Þriggja fasa rafmagn
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. í þremur liðum:
,,1. Hvaða áætlanir og reglur hafa verið í gildi um lagningu á þriggja fasa rafmagni um byggðir landsins?``
    Ég tel mjög mikilvægt að gerðar séu áætlanir og settar reglur þar sem menn sitji við sama borð og viti hvað framtíðin ber í skauti sér í þessu efni.
,,2. Hverjar eru áætlanir um lagningu á þriggja fasa rafmagni næstu tvö árin, 1989 og 1990?
    3. Hefur verið metin þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn?``
    Í þessari þriðju spurningu er spurt um þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa rafmagn. Þörfin snýst ekki aðeins um að koma þriggja fasa rafmagni á bændabýlin heldur snýst hún einnig um að koma af stað umfangsmikilli atvinnustarfsemi í byggðakjörnum, og reyndar einnig á bændabýlunum. Það ástand sem nú ríkir í rafmagnsmálum stendur nýrri atvinnuþróun fyrir þrifum víða um land. Menn eiga sér drauma um að koma ýmsu á fót en þetta rafmagnsástand torveldar málið. Enn aðrir hafa komið ýmsu í gang í atvinnulífinu við einfasa rafmagn og búa því við erfiða samkeppnisaðstöðu og mun dýrari og óhagkvæmari rekstur.
    Sveitarfélögin hafa víða um land reynt að mæta minnkandi landbúnaðarframleiðslu með því að stuðla að kjarnamyndun í sveitarfélaginu þar sem þjónusta er rekin og ýtt undir ný verkefni á mörgum sviðum. Verkefnin eru á sviði iðnaðar, úrvinnslu, fiskeldis og hvers konar þjónustustarfsemi. Hér búa menn, ekki síst bændur og þessi nýi vaxtarbroddur atvinnulífsins, við þá aðstöðu að verða að notast við einfasa rafmótora sem eru sérsmíðaðir því slíkir mótorar eru vart lengur framleiddir í heiminum, nema þá helst í Kína og hygg ég að þaðan séu slíkir mótorar keyptir hingað. Hér verða menn að leggja í mikinn aukakostnað, t.d. við hina öflugu súgþurrkunarmótora, og margvíslega tækni með miklum þéttaútbúnaði. Þessir einfasa mótorar eru rafmagnsfrekir ekki síst í starti, viðkvæmir fyrir spennufalli, helmingi dýrari í innkaupum og að auki viðhaldsfrekir. Það eru sveitabýlin og byggðakjarnarnir sem þurfa á því að halda að hér verði brugðist við með miklum krafti. Þetta ástand stendur ungu og dugmiklu fólki í atvinnurekstri fyrir þrifum, eins og ég hef greint frá. Þetta ástand gerir það að verkum að atvinnurekstur víða í dreifbýlinu situr skör lægra.
    Nú er það svo að þriggja fasa rafmagn liggur víða í gegnum sveitarfélögin þannig að það sýnist tiltölulega auðvelt að gera átak án þess að um stórkostlegan kostnað sé að ræða.