Lögverndun á starfsheiti fóstra
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Flm. (Finnur Ingólfsson):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum fóstra sem er á þskj. 56 og er 54. mál þingsins.
    Flm. ásamt mér eru hv. þm. Guðrún Helgadóttir, Ingi Björn Albertsson, Kristín Einarsdóttir og Jón Sæmundur Sigurjónsson.
    Frv. er flutt í samráði við stjórn Fóstrufélags Íslands. Það var einnig flutt á síðasta þingi en náði þá ekki fram að ganga. Hv. menntmn. Nd. sendi frv. til umsagnar. Flestar umsagnir sem bárust um það voru jákvæðar, nema umsögn embættismanna Reykjavíkurborgar. Það kemur mér hins vegar ekki á óvart og allra síst eftir að hafa lesið viðtal við fyrrv. borgarfulltrúa Kvennalistans, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, í 4. tölublaði Veru þar sem hún segir, með leyfi forseta, ,,að æðstu embættismenn borgarinnar séu tilbúnir til að tefla þá refskák sem flokkurinn [þ.e. Sjálfstfl.] þarf á að halda.`` Segist hún þá vera að tala um pöntuð bréf, alls konar pantaðar yfirlýsingar og sjónarmið sem meiri hlutanum henta.
    Hér er að segja frá fyrrv. borgarfulltrúi sem hefur verið í embætti í sex ár. Því skyldi maður ætla að frásögnin sé sannleikanum samkvæm. Og ef svo er sýnir þetta og margt annað, sem fram hefur komið í störfum Sjálfstfl. í borgarstjórn, okkur hversu hættulegt það er að láta einn flokk vera lengi við völd.
    Við lestur þessa viðtals við Ingibjörgu fær maður það á tilfinninguna að kerfið, og þeir múrar sem Sjálfstfl. er búinn að byggja upp í kringum sig í Reykjavík, sé mjög svipað og það kerfi sem Gorbatsjov er nú að leggja af í Sovétríkjunum. Það skyldi þó ekki vera svo að borgarstjórinn hafi pantað neikvæðar umsagnir frá borgarlögmanni og Dagvist barna í Reykjavík um þetta frv. því borgarstjórinn virðist vera í heilögu stríði við fóstrur frá því í kjaradeilunni sem hann átti í við þær árið 1986 þegar fóstrur sögðu upp störfum og borgarstjóranum tókst ekki með yfirgangi og bolabrögðum að berja stéttina til hlýðni.
    Tilgangurinn með þessu frv. er að tryggja að í framtíðinni verði starfandi á dagvistarheimilum starfsfólk sem hefur aflað sér sérfræðilegrar þekkingar á uppeldisstörfum fyrir börn. Foreldrar treysta dagvistarheimilunum að vissu marki fyrir barnauppeldinu. Uppeldisstörfin eru því í reynd falin fóstrum og því er mjög treyst á menntun þeirra. Ég lít svo á að dagvistarheimilin eigi að vera fjölskyldum og foreldrum til stuðnings og ættu því að vera sjálfsögð viðbót við foreldrauppeldið. Foreldrar verða því að geta treyst því að þar sé starfandi sérmenntað fólk, fólk sem hefur þekkingu á því hversu mikilvæg bernskan er barninu fyrir framtíðina. Með þessu er ég ekki að kasta rýrð á störf ófaglærðs fólks sem hefur í gegnum tíðina aflað sér mikillar reynslu við uppeldi. Það verður hins vegar að viðurkenna að hversu mikil sem sú reynsla er kemur hún aldrei í staðinn fyrir þá bóklegu þekkingu sem fóstrur afla sér í sínu námi.
    Vaxandi áhugi á forskólauppeldi og auknar kröfur

um dagvistarheimili eru fyrst og fremst nátengdar margháttaðri félagslegri þróun og breytingum sem hafa orðið á uppeldisskilyrðum barna og gæðum þeirra skilyrða. Það er því eðlilegt að foreldrar geri þær kröfur til dagvistarheimilanna að þar sé starfandi fólk sem hlotið hefur viðurkennda menntun.
