Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Það hefur nú staðið yfir fundur hér í mestallan dag og horfur á því að hann standi hér lengi kvölds enn þá. Það hlýtur að vera fullkomin ástæða til þess að vekja athygli á því að ráðherrar núv. ríkisstjórnar, þegar undan er skilinn hæstv. fjmrh. og reyndar fyrrv. fjmrh., hafa ekki lagt það á sig að koma hér í þingsalinn. Ráðherrar Framsfl. hafa ekki látið sjá sig hér að neinu marki a.m.k. á þessum fundi. Reyndar hefur sá flokkur, Framsfl., að mestu leyti verið í felum í allan liðlangan dag. Það virðist ekki passa að láta bera mikið á svörtu börnunum hennar Grýlu um þessar mundir.
    Það vill nú svo til að ég á ótalað hér í umræðunni síðar í kvöld og þarf þá m.a. að segja fáein vel valin orð við ráðherra Framsfl. Ég vil m.a. af þeirri ástæðu að hæstv. forseti láti nú framsóknarráðherrana vita af því að óskað sé eftir því að þeir verði hér við umræðuna, enda ekki vanþörf að þeir komi fram að þessu leyti eins og sæmilega siðuðum mönnum ber.