Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. hefur ekki verið um hríð við þessa umræðu. Mér leikur hugur á að vita hvort hann hafi yfirgefið þinghúsið og hyggist ekki vera hér við. ( Forseti: Forseti hefur nú þegar gert ráðstafanir til að fá hæstv. fjmrh. í salinn.) Það bendir til þess að það muni erfiðleikum bundið að fá hæstv. ráðherra í salinn, fyrst það hefur ekki tekist.
    Hér í umræðunum hefur kennt ýmissa grasa. Hæstv. fjmrh. ætlar að taka til hendi. Nú skal verða lát á þeirri óráðsíu sem verið hefur í ríkisfjármálunum. Nú skal hætt að lifa um efni fram. Aðhald skal haft í meðferð fjármála og skuldasöfnun hætt. Brotið er í blað og horft til bjartari framtíðar.
    Við höfum heyrt í þessum umræðum þennan boðskap hæstv. fjmrh. Þetta er fagnaðarboðskapur, en samt segir hæstv. fjmrh. af lítillæti sínu að fjárlagafrv. feli ekki í sér gleðiboðskap. Eða trúir ekki hæstv. fjmrh. sjálfur hástemmdum yfirlýsingum sínum? Hverju skal nú trúa?
    Hæstv. fjmrh. sagði í ræðu sinni hér fyrr í dag að vegna hins rökræna samhengis sem sé í frv. sé á þessu stigi málsins engin ástæða til annars en að byggja á forsendum frv. Og hvað er nú þetta rökræna samhengi sem hæstv. fjmrh. orðar svo? Ég held að það sé ekki úr vegi að athuga þetta nokkru nánar, því að auðvitað er það höfuðatriði hvaða boðskap þetta frv., sem við nú ræðum, hefur að flytja.
    Ég leita þá fyrst að því sem jákvætt er. Svo sannarlega má nú ekki við að fara í geitarhús að leita ullar í þeim efnum. Oft er þörf en nú er nauðsyn. Það er að sjálfsögðu þýðingarmikið að frv. gerir ráð fyrir tekjuafgangi ef raunhæft reynist. Það er og ekkert nema gott að segja um viðleitni til sparnaðar og hagræðingar í ríkisrekstrinum þó að ekki sé nema sýndur einhver litur á slíku. En allt kemur fyrir ekki ef ekki kemur fleira til. Vegurinn til glötunar er varðaður góðum áformum.
    Hér er enginn eðlismunur á því sem endurtekur sig við fjárlagaafgreiðslu á hverju ári. Talið um sparnað og hagræðingu er alltaf samt við sig. Það kann að vera stigmunur frá ári til árs sem nemur því sem alvara málsins er meiri eða minni í eina tíð eða aðra. Og víst er um það að ástandið er nú ógnþrungið og þörfin brýn fyrir niðurfærslu.
    En sagan endurtekur sig. Þegar menn hafa verið að manna sig upp í sérstakar yfirlýsingar um samdrátt í ríkisútgjöldum, þá er það aldrei að átt sé við lækkun heildarútgjalda heldur í besta falli að aukningin sé minni en hún hafi einhvern tíma áður verið. Þetta þýðir alls ekki að samdráttur hafi orðið í ríkisbákninu. Það heldur alltaf áfram að þenjast út þó að reynt kunni að hafa einhvern hemil á heildarútgjöldunum. Það hefur nefnilega verið fundin sú ljúfa leið að lækka útgjöld til verklegra framkvæmda til að auka þeim mun meir rekstrarútgjöldin. En þetta er vegurinn til glötunar. Sú var tíðin að framlag fjárlaga til fjárfestingar var um 25% af heildarútgjöldunum en í fjárlögum þess árs sem nú er að líða nálgast það 5%. Þetta segir sína sögu.

    Það skyldi nú ekki vera að sagan endurtæki sig við þá fjárlagagerð sem við nú ræðum? Því miður, öll sjúkdómseinkennin lýsa sér eins og venjulega. Þegar nú er talað um samdrátt í ríkisútgjöldunum hækka þau að raungildi þó að fjárfestingarútgjöld lækki að raungildi. Þetta er um samdráttinn í ríkisútgjöldunum, venjubundnar blekkingar, til að láta hjalið um góðan vilja og tilgang sýnast vera alvörumál. Það er að vonum að hæstv. fjmrh. segi að fjárlagafrv. boði ekki fagnaðarboðskap. Það er virðingarverð hreinskilni.
