Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Það frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem hér liggur fyrir er ágætt út af fyrir sig. Sú ágæta hugsun að halda fé í kjördæmum er góðra gjalda verð og ekki óréttmæt. Sú stefna er og í samræmi við stefnu Borgfl. Hins vegar er verið að binda fólk átthagafjötrum með því að koma í veg fyrir að það geti flutt á milli kjördæma og án þess að fá lán úr þeim sjóði sem það hefur þegar lagt í. Ég tel að sú stefna sé röng. Fólk verður að eiga rétt á lánum með sama hætti hvar sem það vill byggja eða búa og hlýtur það að vera grundvallarregla.
    Þingmenn Borgfl. lögðu fram heilstætt lagafrv. um Húsnæðisstofnun ríkisins og húsbanka á síðasta þingi sem verður væntanlega endurflutt nú í vetur á Alþingi. Þær tillögur og þau lög eru miklu betur fallin til jöfnuðar og að vera réttlát gagnvart fólkinu í landinu. Og ég tel að sú lagasetning muni geta valdið grundvallarbreytingu. En eins og ég sagði í byrjun, þá er sú hugsun að halda fé í kjördæmum náttúrlega alveg réttmæt og við í Borgfl. höfum einmitt skoðað þessi mál. Þá get ég tekið undir það að fé úr lífeyrissjóði skuli lagt inn í innlánsstofnanir í hverju kjördæmi eða byggðarlagi. Það er mjög réttmæt tillaga og ég vil taka undir hana. Að öðru leyti held ég að þær tillögur sem við höfum lagt hér fram um Húsnæðisstofnun ríkisins og húsbanka eigi miklu betur við fyrir heildina.