Kaup á erlendum verðbréfum
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir skýr og greið svör og vil sérstaklega fagna því að á þetta mál virðist vera kominn góður skriður og að aðild Alþb. að núv. ríkisstjórn virðist ekki ætla að koma í veg fyrir að þetta framfaraspor verði stigið. Hins vegar tel ég ekki einsýnt að þurft hefði að bíða eftir þeim lögum sem hæstv. ráðherra nefndi til þess að setja þessar reglur, enda var það ekki hugmyndin þegar áformin voru tilkynnt fyrir 13 mánuðum, þar sem þau voru tilkynnt sem sjálfstæð ráðstöfun án tengsla við þetta frv. En úr því sem komið er fagna ég því að þetta mál er á góðum skriði, og án þess að vilja fara út í umræður um þau einstöku atriði sem ráðherra nefndi, þá treysti ég því að að þessu máli verði þannig staðið að upphafleg markmið í áformunum frá því í október 1987 náist.