Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna orða hv. 5. þm. Reykv. vil ég lesa 37. gr. laga um þingsköp, en hún hljóðar svo:
    ,,Forseti gefur þingmönnum venjulega færi á að taka til máls í þeirri röð er þeir beiðast þess. Þó getur hann vikið frá þeirri reglu við ráðherra og framsögumann svo og til þess að ræður með og á móti málefni skiptist á eða til þess að þingmaður geti gert stutta leiðrétting eða athugasemd er snertir sjálfan hann.``
    Nú er það svo að mér var tjáð fyrir þessar umræður að sú hefð hefði skapast að til skiptis tækju til máls við umræðu um fjárlög stjórn og stjórnarandstaða. Sjálf hefði ég e.t.v. kosið að hafa þessa röð á annan veg en þar sem ég hafði ekki rætt það við formenn þingflokka kaus ég að halda mig við hina gömlu hefð. Þar með gaf ég orðið fulltrúa stærsta stjórnarandstöðuflokksins að loknu máli hæstv. fjmrh., síðan þótti mér eðlilegt að gefa orðið fulltrúa stærsta stjórnarflokksins.
    Þannig hefur þetta verið og það vil ég segja hv. þm. Síðan hafði ég sett upp ræðumannalista áfram á þennan veg. Þess skal þó getið að fulltrúi eins stjórnarflokksins hefur ekki óskað að tala í þessari fyrstu umferð þannig að að loknu máli hv. 1. þm. Vesturl. munu þeir sem beðið hafa um orðið koma í réttri röð.