Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Hæstv. forseti. Hv. 11. þm. Reykv. hefur lagt fram fyrir mig spurningar um sölu á Ferðaskrifstofu ríkisins og breytingu á því fyrirtæki í hlutafélag og sölu hlutafjár í því nýja fyrirtæki, Ferðaskrifstofu Íslands hf.
    Í fyrsta lagi er spurt: ,,Hvert var matsverð og hvert var söluverð Ferðaskrifstofu ríkisins?`` Svarið er þetta: Matsverð Ferðaskrifstofu ríkisins var 30,4 millj. kr., en söluverðmæti 28,4 millj. kr. Í lögum nr. 59/1988 um breytingu á lögum um skipulag ferðamála er ríkisstjórninni heimilað að selja 2 / 3 af hlutafé ríkissjóðs í Ferðaskrifstofu Íslands hf. og jafnframt að ákveða fjárhæð einstakra hluta með það í huga að einstaklingar geti keypt hlut í félaginu. Með þetta ákvæði í huga var ákveðið að heildarverðmæti hluta yrði ekki það sama og matsverð heldur að skilja eftir 7,4 millj. kr. sem skuld fyrirtækisins við ríkissjóð. Heildarhlutafé Ferðaskrifstofu Íslands hf. er því 21 millj. kr. Starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins keyptu 2 / 3 hluta hlutafjár í félaginu á nafnverði eða 14 millj. kr.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Hvernig voru eignir metnar og hve stór hluti matsfjárhæðarinnar var viðskiptavild?`` Í sömu lögum og ég áðan nefndi er ríkisstjórninni heimilað að leggja allar eignir og fylgifé Ferðaskrifstofu ríkisins til Ferðaskrifstofu Íslands hf. og skal þá höfð hliðsjón af mati sem framkvæmt verður á eignum fyrirtækisins, þar með talinni viðskiptavild. Í samræmi við þetta fól ráðuneytið tveimur löggiltum endurskoðendum, þeim Árna Birni Birgissyni og Sveini Jónssyni, að framkvæma mat á eignum Ferðaskrifstofu ríkisins er lagt yrði til grundvallar við sölu fyrirtækisins. Mat þetta miðast við 31. des. 1987. Því var skipt í fjóra liði, viðskiptakröfur, varanlega rekstrarfjármuni, eignarhluta í félögum og viðskiptavild. Viðskiptavild samkvæmt mati endurskoðenda var 6 millj. kr., en við sölu fyrirtækisins var sú fjárhæð lækkuð í 4 millj. og skýrir það þann mismun sem ég áðan nefndi á annars vegar matsverði Ferðaskrifstofunnar og hins vegar söluverðmæti.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hve margir starfsmenn keyptu hlut í Ferðaskrifstofunni og hve hár var hlutur hvers starfsmanns?`` Svar: Það voru 24 starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins sem keyptu hlutabréf í Ferðaskrifstofu Íslands hf. sem hér segir: Sjö starfsmenn keyptu hlutabréf fyrir 1 millj. 490 þús. kr. hver, 14 starfsmenn keyptu hlutabréf fyrir 240 þús. kr. hver, einn starfsmaður keypti hlutabréf fyrir 110 þús. kr. og tveir starfsmenn keyptu hlutabréf fyrir 50 þús. kr.
    Í fjórða lagi er spurt: ,,Hvaða kvaðir eru á sölu hlutabréfanna?`` Hluthafar hafa forgangsrétt til áskriftar að nýjum hlutum í réttu hlutfalli við hlutafjáreign sína í félaginu, en að öðru leyti eru engar kvaðir á eigendaskiptum að hlutabréfum í Ferðaskrifstofu Íslands hf. samkvæmt stofnsamningi félagsins.
    Í fimmta lagi: ,,Hefði verið hægt að fá hærra verð fyrir fyrirtækið á almennum markaði?`` Svarið er: Á

það reyndi ekki. Starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins notuðu forkaupsrétt sinn og keyptu hlutabréfin á nafnverði og því reyndi ekki á þetta atriði.
    Ég vil svo taka fram líka vegna orða hv. fyrirspyrjanda að ákveðin atriði sem lúta að framkvæmd eða frágangi sölunnar til starfsfólksins hafa verið til skoðunar í ráðuneytinu og væntanlega fæst niðurstaða í því máli innan fárra daga þannig að gengið verði endanlega frá þessum hlutum. Í því sambandi vil ég taka fram að það er afdráttarlaus skoðun mín að heimild þá til sölu sem er í áðurnefndum lögum hafi átt og eigi eingöngu að nýta til að selja starfsfólkinu samkvæmt forkaupsrétti. Viðræður við starfsfólkið nú, sem teknar hafa verið upp í framhaldi af skoðun ráðuneytisins, lúta að því að tryggja að þannig verði þessu farið.
    Ég tel þó rétt að nefna það að það hefur komið inn í þær viðræður að hugsanlega gætu í framhaldinu komið til samstarfs og þátttöku í rekstrinum með ríkinu og starfsfólkinu aðilar eins og ferðamálasamtök landshlutanna.