Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 10. nóvember 1988

    Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Hæstv. fjmrh. hefur flutt sína frumræðu sem slíkur um fjárlög íslenska ríkisins og margt af því sem hann sagði og er skrifað hér á blað sem dreift var til þingmanna að hefð er alveg rétt. Ég held að þigmenn geti almennt tekið undir mest af þeim lestri sem var í kringum tölurnar í ræðunni og er ákaflega hefðbundinn lestur fjmrh. Ég kannast sjálfur við ýmislegt af þessu frá forverum mínum í því embætti og frá sjálfum mér líka. Lítið hefur því breyst annað en að sjálfsögðu ástandið í þjóðfélaginu og tölurnar.
    Ég var á fundi síðdegis í dag og var með ræðu hæstv. fjmrh. með mér. Á þessum fundi voru um 70--80 manns og ekkert fólk sem hæstv. fjmrh. nær til með nýjum skattstiga. Það merkilega við þetta fólk, sem sumt á í miklum erfiðleikum, er að sumt hefur tapað öllu sem því hafði tekist að byggja upp í kringum sig, fasteignum, heimili, öllu nema trúnni. Þó að margir einstaklingar hafi tapað trúnni á líðandi stund og trúnni á framtíðina var þarna fólk sem hafði glatað öllu öðru en trúnni og þetta fólk sagði og vitnaði í hin fleygu orð Kennedys forseta þegar hann sagði að fólk ætti að spyrja: Hvað getum við gert fyrir þjóðina? Það ætti ekki að spyrja allan tímann: Hvað getur þjóðin gert fyrir mig? Þetta fólk vantaði leiðtoga, það vantaði einhvern flokk, einhvern sem gæti leitt það inn á brautir sem bæru árangur þjóðfélaginu í hag. Það sagði í dag: Hvað getið þið þingmenn fært okkur? Hvaða boðskapur er það sem getur sameinað okkur því að við gerum okkur grein fyrir því að þjóðin stendur frammi fyrir sama vanda og áður en þó stærri? Vandinn er sá sami og hann var þegar ég var fjmrh., en hann er stærri og meiri og meira áberandi vegna þess að eftir því sem tíminn líður og við erum lengur í því hjólfari ógæfunnar sem við erum í í efnahagsmálum og höfum verið undanfarin mörg ár kemur hann nær og nær einstaklingum og fyrirtækjum og endanlega að sjálfsögðu móðurskipinu sjálfu, þjóðfélaginu. Og fólkið, þetta fólk sem finnur sig í vanda statt, veit ekki hvar það á að sofa í kvöld, veit ekki hvað það borðar á morgun, segir: Hvað getum við gert til þess að þjóðin sameinist í stríðinu við verðbólguna, í stríðinu við tilveruna? Og á sama tíma og ég er að hlusta á þetta litla fólk kem ég svo hingað niður í Alþingi inn í sömu hefðbundnu ræðurnar ár eftir ár, sömu deiluna á milli flokka og á milli einstaklinga sem ber okkur ekkert fram á veginn til blessunar. Ég verð að segja að það er erfitt fyrir mig að tala svona héðan úr ræðustól á hv. Alþingi á sama tíma sem ég hef engin önnur ráð til úrlausnar en vonina um að einhvern tíma geti orðið þjóðarfriður, sem hefst hér á Alþingi, um að taka raunverulega á vanda þjóðarinnar í efnahagsmálum. Og þetta litla fólk vitnaði í stórar stundir í okkar sögu, það vitnaði til baráttunnar í landhelgismálinu og öðrum slíkum málum sem eru stór og sameinuðu þjóðina og á sama hátt var óskað eftir því að við hér á Alþingi hefðum forustu um að finna leiðina. En það er alveg ljóst, hvort það ert þú,

kæri kollegi, eða hvort það er ég sem stend hér, að við erum ekki menn til þess að finna þessa leið. Það er alveg ljóst því að við höldum áfram að hjakka í sama farinu.
