Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

     Geir H. Haarde:
    Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á því að taka undir eitt og annað af því sem fram kom í ræðu hv. formanns fjvn. sem talar um þessi mál af mikilli reynslu. Það er alveg rétt að það er mjög virðingarverð viðleitni að flytja ábyrgð á útgjöldum í auknum mæli yfir á herðar forstjóra ríkisstofnana. Það er líka virðingarvert markmið sem fram kemur í frv. að draga úr útþenslunni í vinnuaflsnotkun ríkisins og reyna með skipulegum hætti að fækka fólki sem vinnur við störf hjá hinu opinbera.
    Hins vegar var ekki rétt með farið hjá honum það sem hann sagði í upphafi máls um að allar forsendur í frv. byggðust á því sem kæmi frá Þjóðhagsstofnun. Hann veit það auðvitað mætavel, alveg eins og við öll, að það eru ekki eingöngu efnahagslegar forsendur fyrir frv. heldur sömuleiðis pólitískar forsendur og þjóðhagsáætlun byggir að sjálfsögðu að hluta til á slíkum forsendum. Það er t.d. pólitísk forsenda og pólitísk ákvörðun að hafa hér í landi verðstöðvun út febrúarmánuð og launahækkunarstöðvun til 15. febr. Auðvitað hefur þetta áhrif bæði á þjóðhagsáætlun og þetta fjárlagafrv. Það liggur í augum uppi. Það er ekki hægt að koma hér og segja: Forsendurnar eru óbreytanlegar og koma frá Þjóðhagsstofnun, enda var það nú þannig að þegar fyrrv. þjóðhagsstjóri var gagnrýndur fyrir nokkrum árum fyrir það að lítið samræmi væri milli þjóðhagsspáa hans og hinnar raunverulegu útkomu lét hann það koma mjög skýrt fram að þjóðhagsáætlunin væri pólitískt plagg frá ríkisstjórninni.
    Mig langar aðeins að fara nokkrum orðum um þessar forsendur vegna þess að þær skipta auðvitað verulegu máli og allt sem á eftir kemur í þessu frv., m.a. hin fögru áform hæstv. fjmrh. varðandi lánsfjáráætlun hrynja til grunna ef það kemur í ljós að þessar forsendur standast ekki. Félagar mínir úr Sjálfstfl. hafa reyndar fjallað verulega um þessi mál og ég skal reyna að vera stuttorður því að hér er orðið áliðið, en það er engin tilviljun sem fram hefur komið, m.a. hjá virðulegum forseta Alþýðusambands Íslands, að forsendur frv. séu bara algert rugl. Hann segir það í blaðaviðtölum og það kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. Það er haft eftir forseta Alþýðusambandsins: ,,Forsendurnar eru algert rugl. Þær standast ekki, því er fljótsvarað,,, segir forseti ASÍ í viðtali, sem ég hef í höndunum, við dagblaðið Tímann. Hins vegar reynir hæstv. fjmrh. að bera af sér þessa gagnrýni í ræðu sinni í dag og það er augljóst við hvað er átt. Hann segir, með leyfi froseta:
    ,,Þessar forsendur [þ.e. forsendur frv.] hafa verið gagnrýndar töluvert að undanförnu. Því hefur verið haldið fram að þær standist ekki og þar með sé grundvellinum kippt undan frv.``
    Síðan er haldið áfram að útskýra þetta og það er alveg augljóst mál að hér er verið að beina spjótunum að forseta Alþýðusambandsins, samflokksmanni hæstv. fjmrh., varaþm. Alþb., Ásmundi Stefánssyni. Áframhaldið er á þann veg að það sé slíkt innra samhengi í frv. að það sé engin ástæða til annars, eins

og hér stendur, en að byggja á þeim forsendum sem hér hafa verið raktar, þ.e. forsendunum um launa- og verðlagsmál. Það er svo mikið innra rökrænt samhengi, eins og það heitir, í frv. Á þessu stigi málsins er engin ástæða til annars en að nota þær forsendur sem um er talað.
