Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvað líði undirbúningi að frv. til laga um iðnráðgjafa. Því er til að svara að á síðustu dögum ráðuneytis Þorsteins Pálssonar eða 13. september sl. skipaði þáv. iðnrh. nefnd til að fjalla um málið og áttu sæti í henni þrír þingmenn undir forustu hv. 1. þm. Austurl. Kristins Péturssonar. Afskipti mín af málinu eftir að ég tók við embætti iðnrh. hafa í fyrsta lagi verið þau að ég óskaði eftir framlagi til starfsemi iðnráðgjafa í fjárlagafrv. og er það framlag í samræmi við starfsemina á yfirstandandi ári, en þessari starfsemi hefur verið haldið áfram án löggjafar eftir að lögin um iðnráðgjafa nr. 86/1981 féllu niður með sólarlagsákvæði í árslok 1985 eins og fyrirspyrjandi nefndi. Hefur því á hverju ári verið farið eftir heimildum fjárlaga. En frv. sem flutt var til laga um iðnráðgjafa haustið 1986 náði ekki fram að ganga í þinginu.
    Í öðru lagi hef ég ákveðið að taka frumkvæði að breytingum á þessari ráðgjöf sem veitt hefur verið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga og hefur verið takmörkuð við iðnað og iðnráðgjöf.
    Ég tel að hún muni nýtast betur verði hún almennari og hef því lagt til í ríkisstjórninni að ráðgjöfin verði útvíkkuð þannig að hún nái ekki einungis til iðnaðar heldur til annarra atvinnugreina, t.d. ferðaþjónustu og fiskeldis, og að hún nái til almennrar sérfræðiaðstoðar við stofnun og rekstur fyrirtækja, enda hefur starf iðnráðgjafanna þróast í þessa átt þar sem það hefur tekist best. Ég tel að slíka ráðgjöf mætti ýmist fela fastráðnum atvinnumálaráðgjöfum í viðkomandi landshluta eða sérhæfðum ráðgjafarfyrirtækjum sem sérstaklega væru fengin til að leysa einstök verkefni í samráði við sveitarfélög og samtök þeirra. Ég tel það líka galla á því fyrirkomulagi sem í gildi hefur verið að það hefur ekki náð til allra landshluta utan Reykjavíkur, þannig hefur Vestfjarðakjördæmi ekki haft neinn iðnráðgjafa.
    Ég hef því í ríkisstjórninni lagt til að gerðar verði breytingar á 11. gr. laganna um Byggðastofnun þess efnis að stofnunin skuli í samráði við einstök sveitarfélög og samtök þeirra veita almenna ráðgjöf varðandi stofnun og rekstur fyrirtækja og hvers konar nýsköpun á sviði atvinnumála. Að mínu áliti mundi slík breyting vera til bóta. Ef þessi breyting verður að lögum munu fjárveitingar til starfsemi iðnráðgjafa sem nú eru veittar iðnrn. framvegis renna til Byggðastofnunar, sérstaklega til atvinnumálaráðgjafar. Þessi tillaga er nú til umræðu og athugunar í þingflokkum stjórnarflokkanna. Ég hef einnig kynnt hana formanni stjórnar Byggðastofnunar, og tel að hún hafi fengið allgóðar undirtektir.
    Ég vil að lokum geta þess að ég hef skýrt formanni nefndarinnar um iðnráðgjafa, sem skipuð var í september, hv. 1. þm. Austurl. Kristni Péturssyni, frá þessari tillögugerð minni og leyst nefndina frá störfum.