    Það þýðir ekkert að tala málefnalega um fjárlagafrv. eins og það liggur fyrir, það þýðir ekki vegna þess að það stenst ekki. Það stenst ekki þegar ein ríkisstjórn, sem ég var í, sú næsta sem tók við og þessi sem er við völd núna hefur það að leiðarljósi að reyna að minnka, alla vega ekki auka erlendar skuldir, heldur ekki innlendar, að á sama tíma sé ríkissjóður, sem kvað hafa verið síðast þegar ég vissi með 11 eða 12 milljarða yfirdrátt í Seðlabankanum, að gera ráðstafanir sem þýða aukinn yfirdrátt í Seðlabankanum sem á að nota til þess að stofna nýtt bákn, sem er Atvinnutryggingarsjóður, og með því framlagi sem átti að fara í Atvinnuleysistryggingasjóð, á sama tíma og fyrirtæki og fjölskyldur eru að fara á hausinn og atvinnuleysi blasir við, á sama tíma og ráðstafanir fyrir sjávarútveginn á að gera með nýjum erlendum lánum og svona má lengi telja. Það blasa við þjóðinni efnahagsvandamálin. Við skulum ekkert loka augunum fyrir því. Erlendar skuldir eru að fara upp í 140--150 milljarða kr. og hvað skeði á síðustu þremur árum? Það skeður það að útgjaldahlið fjárlaga eykst frá einu ári til annars. Ef við tökum síðustu þrjú árin voru útgjöld ríkissjóðs 33 milljarðar fyrir rúmum þremur árumm, voru 43 milljarðar 1987. Það eru 65 milljarðar 1988, það eru 76 milljarðar 1989 og fjvn. og Alþingi hafa ekki enn þá komist að endanlegri niðurstöðu útgjaldahliðarinnar. Til þess að ná jöfnuði þarf að auka skatta og þeir hafa að sjálfsögðu aukist í hlutfalli við aukin útgjöld. Og nú á að innheimta skatta, allt samkvæmt niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar, samkvæmt formanni fjvn. til þess að hafa 1,2 milljarða tekjuafgang umfram þessa 76 milljarða í útgjöldum á sama tíma sem fyrirtæki, einstaklingar og fjölskyldur þurfa að þola niðurlægingu heimsókna opinberra aðila sem loka fjölskylduna úti.
    Og ég get sagt ykkur eitt. Hingað til mín í Alþingi hafa komið einstaklingar sem báðu um aðstoð. Ég gat ekki veitt þá aðstoð því að ég heyrði ekkert meira frá þessum einstaklingum. En þegar ég fór að leita að ástæðunni
fyrir því hvers vegna þeir komu ekki aftur fékk ég að vita að þeir mundu aldrei koma aftur. Svo mikil var pressan að þeir komu aldrei til mín, þeir komu aldrei til neins okkar. Eftir stendur ekkja með börn. Og þetta er ekkert einsdæmi. Og aðalástæðan er hver? Við hér, þjóðkjörnir fulltrúar, komum okkur ekki saman um lausnir.
    Ég þarf ekki að hafa þessa ræðu mikið lengri vegna þess að öll vinnubrögð og allar niðurstöður verða líka hefðbundnar, breyta engu. Næsta ár hækkar útgjaldahliðin um 20--30 milljarða til viðbótar og til þess að ná jöfnuði hækka skattarnir enn þá um hlutfallslega sömu upphæð. Svona heldur þetta áfram svo lengi sem við erum ekki menn til þess að taka á vandanum sem ein heild og getum þá kannski einu sinni gleymt flokkadráttum og lókalpólitík.

    Það er nefnilega mikið til í því sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson sagði hér áðan: Þar reynir á hvort ábyrgð þingmanna er svo rík að þeir afgreiði þetta frv. af bestu samvisku --- eða eins og hann sagði, afgreiði útgjaldahlið fjárlaga. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að hver einasti maður hér inni vill gera vel. En það er með ykkur alveg eins og mig, ég finn ekki leiðina. Og það skiptir ekkert um niðurstöðu Þjóðhagsstofnunar meðan við hér, hvort sem við erum ráðherrar eða þingmenn, gefum pólitískar forsendur sem byggt er á, eins og hv. þm. Geir H. Haarde sagði hér í sinni ræðu og er alveg rétt, hvar í flokki sem við stöndum er það rétt.