    Hér orkar margt tvímælis, virðulegi forseti. Vissulega er það þannig að það er samhengi í hlutunum, í fjármálum ríkisins og efnahagsmálum þjóðarinnar og vissulega er dálítið til í því að það sé innbyrðis samhengi að því er varðar verðbólgu, tekjur ríkisins, tekjuafgang og t.d. krónutöluframlög þau sem hér eru nefnd. En þetta samhengi er bara óvart alltaf fyrir hendi þegar samin eru fjárlagafrv. Það vita það allir að tekjur ríkissjóðs hækka með aukinni verðbólgu. Það vita það allir að krónutöluframlög standa í stað í aukinni verðbólgu og þannig minnkar í raun framlagið. Það vita það hins vegar ekki allir, og í því skjóli skákar hæstv. fjmrh. með þessum fullyrðingum, að þó að stefnan í þessum breytingum, tilhneigingin í þessum breytingum, sé sú sem hann segir frá er auðvitað engin fullvissa fyrir því að tölurnar standist á, að það verði akkúrat nákvæmlega það sama sem út úr þessu kemur þegar upp er staðið eins og hér er í raun og veru haldið fram. M.ö.o., þó að stefnan sé sú í þessum hreyfingum eða tilhneigingum sem ráðherrann segir er enginn kominn til með að segja það fyrir fram að upphæðirnar, stærðirnar, verði nægar til þess að þessar forsendur haldi og útkoman verði sú sem um er talað --- og nú gengur hæstv. fjmrh. á dyr. ( Fjmrh.: Ég kem fljótlega aftur.)
    En það er eitt og annað fleira í þessum forsendum sem ég tel ástæðu til að gera athugasemdir við eins og t.d. það að launin í frv., launaútgjöldin öll, eru á áætluðu verðlagi í janúarmánuði nk. Þó að önnur útgjöld séu á áætluðu meðalverðlagi 1989 eru launa- og rekstrargjöld einstakra stofnana á áætluðu verðlagi í janúarmánuði. Og síðan er sagt að þett sé bætt upp með sérstökum lið sem heitir ,,Launa- og verðlagsmál`` og margir munu kannast við úr fyrri frumvörpum. Sá liður lækkar að vísu um 600 millj. frá því í fyrra og þar er komin ein skýringin á þeim tekjuafgangi sem sýnist vera í frv., það eru lækkaðir liðir eins og þessi sem eru mjög óvissir. Það sem ég vildi hins vegar
benda á í þessu sambandi er það að á þessum launalið er ekki gert ráð fyrir nema 250 millj. kr. hækkun frá þessu áætlaða janúarverðlagi. M.ö.o., ríkisstarfsmennirnir 10 þúsund eða 15 þúsund, ég man ekki hvað þeir eru margir, eiga að fá frá janúarverðlagi 250 millj. kr. í launahækkanir þegar heildarlaunasumma ríkisins er milli 23 og 24 milljarðar samkvæmt frv. Þetta er sem sagt u.þ.b. 1%. Þetta er launaforsendan. Er það furða þó að menn reki upp stór augu eins og forseti Alþýðusambandsins og eins og hv. 5. þm. Austurl. sem stendur framarlega í verkalýðshreyfingunni í sínum landshluta?
    Sama er að segja um verðlagsforsendurnar. Hæstv. fjmrh. víkur sér gjörsamlega undan því að láta þess getið hvaða áhrif skattahækkunaráform hans munu

hafa á verðlagið. Samt er augljóst mál að hækkun óbeinna skatta sem er uppistaðan í þessum hækkunum muni hafa áhrif á verðlagið. En það er ekki minnst á það. Það er heldur ekkert minnst á það hvaða áhrif hækkun á þjónustugjöldum einstakra ríkisstofnana, sem menn hafa gert hér að umtalsefni, muni hafa á verðlagið. Það er ekki vikið einu einasta orði að því. Ég er að vísu sammála því markmiði sem fram kemur í hækkun þjónustugjalda einstakra stofnana að það sé skynsamlegt að fara þá leið og tek undir það sem ráðagerð hjá ráðherranum. En auðvitað verða menn að horfast í augu við það að slíkt ráðabrugg hefur einhver verðlagsáhrif og verður að koma með inn í þær verðlagsforsendur sem frv. gerir ráð fyrir.
