Sjávarútvegsskóli
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Finnur Ingólfsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 68, sem er 66. mál þingsins, er ég ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni með fsp. til menntmrh. um stofnun sjávarútvegsskóla.
    Í júní 1984 hófu verkalýðshreyfingin og sjútvrn. mjög víðtæka samvinnu um verkmenntun fyrir starfsfólk í fiskvinnslu. Sumarið 1985 fóru af stað námskeið um allt land fyrir verkafólk í fiskiðnaði. Í samningum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda 1986 er samið sérstaklega um þetta námskeiðshald og fyrir þá sem þessi námskeið sæki skuli greiddar sérstakar uppbætur á laun. Þetta námskeiðshald fer af stað í septebmer 1986 eftir átta mánaða undirbúning þar sem kennslugögn og allt námsefni var samið á þessum skamma tíma. Nú hafa 4600 manns sótt þessi starfsfræðslunámskeið fiskvinnslunnar.
    Á ráðstefnu í Færeyjum um miðjan október sl. kom það fram, þar sem við Íslendingar kynntum þessa starfsfræðslu, að við værum orðnir fremstir á þessu sviði, við að kenna verkafólki sem starfandi er á gólfinu. Hinar Norðurlandaþjóðirnar líta mjög til þess verks sem hér hefur verið unnið. Hins vegar eru Norðmenn örugglega fremstir Norðurlandaþjóðanna hvað skólakerfið snertir.
    Ég er sannfærður um að þessi fræðsla, sem hefur farið fram á vegum sjútvrn. og aðila vinnumarkaðarins, muni ekki til lengdar verða í höndum þessara aðila heldur þarf hún að flytjast inn í skólakerfið. Ég held að það séu líka flestir sammála um að eins og skólakerfið er uppbyggt í dag treysta menn því ekki til að sjá um þessa starfsfræðslu.
    Í janúar 1986 skipuðu menntmrh. og sjútvrh. nefnd sem hafði það hlutverk að gera tillögur um stofnun sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi. Helstu niðurstöður þeirrar nefndar voru þessar:
    1. Að stofnaður yrði sjávarútvegsskóli í Reykjavík er tæki við hlutverki Stýrimannaskóla Íslands, Vélskóla Íslands og Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði.
    2. Sjávarútvegsskólinn verði sérskóli á framhaldsskólastigi og heyri undir menntmrn. Aðfaranám að skólanum og nám á einstökum brautum geti einnig farið fram við aðra framhaldsskóla landsins.
    3. Stofnað verði fræðsluráð sjávarútvegsins skipað fulltrúum hagsmunasamtaka, rannsóknastofnana og ráðuneyta sem verði stefnumarkandi í fræðslumálum sjávarútvegsins. Því spyr ég: Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að stofnaður verði sérstakur sjávarútvegsskóli á framhaldsskólastigi eins og starfshópur sá sem menntmrh. og sjútvrh. skipuðu í sameiningu lagði til í skýrslu til menntmrh. í október 1986?