    1. gr. þessa frv. til laga felur í sér lögverndun á starfsheiti fóstra sem starfa við uppeldisstörf á dagvistarheimilum og öðrum þeim stofnunum fyrir börn þar sem uppeldi fer fram utan heimilis. Tilgangurinn með lögverndun starfsheitisins er að stuðla að aukinni viðurkenningu á menntun og starfi fóstra. Jafnframt er verið að girða fyrir að aðrir en þeir sem hlotið hafa viðhlítandi menntun og starfa utan heimilis þar sem uppeldi fer fram geti notað þetta starfsheiti. Starfsheitið eiga bæði karlmenn og kvenmenn að geta notað. Í raun og veru er gert ráð fyrir því í lögunum um Fósturskóla Íslands að þann skóla geti bæði sótt karlmenn og kvenfólk. Fóstrufélag Íslands hefur leitað til Íslenskrar málnefndar og spurst fyrir um hvort það sé andstætt íslenskri málhefð að karlar geti borið starfsheitið fóstra. Nefndin hefur svarað því til að svo sé ekki. Fólk sem tekur börn í fóstur hefur eftir sem áður heimild til að kalla sig fóstru eða fóstra en auðvitað ekki rétt til að starfa sem slíkt á stofnunum fyrir börn þar sem uppeldi fer fram.
    Í 2. gr. frv. er fjallað um skilyrði fyrir því að fá leyfi til að nota starfsheitið fóstra. Öllum þeim sem lokið hafa námi við Fósturskóla Íslands skal veitt leyfi, einnig þeim sem lokið hafa sambærilegu námi erlendis, en áður en slíkt leyfi er veitt skal leita umsagnar um leyfisveitinguna hjá Fóstrufélagi Íslands og skólanefnd Fósturskólans.
    Í 4. gr. frv. er vitnað í lögin um byggingu og rekstur dagvistarheimila, nr. 40/1981, og í uppeldisáætlun fyrir dagvistarheimili frá 1985. Í þessum lögum og uppeldisáætluninni er fóstrum gert skylt að vinna eftir og bera ábyrgð á þeim settu uppeldismarkmiðum sem fram koma í uppeldisáætluninni. Þessa skyldu sína ber hverri fóstru að þekkja þegar henni er veitt starfsleyfið.
    Markmiðið með 6. gr. frv. er að stemma stigu við að aðrir en þeir sem hlotið hafa viðhlítandi menntun verði ráðnir til fóstrustarfa. Tilgangurinn er sá að bæta það uppeldislega starf sem fram fer á dagvistarheimilum og taka af öll tvímæli um að hægt sé að ráða í störf fóstra ófaglært fólk þó það hafi öðlast mikla reynslu af barnauppeldi innan heimilisins.
    Það kunna einhverjir að halda því fram að eftir að lögverndun á starfsheiti fóstra hefur verið veitt muni verða mjög erfitt fyrir minni sveitarfélög að ráða fóstrur til starfa. Fyrir þessu er séð. Það er gert ráð fyrir því í 16. gr. laganna um byggingu og rekstur dagvistarheimila að hægt sé að sækja um undanþáguheimildir til menntmrn. til að ráða ófaglært fólk í störf á dagvistarstofnunum. Það skuli þó ekki gert án undangenginna auglýsinga og starfsmaður sem ráðinn er skuli ekki geta borið starfsheitið fóstra. Þann starfsmann má heldur ekki endurráða án

undangenginna auglýsinga, og aldrei skal ráða þann starfsmann lengur en til eins árs í senn.
    Einhver kann að spyrja hvort ekki sé komið nóg af þessum múrum sem hinar ýmsu starfsstéttir hafi verið að byggja í kringum sig. Það kann vel að vera að svo sé. En þá hafa menn í upphafi stigið röng skref í þessa veru því það er ekkert réttlætismál að fóstrustarfið skuli vera eitt af sárafáum störfum í opinberri þjónustu sem ekki nýtur lögverndar á starfsheiti og starfsréttindum.
    Á undanförnum árum hafa ýmsar starfsstéttir í opinberri þjónustu fengið lögverndun á starfsheitum sínum og starfsréttindum. Kennarastarfið hlaut slíka lögverndun árið 1986. Störf kennara og fóstra eru um margt mjög skyld og gegna báðar starfsstéttirnar afar mikilvægu hlutverki í uppeldi barna og unglinga.
    Hæstv. forseti. Að aflokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til hv. menntmn.