    Mig langar nú, virðulegur forseti, í örfáum orðum að víkja að hinni auknu tekjuöflun sem áformuð er með þessu frv. Skattahækkanir heita nú reyndar á máli hæstv. fjmrh. ,,breyttar áherslur í tekjuöflun``. Þannig er það kynnt í sérstöku fylgiskjali með fjárlagafrv. Það sem almenningur kallar skattahækkanir heitir ,,breyttar áherslur í tekjuöflun`` hjá fjmrh. Ég hef vikið að þeim málum á öðrum vettvangi, m.a. fyrir viku síðan í umræðum um svokallaða stefnuræðu forsrh., en félagar mínir hafa jafnframt bent á hvers konar mótsagnir séu í þessum áformum og hvers konar blekking það er að vera að tala um einhverja lúxuseyðslu og fjárfestingar og að það sé verið að skattleggja þá sem hafa staðið mest í lúxuseyðslu og fjárfestingum. Er það það fólk sem kaupir happdrættismiðana og lottómiðana og getraunaseðlana, þeir sem stunda mesta lúxuseyðslu? Það mætti halda það. Auðvitað er það tóm fjarstæða og það er heldur ómerkilegt yfirklór í staðinn fyrir að koma bara hreint til dyranna og segja að það sé verið að hækka skattana á öllum almenningi sem er auðvitað það sem er verið að gera og þó alveg sérstaklega á tilteknum stofnunum sem hafa verið margumræddar hér í dag og hafa sérstakar tekjur af happdrættismiðum og líkri starfsemi.
    Mér dettur nú í hug þegar hæstv. fjmrh. talar um lúxus í þessu sambandi, að það er engu líkara en lúxus sé það í hans augum sem annað fólk kaupir. Eins og kerlingin sagði: Lúxus er það sem aðrir kaupa og veita sér. Nei, hér eru miklar blekkingar á ferðinni. Ráðherrann reyndi ekki einu sinni í sinni ræðu að bera hönd fyrir höfuð sér gagnvart þeirri gagnrýni sem komið hefur fram á þessi atriði. Ég ætla ekki að rekja hér hvern einasta tekjustofn sem meiningin er að kreista frekari tekjur úr. Ég nefndi áðan, meðan ráðherrann var fjarverandi, að hann hefur ekki látið þess getið hver verði verðlagsáhrif hinna nýju óbeinu skatta.
    En ég ætla að koma aðeins að tekjusköttum einstaklinga vegna þess að ég óttast að þar sé yfirvofandi skemmdarverk, glapræði, sem felst í því að ætla að taka upp sérstakt nýtt viðbótarskattþrep inn í þetta kerfi. Og ég hygg að hæstv. ráðherra þurfi ekki annað en ræða það við sína sérfræðinga í skattamálum til þess að komast að því að slíkt þrep, þó það gangi mjög í augun á ýmsum aðilum, er

auðvitað ákveðin eyðilegging á þessu nýja staðgreiðslukerfi skatta, ákveðið skemmdarverk sem ég hygg að verði erfitt að bæta fyrir og ég hygg að ráðherrann, þegar hann skoðar það mál grannt, mundi ekki vilja láta verða eitt af hans minnismerkjum í skatta- eða ríkisfjármálum. Hann segir reyndar hér í ræðu sinni, með leyfi forseta:
    ,,Einnig er til athugunar að taka upp sérstakt skattþrep á háar tekjur, en fjölmargir hafa óskað eftir því innan þings og utan að athugun sé gerð á kostum þess og göllum að taka upp sérstakt hátekjuþrep.`` Hann hefur að vísu aðeins hörfað með þessum ummælum frá því sem fram hefur komið áður vegna þess að nú er hann ekki jafnákveðinn í þessari afstöðu sinni. Nú vísar hann í það að BSRB hafi beðið um þetta. Það er því ákveðin von til þess að hann hörfi nú endanlega í þessu máli og hætti við þessi áform sem eru hreint glapræði að mínum dómi. Það þarf ekki annað en að nefna eitt atriði fyrir utan það að einfaldleikinn í kerfinu hverfur og framkvæmdakostnaðurinn, bæði fyrir ríkið, launagreiðendur, launþega verður auðvitað miklu hærri. Það er hægt að nefna þetta allt, en ég nefni eitt til viðbótar og það er spurningin um samsköttun í þessu kerfi, þegar hjón lenda í mismunandi skattþrepi og mismununin sem yrði á heimilum með jafnháar tekjur eftir því hvort þeirra er aflað af öðrum aðilanum eða báðum og hvort sá sem aflar meira eða hugsanlega allra teknanna lendir þá í hærra þrepinu, en hitt heimilið hins vegar með allar sínar tekjur í því lægra. Ég held að hæstv. ráðherra ætti að hugleiða þetta.
