Bjargráðasjóður
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 28 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh. um Bjargráðasjóð. Fyrstu lög um Bjargráðasjóð Íslands voru nr. 45 frá 1913. Þar segir í 1. gr. að stofna skuli allsherjarsjóð fyrir alla landsmenn til hjálpar í hallæri eða til að afstýra því. Þá var iðgjaldið til sjóðsins 25 aurar á hvern landsmann, en á móti áttu að koma 25 aurar úr landssjóði. Síðan hafa þessi lög verið endurskoðuð og í gildi hafa verið lög um þetta efni frá 1950, 1961, 1967 og núgildandi lög um Bjargráðasjóð eru nr. 51 frá 1972. Nú eru að vísu breytt viðhorf þar sem við höfum einnig löggjöf um viðlagatryggingu nr. 88 frá 1982 þar sem segir að setja skuli á fót stofnun er hafi það hlutverk að tryggja gegn tjóni af völdum náttúruhamfara. Það eru þó einungis vissar tegundir náttúruhamfara sem þar koma til greina, skv. 4. gr. eldgos, jarðskjálftar, skriðuföll, snjóflóð og vatnsflóð.
    Á fskj. með stefnuræðu forsrh. frá því í október 1987 stóð að í vændum væri frv. til laga um Bjargráðasjóð frá landbrn., en á hinn bóginn er ekki neitt slíkt að finna í fskj. með stefnuræðu forsrh. frá því í nóvember 1988. Ég hef því leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp.:
    ,,Hvað miðar endurskoðun lagaákvæða um Bjargráðasjóð og hverjar eru hugmyndir ráðherra og ríkisstjórnar um framtíðarhlutverk hans?``