Lögverndun á starfsheiti fóstra
Þriðjudaginn 08. nóvember 1988

     Flm. (Finnur Ingólfsson):
    Herra forseti. Aðeins örfá orð til að svara hv. 2. þm. Reykv. Varðandi það hvort ég sé á réttum stað á þingi nú eða hvort ég ætti að sitja í borgarstjórn, þá vil ég segja hv. þm. að það er ekki borgarstjórn Reykjavíkur sem setur lög í landinu. Það er Alþingi. Því þarf lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum fóstra að fara í gegnum Alþingi en ekki í gegnum borgarstjórn Reykjavíkur.
    Vegna orða minna hér áðan þar sem ég vitnaði í ritið Veru og viðtalið þar við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Þar var orðrétt haft eftir henni í þessu viðtali og þau orð notaði ég í framsögu minni og spurði hvort það gæti verið að andstaða borgarstjórans í Reykjavík eða umsagnar Dagvistunar barna í Reykjavík og borgarlögmanns gæti stafað af því að óskað hefði verið eftir einhverjum sérstökum umsögnum frá þessum embættismönnum um þetta lagafrv. vegna þess að það kemur svo skýrt fram í þessu viðtali við Ingibjörgu Sólrúnu að þannig starfi borgarstjórnin og borgarstjórinn í Reykjavík. Ég ætla ekki að leggja dóm á það, enda þekki ég ekki þar til. Ég var hins vegar að nota þessi orð hennar sem tilvitnun í þessu sambandi. Um leið leiðrétti ég hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson. Í þessu blaði, Veru, koma ekki fram neinar umsagnir borgarlögmanns um fóstrufrv., síður en svo. Það eru umsagnir sem bárust hv. menntmn. á síðasta þingi og voru allar jákvæðar, og það geta hv. þm. kynnt sér í gögnum þingsins, frá öllum aðilum nema embættismönnum Reykjavíkurborgar og þess vegna spurði ég þessarar spurningar áðan.