    Hér hefur verið vikið að fyrirhuguðum áformum um skattlagningu á happdrættismiða. Ég ætla ekki að koma nánar að því, en ég skal viðurkenna eitt gagnvart hæstv. ráðherra vegna þess að hann lítur svo á, að því er manni sýnist, að þessi skattlagning á happdrættismiða og þess háttar starfsemi sé ekki skattur á starfsemina sjálfa heldur á þá sem kaupa miðana. Það sem ég ætla að viðurkenna fyrir ráðherranum er það að þetta atriði getur verið umdeilanlegt. Maður veit það ekki fyrir víst fyrir fram hver greiðir þennan skatt, hvort neytandinn gerir það eða hvort sá sem selur miðana gerir það. Þetta er klassískt dæmi um tilfelli þar sem slíkt er ekki vitað fyrir fram. Ef þetta lendir á neytendunum er það almenningur í landinu sem borgar þetta. Ef þetta lendir á happdrættisseljendunum eru það öryrkjarnir, Háskólinn, menningarstofnanirnar og þeir aðilar sem borga skattinn. Hugsanlegt er að þetta blandist eitthvað og þetta muni skiptast að einhverju leyti milli þessara tveggja aðila. Hæstv. ráðherra segir hins vegar að það sé hugasnlegt að fara aðra leið, sem sé þá leið að draga úr framlögum ríkisins til reksturs þeirrar starfsemi sem happdrættin fjármagna. Og þá er hins vegar, hæstv. ráðherra, enginn vafi á því hver borgar starfsemina þannig að þarna stangast á annars vegar yfirlýsingar ráðherra um það hver eigi að borga happdrættisskattinn, hann segir að neytandinn eigi að gera það, almenningur í landinu, fólkið með

lúxuseyðsluna, og hins vegar hin leiðin sem hann býður upp á sem er sú að draga úr ríkisframlaginu til reksturs þeirrar starfsemi sem happdrættin fjármagna vegna þess að þá er enginn vafi á því hver borgar hana. Það eru aðilarnir sem reka happdrættin, getraunirnar, lottóin, þ.e. Háskólinn, íþróttastarfsemin og menningarstarfsemin sem marggetið er hér í þessum umræðum.
    Ég skal ekki lengja þetta mikið frekar, virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að hafa fengið að skjótast inn í umræðurnar á milli ræðumanna. En ágreiningurinn í ríkisstjórninni leynir sér ekki. Gegn þessum skatti hefur fulltrúaráð Framsóknarfélaganna í Reykjavík sérstaklega ályktað og þm. fulltrúaráðs Framsóknarfélaganna í Reykjavík, hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson, hefur lýst því yfir að hann styðji ekki þessa skattlagningu. Það sem fram hefur komið hjá hæstv. forsrh. er aftur á móti að þetta sé svona allt til athugunar. Það sé ekkert ákveðið í þessum efnum en margt komi til greina og þetta verði allt saman einhvern tíma ákveðið. ( Fjmrh: Það er rétt hjá honum.) Það er rétt hjá honum, já. Þá er það í samræmi við það sem hann segir í blaðaviðtali, þegar hann er að tala um niðurskurðinn á ríkisfjármálunum, ,,kannski ekki nógu mikill á sumum sviðum, e.t.v. of mikill á öðrum, ég viðurkenni það.`` Hugsanlega of mikið gert fyrir suma, of lítið gert fyrir aðra. Er þetta ekki þessi dæmigerða framsóknarafstaða sem þarna er komin fram og menn sem hafa starfað með Framsfl. þekkja.
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki hafa frekari orð um þetta að sinni og hef lokið máli mínu.