Olíubirgðatankur á Seyðisfirði
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Jón Kristjánsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir þau svör sem hann hefur flutt við fsp. okkar. Það er í raun aðeins eitt atriði sem ég vildi undirstrika í tilefni af svörum hans. Það er það atriði að ég tel nauðsynlegt að flutningsjöfnunarsjóður láti gera sjálfstæða úttekt á því hvort hagkvæmt sé að hafa olíubirgðastöð fyrir gasolíu eða svartolíu á Seyðisfirði.
    Mér er fullkunnugt um afstöðu þeirra tveggja olíufélaga, sem ráðherra vitnaði hér í, til þessa máls. Ég veit að þau félög eru með olíubirgðastöðvar annars staðar og þeirra hugur stendur ekki til þess að hafa samstarf um að nota þá birgðastöð sem þarna er. Þess vegna koma mér svör þeirra ekki á óvart. Hins vegar finnst mér það hljóma afskaplega einkennilega ef hagkvæmt er að sigla með alla olíu til landsins í sólarhringsviðbótarsiglingu og dreifa henni síðan með skipum á alla ströndina aftur.
    Ég held að sjálfstæð úttekt á þessu án þess að taka allt bókstaflega sem olíufélögin láta frá sér fara í þessum efnum sé mjög nauðsynleg og tel að brýn þörf sé á að slík úttekt sé gerð.