Kaup á erlendum verðbréfum
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Í samráði við Seðlabankann hefur viðskrn. undirbúið drög að reglum um heimildir fyrir innlenda aðila til að kaupa og eiga erlend verðbréf. Ég stefni að því að slíkar reglur verði settar eftir að frv. til l. um verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóði hefur verið afgreitt hér á Alþingi. Ég tel eðlilegt að reglur um þetta efni bíði þess að slík lög hafi verið sett til þess að tryggja öryggi í þessum viðskiptum. Það er reyndar tillaga þeirra aðila sem um þetta mál hafa fjallað, Seðlabankans og annarra, m.a. aðila að verðbréfaþinginu, að þessi háttur verði á hafður. En í þeim reglugerðardrögum sem fyrir liggja er hér lagt til að viðskipti með erlend markaðsverðbréf fari fram með aðstoð og milligöngu þeirra sem eiga aðild að Verðbréfaþingi Íslands. Það er fyrirhugað að heimila einstaklingum og fyrirtækjum að kaupa og eiga verðbréf útgefin af ríkissjóði Íslands í erlendum gjaldeyri og af öðrum innlendum aðilum og sem skráð eru á opinberum markaði erlendis. Þá yrði þingaðilunum líka heimilað að reka verðbréfasjóði með kaupum á slíkum bréfum. Auk þess næði heimildin til þess að reka verðbréfasjóði með markaðsverðbréf sem útgefin eru af ríkissjóðum eða með sjálfskuldarábyrgð OECD-ríkja og reyndar einnig alþjóðastofnana sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði og einnig hlutdeildarskírteini þeirra verðbréfasjóða sem skráð eru á opinberum verðbréfamarkaði erlendis. Seðlabankinn gæti samkvæmt þessum drögum líka heimilað íslenskum fyrirtækjum að kaupa erlend hlutabréf sem út eru gefin af erlendum fyrirtækjum og eru skráð á opinberum verðbréfamarkaði erlendis í þeim tilgangi, eins og kom fram í fsp., að styrkja viðskiptastöðu íslenskra fyrirtækja á erlendum markaði.
    Í þessum reglum eru svo frekari ákvæði um endursölu bréfanna í gegnum þingaðila, um yfirfærslur á gjaldeyri í gegnum viðskiptabanka eða sparisjóði og svo er skilaskylda á innlausnarvirði slíkra bréfa samkvæmt sérstökum reglum nema ráðstöfunin fari fram á innlausnarandvirðinu til annarra lögheimilaðra gjaldeyrisviðskipta innan tilskilins frests.
    Ég mun láta kynna þessi drög að reglum í hv. fjh.- og viðskn. Nd. sem nú fjallar um verðbréfafrv. Þessar breytingar eru mikilvægar því að þær stefna að því að auka frjálsræði til fjármagnshreyfinga milli ríkja í Evrópu á næstu árum. Það stefnir í þá átt að laga íslenskar viðskiptareglur að því sem almennt tíðkast í okkar nágranna- og viðskiptalöndum. Ég bendi líka á að það er nauðsynlegt að setja reglur um viðskipti í hina áttina, þ.e. viðskipti erlendra aðila með íslensk verðbréf, þótt fsp. væri ekki um það. En ég vona að þetta hafi svarað henni eins og hún var fram borin.