Þriggja fasa rafmagn
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Við hann er ekki að sakast þó að þessi áætlun sem gerð var hafi ekki staðist. En ég fagna því sem fram kom í ræðu hans um að hann muni beita sér fyrir því að taka þessi mál til endurskoðunar, ekki síst þriðju spurningu mína um að þörf atvinnulífsins á landsbyggðinni verði metin út frá því hver kostnaður er og ávinningur.
    Ég tel að hér sé mjög mikilvægt mál á ferðinni og mikilvægt að það verði mótað af festu og leitað leiða til að fjármagna það, ekki síst að mörg sveitarfélögin fái í svokallaða byggðakjarna þrífasa rafmagn til að mæta nýrri þróun í atvinnulífinu. Ég treysti ráðherra til að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að þetta þarfa mál byggðanna á Íslandi verði tekið föstum tökum á næstu árum.