    Það sem mér þótti upplýsandi hjá hv. formanni fjvn. var að hann gaf mér tilefni og ástæðu til þess að skilja hans ræðu þannig að þessi fjárlög hafi ekki verið betur rædd í stuðningsflokkum ríkisstjórnarinnar en það að hann gaf í skyn að þm., hver og einn, alla vega í hans flokki, ættu eftir að gera sínar athugasemdir og þar gætu komið breytingar. Ég veit það að þegar ég gegndi embætti fjmrh. fór ekkert frv. og ekki lína í fjárlögunum inn á Alþingi fyrr en allir flokkarnir, þeir voru ekki nema tveir þá, Framsfl. og Sjálfstfl., voru búnir að samþykkja. Og þá á ég við þingflokkana, ekki bara ríkisstjórnina. Fyrst var það ríkisstjórnin, síðan þingflokkarnir og þegar stuðningur var nokkuð tryggður fór frv. fyrir Alþingi en ekki fyrr. Þess vegna var það mér ekkert undrunarefni að ræða hans var öll á þá leið að lýsa ábyrgð á þingmönnum almennt vegna væntanlegs skipbrots fjárlaganna. Þetta var sá skilningur sem ég lagði í orð hv. formanns fjvn., að gera þingheim fyrir fram ábyrgan fyrir því, helst þá sem ekki standa að ríkisstjórninni, ef fjárlögin næðu ekki fram að ganga, en bætti svo við að ábyrgðin væri þung á þeim sem ekki standa að ríkisstjórninni, líklega vegna þess að ríkisstjórnin veit nú, og átti að vita það áður en hún var mynduð, að hún hefur ekki tryggan meiri hluta. Ég skal ekkert segja hvort hún hefur hugsanlegan meiri hluta eða ekki fyrir þeim tekjuöflunarfrv. sem hljóta að eiga eftir að sjá dagsins ljós.
    Ég vil ekki lýsa neinu, hvorki andstöðu né stuðningi við þetta fjárlagafrv., síst af öllu, og þá sérstaklega vegna þess að ég hef ekki kynnt mér það svo vel að ég telji mig færan um það. Ég vil lesa betur fjárlagaræðu hæstv. fjmrh. og ég vil sjá betur þau tekjuöflunarfrv. sem hafa verið boðuð, en eiga eftir að koma. En hvernig sem okkar hugur er til ríkisstjórnarinnar, og ég tel mig svo sannarlega ekki stuðningsmann hennar, er alvaran fyrir hendi og ábyrgðin sem hvílir á okkur öllum er fyrir hendi og fólkið sem við þykjumst vera að vinna fyrir skilur ekki það sem við erum að segja hér, það skilur ekki umræðuna fram og til baka um einstaka liði. En það skilur hvar skórinn kreppir að úti í þjóðfélaginu sem virðist vera svo langt frá okkur hér. Það kallar til okkar, gefið okkur leiðsögn, vísið okkur veginn. En við erum ekki fær um það, hvorki þú né ég. Þessi fjárlög, eins og þau eru hér og nú, eru staðfesting á þessari skoðun fólksins og með þeim höldum við

áfram að þrengja að fólkinu. Fyrirtækin halda áfram að loka og fólkið að missa sín heimili og þjóðfélagið að koðna niður. Og það þýðir ekkert að segja að það hafi ekki verið góðæri vegna þess að guð hefur gefið okkur meira undanfarin ár en nokkurn tíma áður í sögu þjóðarinnar. En við þurfum alltaf meira og meira en við höfðum mest áður og þetta gengur ekki, það gengur ekki. Þrátt fyrir andstöðu mína við ríkisstjórnina ætla ég að vona að hún finni leið til að vísa okkur og litla fólkinu, sem ég var að segja frá áðan, veginn út úr þessum vanda.