Orlofsdeild póstgíróstofunnar
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og er tiltölulega ánægður með þau. Ég met þau svo að þessi stofnun verði lögð niður í lok apríl að ári og hlýt að skilja svör hæstv. ráðherra á þann veg.
    Það er kannski ástæða til þess að spyrjast fyrir um hvort nokkuð er til í því þó ég ætlist ekki til þess að hæstv. ráðherra svari því hér, enda hefði það þá átt að gerast með formlegri afgreiðslu. Er nokkuð um það að inn í póstgíró sé núna lagt orlof til ávöxtunar frá því að lögin tóku gildi frá 1. maí?
    Ég á vart von á þessu þó um það hafi komið upp sagnir. En ég met fullkomlega svarið. Með þessum hætti er þá búið að koma til skila því að ávöxtun orlofsfjár launþega hefur verið komið í miklum mun betra horf þeim til hagsbóta en nokkurn tímann var gert undir handleiðslu orlofsdeildar póstgíró og hún hafði brugðist vonum manna sem komu henni á laggir á sínum tíma.