Þriggja fasa rafmagn
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr þriggja spurninga varðandi þriggja fasa raflagnir um byggðir landsins.
    Fyrsta spurningin er um áætlanir og reglur sem í gildi hafa verið varðandi lagningu þriggja fasa raflína út um land. Það er frá því að segja að árið 1979 samþykkti orkuráð að leggja til við iðnrh. að á næstu átta árum þar eftir skyldi gera átak til þess að styrkja dreifikerfi fyrir raforku í strjálbýli. Þetta átak skyldi miðast við það að um 65% af dreifikerfinu yrði þriggja fasa en með því móti hefði kerfið nægilega flutningsgetu fyrir áætlað framtíðarálag. Verkfræðistofan Rafhönnun gerði áætlun um kostnað og var hann talinn svara til rúmlega tveggja milljarða kr. á núverandi verðlagi. Orkuráð lagði til að þessar framkvæmdir yrðu fjármagnaðar með óafturkræfum framlögum úr ríkissjóði.
    Það er skemmst frá því að segja að samþykkt var að fara að tillögu orkuráðs en þrátt fyrir þetta er nú að átta árum liðnum ekki búið að verja nema 650 millj. kr. til þessa verkefnis, eða um 32% af áætluðum fjárveitingum. Áætlun Rafhönnunar um gerð nýrra þriggja fasa lína hefur verið fylgt, en breytingar á eldri línum eru enn langt á eftir áætlun og hefur nú um 300 km af samanlagt 2400 km af eldri raflínum verið breytt úr einfösun í þrífösun, þannig að þar hefur aðeins verið breytt broti af því sem áformað var.
    Í öðru lagi spyr fyrirspyrjandi hvaða áætlanir séu um þrífösun lína á næstu árum. Því verð ég að svara þannig að því getur enginn maður svarað án þess að hafa fjárveitingarnar fyrir næstu tvö ár á reiðum höndum. Ég vil nefna það að í fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir þinginu, er gert ráð fyrir 40 millj. kr. framlagi til sérstakrar styrkingar á flutningsgetu raflína í strjálbýli og mun áformað að helmingur þeirrar fjárhæðar fari til þrífösunar en hinn helmingurinn til þess að styrkja raflínurnar á annan hátt. Ég get upplýst það að meðalkostnaður við þrífösun er talinn vera um 600 þús. kr. á km og þessar 20 millj. duga því í 33 km af raflínu en á orkuveitusvæði RARIK eru nú 2130 km eftir af einfasa línum. Hér er því ekki um stórt skref að ræða í þessu mikla verkefni og auðvitað verða ekki gerð þarna stór átök nema með verulegum fjárveitingum, og ég tel nú enga möguleika á að fá svo mikið fé til þessa verks.
    Ég vil taka það fram að það er tæpast þörf á því að þrífasa allar þessar línur í bráð, en verkið mætti vissulega ganga hraðar en hingað til. Það er auðvitað ljóst að tímamörk átta ára áætlunarinnar frá 1979 hafa alls ekki staðist, en nú er það tímabil senn liðið. Ætli markið hafi ekki verið sett fullhátt miðað við fjárhagsgetuna?
    Þá kem ég að þriðju spurningu hv. fyrirspyrjanda og hún er um það hvort metin hafi verið þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni fyrir þriggja fasa línur. Mér virðist að það hafi ekki verið gert, en auðvitað er það ljóst að með aukinni notkun á stórum rafhreyflum fer þörfin fyrir þrífösun vaxandi. Mér virðist reyndar

að 65%-markið, sem sett var í þessa átta ára áætlun, hafi ekki stuðst við neina skýrt skilgreinda viðmiðun eða röksemdir. Sú áætlun var því að mínu áliti næsta ómarkviss. Ég tel ástæðu til að taka þessa áætlun frá 1979 til endurskoðunar og að þörfin fyrir þriggja fasa raflínur verði í því sambandi metin að nýju. Rafmagnsveitur ríkisins hafa reyndar óskað eftir því við orkuráð að unnin verði ný slík áætlun í samvinnu orkuráðs, Rafmagnsveitnanna, Orkubús Vestfjarða og annarra aðila sem hlut kynnu að eiga að þessu máli. Ég hef tekið undir þessa ósk og tel að í nýrri áætlun þurfi að meta kostnað og ávinning í heild af þrífösun einstakra lína. Ávinningurinn sem af slíkri styrkingu á línunum fæst verður að vera meiri en kostnaðurinn, hvort sem hann fellur einkaaðilum eða opinberum aðilum í skaut. Ég er hræddur um að þessa hafi ekki verið gætt þegar 65%-markið var sett.