Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Finnur Ingólfsson:
    Virðulegi forseti. Örstutt athugasemd við orð hv. 1. þm. Reykv. hér áðan. Lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna frá 1982 eru samningur milli námsmanna og ríkisvaldsins frá þeim tíma. Það hefur hv. 1. þm. Reykv. margoft viðurkennt. Fyrrv. menntmrh., Sverrir Hermannsson, fór þess á leit við okkur hv. 1. þm. Reykv. ásamt fleiri mönnum að endurskoða lögin um námslán og námsstyrki. Eitt vandamál hefur skotið upp kollinum frá því að þessi samningur var gerður en það er að endurheimtuhlutfall sjóðsins er miklu lægra en áætlað var í upphafi. ( FrS: Það var vitað þegar við störfuðum að málinu.) Það er rétt. Það var vitað þegar við störfuðum að málinu og þess vegna vorum við að vinna að því. Við vorum að leita leiða til að hækka endurheimtuhlutfallið úr 80--85% í yfir 90%. Við áttum að koma með tillögur um hækkun á þessu endurheimtuhlutfalli. Það gerðum við. Ég skrifaði undir það nál. Við sendum það til Sverris Hermannssonar menntmrh. Það var samkomulag um það að menntmrh. mundi síðan leita eftir samstöðu við námsmenn um málið. Það var síðan gert. Þegar námsmenn fóru að skoða hlutina kom í ljós að það var hægt að fara aðra leið sem kom betur við námsmenn en sú leið sem við lögðum til. Þá var ég þeirrar skoðunar að það væri rétt að sú leið yrði farin. Ég er þeirrar skoðunar að ef menn sjá (Gripið fram í.) nýjar og skárri leiðir til að fara, þá eigi menn auðvitað að fara þær. En það virðist vera markmið Sjálfstfl. og var raunverulega markmið hv. 1. þm. Reykv. á þeim tíma að reyna að koma eins svínslega fram við námsmenn og mögulegt var.