegna þess að hún kynni að þola það í augnablikinu. Vissulega væri það til hagsbóta fyrir framleiðendurna að framleiðslugjöldin yrðu lögð af og ekki nema eðlilegt að skoða hvað hægt er að gera í þeim efnum, en þá þarf a.m.k. að gæta þess að ganga ekki of langt.