Lánasjóður íslenskra námsmanna
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins til útskýringar láta koma fram að breytingar á reglugerð um Lánasjóð ísl. námsmanna höfðu í för með sér að lán til námsmanna voru skert verulega frá því sem gert hafði verið ráð fyrir, en um leið voru lánin opnuð fyrir námsmenn sem höfðu hærri tekjur þannig að sparnaðurinn, sem átti að nást, kom allur niður á lágtekjunámsmönnum meðan fleiri námsmönnum með hærri tekjur var hleypt inn í sjóðinn en áður hafði verið. Niðurstaðan varð sparnaður upp á núll. Það er það alvarlega í þessu vegna þess að Lánasjóður ísl. námsmanna á að vera sjóður til að jafna kjör námsmanna í landinu. Og það er athyglisverð sú tala sem ég nefndi áðan eftir upplýsingum sem ég fékk núna á dögunum frá Lánasjóði ísl. námsmanna, að hækkun útgjalda Lánasjóðsins vegna breyttra tekjuviðmiðana var 312 millj. kr. á ári. Þetta var það sem gert var af Sjálfstfl. meðan hann fór með þessi mál.
    Varðandi svo það sem hv. 1. þm. Reykv. sagði um að það væru efasemdir uppi hjá námsmönnum varðandi framkvæmd okkar á þessum málum, þá skil ég það út af fyrir sig vel. Það er eðlilegt að það séu efasemdir meðan hlutirnir liggja ekki 100% fyrir. Við skulum spyrja að leikslokum og við skulum hvorki dæma mig né aðra aðila þessa máls fyrir svik eða neitt annað fyrr en við vitum nákvæmlega hvað gerist.
    Ég blanda mér svo ekki í deilur aðila ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, þ.e. fyrra ráðuneytis þess manns.