Ferðaskrifstofa ríkisins
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Matthías Á. Mathiesen:
    Virðulegi forseti. Vegna fsp. sem hér er rædd, 46. mál þingsins, vil ég að eftirfarandi komi fram vegna sölu á 2 / 3 hlutum ríkisins í Ferðaskrifstofu ríkisins: Salan var framkvæmd samkvæmt samþykktum lögum frá 1988, þ.e. frá sl. vori, lög nr. 59. Það var í fyrsta lagi haft samráð við ríkislögmann varðandi lögformleg atriði og samningagerð. Eins og fram kom hjá hæstv. samgrh. var það endurskoðandi fyrirtækisins, sem tilnefndur er af Ríkisendurskoðun, ásamt öðrum endurskoðanda, sem kvaddur var til óvilhallur, sem mátu eignir fyrirtækisins til söluverðs.
    Vegna fsp. um kvaðir er rétt að fram komi að ákvæði um forkaupsrétt voru ekki sett í stofnsamninginn m.a. vegna umræðna um kaup sveitarfélaga eða ferðasamtaka þeirra á þeim hlut ríkisins sem ekki var heimilað að selja að svo stöddu samkvæmt lögunum.
    Þegar sala hlutabréfanna fór fram voru það starfsmenn Ferðaskrifstofu ríkisins sem voru kaupendur að hlutabréfunum eins og lögin gerðu ráð fyrir.