Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég vil sérstaklega undirstrika þessa athugasemd mína hér áðan vegna þess að ég hef í höndum upplýsingar um að allmörg svæði á landinu mundu falla út í lánveitingum vegna þess að þau fá meira fé úr lánasjóði á viðkomandi ári heldur en viðkomandi lífeyrissjóðir leggja til, miðað við þann rétt sem því fylgir skv. lögum. Það þarf að skoða þetta mál vandlega þannig að ekki verði lagðar hömlur á framþróun í vissum byggðarlögum með frv. Ég vil undirstrika þetta sérstaklega.
    En það sem kom mér til að koma hér upp var að mér fannst gæta talsverðs misskilnings í ummælum hv. 2. þm. Norðurl. v., þar sem hann sagði að húsnæðiskerfið væri sprungið. Það nefnilega sprakk ekki og hefur ekki sprungið. Og ég vil bara minna á það í þessu sambandi, vegna þess að hv. þm. var að finna að því að það hefði verið of mikil uppsveifla í skyndingu í þessum málum, að þetta nýja kerfi var tekið upp 1986 og það var gert samkvæmt ósk og kröfu launþegasamtakanna í landinu, og ekki aðeins launþegasamtakanna heldur einnig aðila vinnumarkaðarins í heild. Þetta þýddi að þeir leystu málið á þann hátt að þeir lögðu húsnæðiskerfinu til milljarða kr. á hverju ári sem ekki voru áður falar, þ.e. 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóða landsins. Þetta hefur m.a. þær afleiðingar að á næsta ári er gert ráð fyrir að rúmir 9 milljarðar komi inn í húsnæðiskerfið frá lífeyrissjóðum landsins. Þetta er ekkert smámál og hefur orðið til þess að þúsundir og aftur þúsundir hafa getað byggt með þessum háu lánum og góðu lánakjörum sem fylgja húsnæðislánakerfinu.
    Ég er ekki að tala um að ekki geti verið gallar á þessu kerfi, enda kom það fram strax í upphafi að við töldum að það væri með innbyggða galla. En menn vildu sjá til, gefa því ákveðinn aðlögunartíma og í dag er biðtíminn kominn niður í 22 mánuði, þannig að það er ekki langur tími þegar um er að ræða allt að 60--70% af því lánahlutfalli sem um er að ræða. Eftir því sem mér er sagt nú síðustu daga, þá er þetta mjög að jafna sig og það er jafnvel talið að strax á næsta ári styttist lánstíminn meira en þarna er áætlað. Afföllin eru að vísu hækkandi, þau eru frá 25--30% af umsóknum.
    Ég held því að það sé of mikið upp í sig tekið að segja að þetta kerfi sé ónýtt. Það hefur skilað mörgum fram á veginn í þessum málum og fjármagnið er til staðar. En ég tek undir það að auðvitað er með þetta eins og annað að sjálfsagður hlutur er að lagfæra það og aldrei skyldi ég taka mér það í munn að ég mundi ekki fylgja því að festa fjármagn sem verður til í byggðarlögunum, að það festist í þeim innlánsstofnunum og sé nýtt í kjördæmunum eða á stöðunum þar sem það verður til. Það er svo sjálfsagt grundvallaratriði að allir ættu að geta verið sammála um það. En ég vil endurtaka að ég vek athygli á þeirri hættu sem gæti skapast við of strangan lagaramma, að ekki má koma í veg fyrir að þeir staðir sem fólk vill byggja á úti um land fái lán vegna harðra ákvæða í lögum um að þau séu í samræmi við

það sem safnast á viðkomandi stað eða er lagt inn. Þarna gæti orðið árekstur og þetta vil ég láta athuga í frv.