    En við getum ekki hlaupist frá veruleikanum. Enginn efast um að í dag er ástandið alvarlegt og brýn þörf fyrir aðgerðir. Það neitar enginn staðreyndum. Efnahagslífið er í öngþveiti, kippt er stoðum undan heilbrigðum rekstrargrundvelli fiskiðnaðarins hvarvetna í landinu, sjávarútveginum, undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar. Og ekki nóg með það, þetta varðar ekki einungis frystihúsin í landinu heldur líka iðnaðinn, útflutninginn allan, efnahagslífið í heild. Ástandið hefur lýst sér í geigvænlegum greiðsluhalla við útlönd og erlendri skuldasöfnun, verðbólguhvetjandi þenslu í þjónustu og verslun á höfuðborgarsvæðinu og umturnun í byggðajafnvægi. Efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar og staða þjóðarbúsins er í húfi. Vituð ér enn eða hvat? Þurfa menn meira til að rumska?
    Ríkisstjórnin er búin að gefa út sín bráðabirgðalög um efnahagsaðgerðir. Og við þingmenn erum búnir að ræða þau við 1. umr. í Ed. Ég fer ekki að rifja upp hér það sem ég sagði þar um þessar efnahagsaðgerðir. Það var nauðsyn efnahagsaðgerða strax þó að eðli þeirra aðgerða orki tvímælis í ýmsu svo að ekki sé meira sagt. Þetta eru hins vegar bráðabirgðaráðstafanir sem eru einskis nýtar nema annað fylgi á eftir. Allir ættu að gera sér grein fyrir hvað þurfi að fylgja á eftir ef menn á annað borð leggja trúnað á það sem segir í athugasemdum við fjárlagafrv. sem við nú ræðum. Ég trúi því sem þar stendur, að við eyðum meira en við öflum og ég vænti þess að hæstv. fjmrh. trúi sínum eigin orðum. Það er hins vegar ekki nóg að viðurkenna staðreyndir í orði, það verður að gera það á borði. Hæstv. fjmrh. getur það og ber raunar skylda til að gera það með fjárlögum fyrir næsta ár. En það skal haft í huga
að þá þarf hæstv. fjmrh. að taka til hendi heldur betur en þetta fjárlagafrv. ber vott um.
    Ég viðurkenni að það er ekkert áhlaupaverk og ekki heiglum hent að gera það sem gera þarf. Það er ekki nægilegt að koma við hagræðingu og sparnaði í einstaka útgjaldaliðum fjárlaga þó svo sannarlega mikilvægt sé. Það þarf að taka ríkisfjármálin í heild til meðferðar með það fyrir augum að draga úr ríkisumsvifunum til að sníða okkur stakk eftir vexti. Kemur þá margt til greina, svo sem að stýfa ríkisbáknið með því að fela sum verkefni, sem ríkið hefur með að gera, öðrum aðilum þar sem þau eru betur komin, sveitarfélögum, samtökum borgaranna og einstaklingum. En fyrst og fremst þarf að endurskipuleggja stjórnkerfi ríkisins frá rótum í stóru og smáu.

    Ég viðurkenni að það var til nokkuð mikils mælst að hæstv. fjmrh. gerði svo gagngerða endurskipulagningu á ríkiskerfinu á svo skömmum tíma sem hann hafði til stefnu. Annað mál er að hann hefði átt að gefa gaum að því að fara sérstaka leið undir þeim sérstæðu kringumstæðum sem nú eru fyrir hendi. Kom þá tvennt til greina. Annað var það að ná niðurfærslu á fjárlögum með flötum niðurskurði, þ.e. að skera niður alla málaflokka jafnt og þannig komast hjá í bili að leggja vandasamt mat á mikilvægi hinna ýmsu útgjaldaliða. Raunar er það svo að ýmsir fræðimenn eða hagfræðingar halda fram að mikill niðurskurður ríkisútgjalda, sem þarf að bera brátt að, verði ekki með góðu móti framkvæmdur með öðrum hætti en flötum niðurskurði. Hin leiðin var sú að hæstv. fjmrh. gæfi sér nægan tíma til þess að vinna og undirbúa fjárlagafrv. með tilliti til gagngerðra breytinga og stefnumótunar ef mönnum er alvara að brjóta í blað og mæta þeim ógnvænlega vanda í efnahagsmálunum sem staðið er frammi fyrir. Þannig var farið að þegar viðreisnarstjórnin tók við efnahagslífinu í rúst á sínum tíma. Þá var fjárlagafrv. fyrir 1960 ekki lagt fram á Alþingi fyrr en um mánaðamótin janúar--febrúar það ár. Til að fullnægja ákvæðum stjórnarskrárinnar um framlagningu fjárlagafrv. í upphafi þings hafði annað frv. verið lagt fram á tilskildum tíma án þess að við því væri hreyft til afgreiðslu.
