Olíubirgðatankur á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Á þskj. 69 hef ég leyft mér, ásamt hv. varaþingmanni Jónasi Hallgrímssyni sem situr ekki á þingi lengur, að bera fram fsp. til viðskrh. um olíubirgðatank á Seyðisfirði. Fsp. er í þrem liðum og hljóðar þannig:
,,1. Hefur viðskiptaráðherra átt hlut að ákvörðunum olíufélaganna um að nota ekki birgðatank Olís á Seyðisfirði?
    2. Hver er þáttur verðjöfnunarsjóðs í þessum ákvörðunum? Hafa stjórnendur sjóðsins látið gera úttekt á hagkvæmni þessa fyrirkomulags?
    3. Hefur viðskrn. látið gera úttekt á hagkvæmni innflutnings svartolíu í olíubirgðastöð á Seyðisfirði með tilliti til þess að meiri hluti loðnubræðslna er starfræktur á Norður- og Austurlandi?``
    Ástæðan fyrir þessari fsp. er sú að það einkennilega fyrirkomulag hefur verið á olíuinnflutningsverslun landsmanna að á Seyðisfirði er stór birgðatankur fyrir olíu, sem tekur um 15 þús. lestir, en hefur staðið tómur í u.þ.b. sex ár. Þetta þykir mönnum eystra einkennilegt, m.a. af öryggisástæðum, því þó að ekki hafi verið hafísár nú upp á síðkastið þá má þó minnast þess að fyrir eigi alllöngu lagðist hafís að Austurlandi og alla leið suður fyrir Hornafjörð. Það skeði síðast árið 1968 eins og rifjað var upp í sjónvarpi einmitt núna í vikunni.
    Í öðru lagi hafði Seyðisfjarðarbær á sínum tíma verulegar tekjur af þessum viðskiptum, en áætla má að hafnar- og vörugjöld af einum farmi af olíu nemi u.þ.b. 790 þús. kr. og á sínum tíma komu u.þ.b. fjórir til fimm farmar af olíu í þennan birgðatank árlega. Þar að auki má benda á að vegalengdin til Seyðisfjarðar frá olíuviðskiptalöndum okkar er styttri heldur en að sigla með alla olíu hingað suður fyrir Reykjanes og dreifa henni síðan á ströndina aftur. Því er hugsanlegt að um verulega hagkvæmni sé að ræða og síðasti liður fsp. hljóðar einmitt um þetta atriði.