Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir þessi greinargóðu svör.
    Þegar mál þetta var til umræðu í hv. Ed. var mjög mikið rætt um hvert verðmæti þessa félags væri. Það er alveg ljóst að viðskiptavild svona ferðaskrifstofu er mjög mikil þegar tekið er tillit til þeirrar sölu sem hefur verið á öðrum ferðaskrifstofum. 4 millj. í því sambandi er mjög lítið.
    Hins vegar fagna ég því, sem fram kom í svari hæstv. samgrh., að það væri ætlun hans að afmarka þetta þannig að starfsmenn ættu einir þetta hlutafé og bæru fjárhagslega ábyrgð á því en ekki aðrir aðilar. Hins vegar verð ég að gera athugasemd við það sem fram kom varðandi kvaðir á hlutabréfum. Þar virðist gert ráð fyrir því að hægt sé að selja þessi hlutabréf öðrum aðilum en starfsmönnum Ferðaskrifstofunnar. Það held ég að sé ekki í anda þeirra laga sem samþykkt voru á síðasta þingi.
    Eftir því sem fram kom í ræðu hæstv. ráðherra eru það 34 starfsmenn sem hafa keypt hlut í Ferðaskrifstofunni og þar af sjö sem hafa keypt fyrir 1 millj. eða meira. Þetta er minni dreifing en ég hafði átt von á að yrði þar sem ljóst er að starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins eins og hún var voru nokkur hundruð og tilgangurinn með því að selja þeim var að dreifa hlutabréfum á sem flesta starfsmenn.
    Ég fagna því að mál þetta hefur verið til skoðunar í ráðuneytinu og það skuli vera ætlun ráðherra að fara ofan í kjölinn á þessu því mér hefur virst ýmislegu ábótavant í þessu máli.