    Hæstv. fjmrh. kaus hins vegar ekki að hafa vönduð vinnubrögð og gefa sér tíma til að vinna að máli sem hann sjálfur telur svo mikilvægt að hafi átt að vera tímamótandi verk. Það er ekki von á góðu. Í stað þess kastar hæstv. fjmrh. fram fjárlagafrv. hálfköruðu inn á Alþingi. Það er ekki von á góðu þegar mál ber svo að og við verðum að skoða fjárlagafrv. í öllum sínum ófullkomleika í þessu ljósi.
    Hér er að sjálfsögðu ólíku saman að jafna og fyrsta fjárlagafrv. viðreisnarstjórnarinnar 1960. Þá var lagt fram frv. sem fól í sér fráhvarf frá stjórnunarleiðum sem höfðu komið ríkisfjármálunum og efnahagsmálum þjóðarinnar í öngþveiti. Þá fólst í frv. boðskapur um nýja tíma og stefnumörkun sem lagði grundvöllinn að nýrri stjórnarstefnu flokka sem sátu samfleytt við stjórnvölinn í 12 ár. Nú er engu slíku fyrir að fara með fjárlagafrv. því sem nú hefur verið lagt fram. Þetta frv. hjakkar í sömu hjólförunum, í sama foraðinu sem við höfum verið í. Það boðar ekkert nýtt, leggur engan grundvöll að aðgerðum sem nauðsynlegar eru til úrlausnar aðkallandi vandamálum, engin framtíðarstefnumörkun í málum þjóðarinnar. Hér er tjaldað til einnar nætur. Sú ríkisstjórn sem stendur að þessu fjárlagafrv. eða ríkisstjórn sömu flokka mun ekki sitja við stjórnvölinn í 12 ár og raunar ekki einu sinni í 12 mánuði.
    Þegar allt kemur til alls er það tvennt sem ræður sköpum um fjárlagafrv. það sem við nú höfum til meðferðar. Annað er að það feli í sér nauðsynlegan niðurskurð til viðréttingar efnahagslífinu. Hitt er að forsendur frv. fái staðist. Það er ekki sá niðurskurður ríkisútgjalda sem til þarf til að hafa hemil á

verðbólgu, minnka þenslu, lækka vexti, minnka viðskiptahalla og lækka erlendar skuldir. Það er ekki einu sinni nægilega að gert til að skapa rekstrargrundvöll fyrir útflutningsatvinnuvegina og tryggja atvinnuöryggi fyrir fólkið í landinu. Þetta er ekkert samdráttarfrumvarp, þvert á móti.
    Af þessum ástæðum verða efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar samkvæmt bráðabirgðalögunum einskis nýtar. Og vegna þessa verður ekki komist hjá mikilli gengislækkun til að halda atvinnulífinu gangandi og komast hjá atvinnuleysi. En þá eru allar verðlagsforsendur þessa fjárlagafrv. foknar út í veður og vind.
    Það sem stendur þá eftir, þrátt fyrir allar heitstrengingar hæstv. fjmrh., er að fjárlagafrv. gerir ráð fyrir áframhaldandi útgjaldaþenslu hjá ríkissjóði sem er gerð möguleg með skattahækkunum. Farin er hin þægilega leið að hækka skatta fremur en að færa niður ríkisútgjöldin nægilega mikið til að komast hjá skattahækkun. Þetta er þægilegri leið að sjálfsögðu fyrir fjármálaráðherra en hin þyrnum stráða niðurfærsluleið. En þetta er ekki þægileg leið fyrir almenning í landinu sem skattabyrðina ber. Og víst er það kaldhæðnislegt að þessum byrðum er bætt á herðar þeirra sem byrðarnar bera fyrir en ekki fremur en áður náð til þeirra sem koma sér undan að bera sinn skerf af byrðunum.
    Það gera sér allir grein fyrir að það kostar mikið fyrir fámenna þjóð sem okkur Íslendinga að halda uppi frjálsu og fullvalda velferðarríki. En fólkið í
landinu er fúst að bera þær byrðar og raunar krefst þjóðarvitund okkar Íslendinga að svo skuli vera.
    En þegar auknar byrðar eru lagðar á þjóðina þarf samt tvennt að vera fyrir hendi til þess að fólk uni auknum álögum. Annars vegar þarf fólk að trúa því að það sé ómaksins vert að taka á sig auknar byrðar, trúa því að það skili árangri til góðs. Hins vegar þarf fólk að finna að byrðunum sé réttlátlega skipt. Hvorugu þessara skilyrða er fullnægt með þessu fjárlagafrv. Þær auknu byrðar sem þetta frv. gerir ráð fyrir eru hvorki trúverðugar né réttlátar.
    Það er því miður ekki um annað að gera en að taka undir þau ummæli hæstv. fjmrh. að fjárlagafrv. flytji okkur engan fagnaðarboðskap.