Iðnráðgjafar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda og þeim þingmönnum sem hér hafa talað áhuga þeirra á málinu. Það eru nokkur atriði sem ég vil ítreka, einkum vegna þess sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda. Í fyrsta lagi fer því víðs fjarri að þessi tillaga um breytingar á fyrirkomulagi iðnráðgjafar sé hugsuð til að draga úr frumkvæði heimamanna. Þvert á móti er hún hugsuð til þess að efla slíkt frumkvæði og styðja það betur með gangvirkri starfsemi með Byggðastofnun. Í öðru lagi varðandi fjárveitingar til þessarar ráðgjafar tek ég undir það, sem fram hefur komið í máli þeirra sem hér hafa talað, að að veita þarf sérstaklega fé til hennar. Og það verður gert áfram en ekki sem hluti af hinum almennu framlögum til Byggðastofnunar, samkvæmt mínum tillögum.
    Ég tek undir það með hv. 1. þm. Vestf. að þetta fellur mjög vel að þeim hugmyndum sem uppi eru um að Byggðastofnun setji upp útibú úti um land og reyndar tel ég að það geti þá fallið saman við það sem kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, að hann sæi fyrir sér atvinnuþróunarstofur í landshlutum. Þetta tvennt á að fella saman að mínu áliti. Reyndar er það svo að Iðnþróunarfélag Eyjafjarðar er í sambýli við útibú Byggðastofnunar á Akureyri og það er ekki síst sú jákvæða reynsla sem fengist hefur af starfsemi Iðnþróunarfélags Eyjafjarðar og iðnráðgjafa sem þar starfa, sem er undirrót þeirrar tillögu sem ég hef flutt, en ég ítreka að tillagan er enn til athugunar og ýmislegt sem fram hefur komið í þessum umræðum og kann að koma fram síðar getur gert hana enn betri.
    Ég tek undir með hv. 1. þm. Reykv. að tengslin við Iðntæknistofnun eru mikilvæg. En það þarf líka að huga að tengslum við aðrar rannsóknastofnanir atvinnuveganna. Ég sé fyrir mér að í fyllingu tímans megi færa búnaðarráðunautana inn í þessa atvinnumálaráðgjöf til þess að skapa starfsumhverfi eins og hv. fyrirspyrjandi ber mjög fyrir brjósti og fá þannig fleiri en einn starfsmann á stað sem styðja þá hver annan. Kannski verður hægt að koma þessu á í atvinnuþróunarstofum úti um land.